Sjálfvirk sveiflujöfnun

Eina útskýringin á efnahagsáætluninni sem almenningi hefur staðið til boða er þessi:

Í raun er gert ráð fyrir að láta sjálfvirka sveiflujöfnun virka
að fullu á næsta ári og við útreikning á bata samkvæmt langtímaaðhaldi í ríkisfjármálum er reiknað út frá hagsveifluleiðréttum frumjöfnuði sem gefur því meiri slaka sem kreppan er dýpri.

Ólík staða

Lögreglumenn krefjast bóta og fá þær vafalaust en þeir mótmælenda og óvirkra áhorfenda sem meiddust og sættu tilefnislausum handtökum, geta ekki krafist eins eða neins. Enginn lögfræðingur fæst til að taka þau mál að sér, því það er nánast vonlaust að vinna mál gagnvart stofnun sem sjálf sér um að rannsakar ákærur á hendur sér.

Þökkum þeim

Það er með öðrum orðum lögreglunni að þakka að uppreisnin varð ekki að alvöru byltingu. Við getum þakkað Stefáni og hundum hans fyrir að við sitjum ennþá uppi með ónýtt stjórnkerfi, ónýtt efnahagskerfi, spillta embættismenn og vanhæfa ríkisstjórn fyrir nú utan það að vera komin undir AGS.

Það er fyrir framgöngu lögreglunnar sem við höfum nú verið formlega skuldbundin til að greiða skuldir útrásarinnar. Við getum þakkað lögreglunni fyrir að gera stjórnvöldum fært að skerða þjónustu í heilbrigðis- og menntakerfinu og draga úr þjónustu landhelgisgæslunnar.

Stór spurning hvort þeir sem harðast gengu fram eigi ekki að fá orðu. Fálkaorðu handa þeim sem brutu bein og veittu höfuðáverka með kylfum og svo má taka upp piparúðaorðuna handa hinum.

mbl.is Aðferðafræðin gekk upp

Gvuð og Osama

Hvað eiga Gvuð og Osama bin Laden sameiginlegt?

Fólk deilir um hvort þeir séu til eða ekki. Hvort þeir séu dauðir eða ekki

Hvort sem þeir eru til eða ekk gegna þeir fyrst og fremst því hlutverki að auka, tryggja og viðhalda fáránlega miklum völdum stofnana sem þrífast á ótta almennings við þá.

Báðir reka heimsvaldastefnu sem áhangendur þeirra telja að sé gott svar við heimsvaldastefnu annarra en hvorugur hefur þó náð sérstökum árangri í viðleitni sinni til að stjórna heiminum.

Er þér treystandi fyrir vopni?

Setjum sem svo að þú lendir i mjög dramatískum aðstæðum. Vítisenglar hafa umkringt heimili þitt, og hóta að ráðast til inngöngu án þess að gefa neinar skýringar. Einhver úr fjölskyldunni er horfinn og þú hefur ekki hugmynd um hvort það tengist umsátursmönnunum. Forvitna nágranna drífur að en þar sem allt tiltækt lögreglulið er niðri á Austurvelli að verja Alþingishúsið gegn trylltum skrílnum, lítur út fyrir að þess verði langt að bíða að löglegir ofbeldismenn komi þér til hjálpar. Þú ert mjög reið(ur) og mjög hrædd(ur) og veist í rauninni ekkert hvað þú átt til bragðs að taka.

Myndir þú í slíkum aðstæðum, treysta sjálfum/sjálfri þér fyrir skotvopni? Myndirðu halda nógu mikilli ró og nógu skýrri hugsun til að beita vopni aðeins til að verja líf og limi eða er hætta á því að þú skytir jafnvel á saklausan nágranna þinn í geðshræringunni?

Umræður

Dropasteinarnir

Frétt á Rúv um að skemmdarverk á dropasteinum (tengill skemmdur)

Ég hef enga trú á því að margir taki dropasteina af skemmdarfýsn. Forvitni, eða þörfin fyrir að skoða með því að snerta er nær lagi.

Stóra ástæðan fyrir náttúruspjöllum af þessu tagi er samt sú hugmynd að manngildi velti á þeim hlutum sem maður hefur yfirráð yfir. Fólk slær eign sinni á hluti sem heilla það, af því að við lítum upp til þeirra sem eiga fallega og áhugaverða hluti, að maður tali nú ekki um verðmæta hluti. Vandamálið hér sem víða annarsstaðar er eignarréttarhugmyndin.

Svínapestin

Svo táknrænt að svínaflensan sé helsti hrellir Íslendinga þessa dagana. Tilviljanir eru ekki til. Og samt og samt er þess ekki að vænta af sauðmúganum að hann svari fyrir sig með svo hófsamri aðgerð sem að svelta svínið.