Hættum að borga

Ég er hætt að borga af húsnæðisláninu mínu og ég hvet aðra til þess sama. Jú, það er áhætta en ég trúi því að nú sé almenningur búinn að fá nóg af þeirri okurvaxtastefnu sem viðgengst hér og sé tilbúinn til að grípa til aðgerða.

Breið samstaða um að hætta að borga af lánum hjá ríki og bönkum verður öflug mótmælaaðgerð, án nokkurrar hættu á meiðslum, eignatjóni eða handtökum. Allsherjar greiðslustræk myndi valda svo miklum vandræðum að það ætti að sannfæra þessa heyrnarlausu ríkisstjórn um að við sættum okkur ekki við að nokkrir leynimakkarar ákveði einhliða að almennir borgarar taki að sér að greiða skuldir sem þeir hafa ekki ábyrgst. Fáir Íslendingar eiga skuldlaust húsnæði og þeir sem eiga það eru flestir með einhverjar aðrar skuldir í bönkum. Það er hægt að kúga einstaklinga, en það er ekki hægt að bera 300.000 manns út af heimilum sínum og gera meirihluta þjóðarinnar gjaldþrota.

Hættum að borga og krefjumst þess að verðtrygging verði afnumin. Krefjumst þess að í stað þess að grafa undan láglaunafólki, verði laun bankastjóra og ráðherra lækkuð verulega, þingmönnum fækkað og kjör þeirra skert, sendiráð víðast hvar lögð niður, allt bruðl-að-geðþótta-ráðherra-fé tekið af ráðuneytum og allt sem kallast risna á vegum hins opinbera afnumið. Við getum náð fram hverju sem samstaða næst um, bara með því að hætta að borga. Ef næst breið samstaða gæti jafnvel einn mánuður dugað.

Hvort sem við erum í fjárhagsvandræðum eða ekki, stöndum saman um að senda ráðamönnum skilaboð sem þeir skilja, með því að sjá til þess að þann 1. desember fari eins lítið fé inn í bankakerfið og ríkiskassann og mögulegt er. Hættum að borga.

Álrænt fling

Ég hef alltaf verið svolítið svag fyrir íróníu. Það vantar góða íslenska þýðingu á það orð því íslenska orðið kaldhæðni nær aðeins litlum hluta þess sem telst írónía. Ég held þó að sé óhætt að ganga svo langt að kalla það kaldhæðni þegar Björgólfur fær hvatningarverðlaun fyrir að kaupa sér tónlistarmenn og þegar Baugur fær útflutningsverðlaun. Halda áfram að lesa

Auk gullmola margra

Ég verð stöðugt meira hissa á vinnubrögðum lögreglunnar. Þetta er auðvitað bara venjulegt fólk, sem getur gert mistök en lögreglan er ekki bara venjulegt fyrirtæki heldur opinber stofnun sem fer með viðkvæm mál og má ekki gera of mörg alvarleg mistök. Þessvegna hefði ég haldið að vinnureglur sem og siðareglur væru mjög skýrar og þeim vel fylgt eftir. Ég hélt líka að hjá stofnun eins og lögreglunni væri algerlega á hreinu hver á að gera hvað. Halda áfram að lesa