Ráðgjöf gegn heimskupörum

Ég vissi ekki að til væri fagleg ráðgjöf gegn heimskupörum. Annars langar mig að vita af hverju er tekið fram að hann megi ekki meðhöndla sprengiefni. Hefur hann gert það? Má fólk almennt leika sér að sprengiefnum? Er einhver sérstök ástæða til að álíta að hann hafi áhuga á sprengiefnum?

Harmaklám

Ég verð að játa að ég skil ekki alveg þessar fréttir .

Ekkert hefur komið fram um að þessu fólki hafi verið synjað um áfengismeðferð eða það beitt órétti á nokkurn hátt. Er það fréttnæmt að til sé fólk sem vill frekar liggja úti en að þiggja aðstoð til að hætta að drekka? Eða eru skilaboðin þau að þörf sé á hjónaathvarfi fyrir ógæfufólk? Ég er ekki gersneydd eymingjasamúð en mér finnst nú samt að við ættum fyrst að sjá til þess að hjón á elliheimilum fái að deila herbergi. Það er ekki til nein meðferð sem hefur langvarandi áhrif gegn öldrun.

En þetta er náttúrulega ekki frétt. Ekki umfjöllun um félagsleg vandamál heldur. Það er bara kominn tími á einhverja tragedíu til að runkast á. Það er kannski bara góðs viti að fjölmiðlar skuli ekki hafa fundið neitt safaríkara en þetta.

Ógnvaldurinn situr fyrir svörum

Reykjavíkurakademían stendur fyrir umræðufundi um grundvallargildi samfélagsins á morgun kl 17.

Ógnvaldur grunnildanna heldur stutta framsögu og svarar spurningum í framhaldinu. Sjá hér

Ég hvet að sjálfsögðu allt áhugafólk um lýðræði og tjáningarfrelsi til að mæta.

Íslenskir bananar?

Bananar ættaðir frá Íslandi? Hvenær varð til íslensk bananaætt? Ég hélt að bananar væru hitabeltisávextir sem útilokað væri að rækta á Íslandi nema þá í gróðurhúsum og að þessir 3 gróðurhúsabananar sem hafa ratað í verslanir hér væru sprottnir af suður-amerísku fræi.

Getur verið að þetta sé allt saman misskilningur og að Grænlendingar séu í raun að gera tilraun til að koma sér upp stofni íslenskra nýnasista?

Annars finnst mér það besta við þessa frétt að hún skuli vera flokkuð sem innlend frétt á moggavefnum. Það er eitthvað svo ælukrúttlegt við þessa endalausu sjálfsmiðun.

Hvítt er litur hreinleikans

Æðisleg röksemdafærsla hjá þessum kjánum.

Ég er líklega eins hvít og fólk sem ekki þjáist af blóðskorti getur orðið en þegar ég ber húðlit minn saman við hvítan ljósritunarpappír er „hreinleikinn“ langt frá því að vera augljós.

Ég hvet alla til að kynna sér málstað þessara hvítu hetja sem ekki þora að segja deili á sér. Ég vona sannarlega að síðunni verði ekki lokað því ekkert er líklegra til að verða þeim að falli en þeirra eigin málflutningur.

Já og ég fagna líka málfarinu og stafsetningunni á síðunni. Sá hroði kemur virkilega upp um menntunarstig, metnað og frumleika þessara djúpúðgu manna sem telja sig öðru fólki æðri. Ég er svona að velta því fyrir mér hvernig útkoman yrði ef ritstjóri Skaparans og ritstjóri Zion leggðu saman. Þessar síður eru svona álíka geðslegar og álíka gáfulegar líka.

Bara smá leki

Síðast þegar fréttist af lekanum úr aðrennslisgöngum Kárahnjúkavirkjunar var hann um 200 lítrar á sekúndu en það ku víst ekki vera neitt umtalsvert samkvæmt talsmönnum Landsvirkjunar. Þar sem ekkert hefur heyrst meira um lekann frá því á miðvikudag í síðustu viku liggur beinast við að álykta að hann sé ennþá álíka mikill. Sé það rétt hefur á þessari einu viku, runnið út í jarðveginn vatn sem myndi nægja til að fylla Laugardalslaugina 46 sinnum. En þetta er auðvitað ekkert sem orð er á hafandi. Austurland er stórt og nóg pláss fyrir manngerðar mýrar.

Annars er ég að velta því fyrir mér hvort Mammon sé ekki bara að svara bænum mínum. Ef ég fæ Vigni til að selja Landsvirkjun vatslekanema verður vinnustofan mín orðin að stórveldi innan skamms og við getum farið að flytja inn Kínverja til starfa.

Svarti galdur og opinber flenging á Austurvelli

Í tilefni af gangsetningu Kárahnjúkavirkjunar mun ég með dyggri aðstoð nokkurra félaga minna, fremja svarta galdur á Austurvelli, föstudagskvöldið 9. nóvember kl 20:00.

Ætlunin er að særa fram álfa, tröll og fleiri vættir. Ég mun eggja þær til að leggja baráttunni gegn stóriðjustefnunni lið og kalla bölvun yfir orkufyrirtækin, álrisana og hverja þá ríkisstjórn sem gefur leyfi fyrir stórkostlegri eyðleggingu á náttúru Íslands.

Einnig ætlar íslensk alþýðukona að mæta á staðinn og rassskella þá þingmenn sem bera ábyrgð á Kárahnjúkavirkjun.

Gert er ráð fyrir að dagskráin standi í um 20 mínútur. Hvur sem vill getur tekið þátt í athöfninni með því að mæta á staðinn og taka þátt í því að vekja vættirnar með því að klappa lófum, stappa fótum, dansa, hoppa, hrópa eða gala. Athugið þó að athöfnin gæti vakið ungum börnum og fullorðnum grenjuskjóðum óhug.