Dr. Kiss Kiss

Ég tilheyri diskókynslóðinni skilst mér. Samt finnst mér ég tilheyra hippatímanum, bæði hvað varðar viðhorf og tónlistarsmekk. Mér fannst diskóið ekkert leiðinlegt en ég var heldur ekkert sérstaklega hrifin af þeirri tónlist. Ég var tæpra 9 ára þegar ég uppgötvaði Megas, heyrði í honum í útvarpinu og fékk hann gjörsamlega á sálina. Mamma gaf mér Fram og aftur blindgötuna stuttu síðar og vinkonum mínum, sem kunnu Abba textana utan að (án þess að skilja neitt í ensku nema baby og I love you) og sungu hástöfum í hárbursta með tilheyrandi danshreyfingum, fannst ég í besta falli sérvitur og þó miklu fremur hreinræktaður fáviti.

Samt var eitt diskólag sem heillaði mig -að vísu ekki á sama hátt en þó alveg jafn mikið og Megas. Þetta lag var Dr. Kiss Kiss með hljómsveitinni 5000 Volts. Ég hef líklega verið 10 ára þegar ég heyrði það fyrst og það hafði strax hvílík áhrif á mig að mér fannst ég eiga leyndarmál þótt ég vissi ekki almennilega sjálf hvað fólst í því. Ég skildi ekkert í textanum umfram Doctor Kiss Kiss og dirty dog en lagið sjálft, raddbeiting söngkonunnar og orgin og stunurnar sem hún rak upp, gerðu þetta að sérdeilis dónalegu lagi. Og dónaskapurinn í því smaug inn í mig og gegnum mig og það gerðist eitthvað svo dónalegt innra með mér að þrátt fyrir stórgóðan orðaforða og óvenjulegt hispursleysi, hefði enganveginn getað komið orðum að því. Mér leið einkennilega vel í öllum þessum dónaskap og má segja að ég hafi átt lögheimili í þessu lagi, spilaði það stanslaust þar til snældan slitnaði.

Ég hafði ekki heyrt lagið í 25 ár þegar bróðir minn Mafían fann það á netinu og brenndi það fyrir mig á disk fyrir nokkrum vikum.

Það er alveg jafn dónalegt og mig minnti.