Skotsilfur

Var að fá reikning frá kortafyrirtækinu og sé að ég hef tekið út skotsilfur í síðasta mánuði. Í alvöru, þetta stendur á reikningum; skotsilfur. Sé fyrir mér miðaldariddara með silfurpeninga í leðurpyngju. Finnst einhverveginn að fimmþúsundkall afgreiddur úr hraðbanka hljóti að heita reiðufé en ekki skotsilfur.

Annars er orðið skotsilfur ekki að finna í Orðsifjabókinni. Skot eitt og sér getur merkt fjárframlag svo líklega er tengingin þaðan. Nema skotsilfur eigi eitthvað skylt við skotaskuld. Ellegar andskota. Það er náttúrulega alltaf doldið unskot að þurfa að borga reikningana sína.

—-

Þegar ég fann þessa stuttu færslu frá árinu 2005 hugsaði ég fyrst að kortafyrirtækin hlytu að hafa uppfært orðaforðann sinn síðan. En skotsilfrið virðist enn í fullu gildi.

Myndir þú ráða þjóf til að uppræta þjófnað?

Setjum sem svo að þú eigir stóra verslunarkeðju. Reksturinn gengur almennt vel en búðaþjófnaður er þó óhóflega stórt vandamál og öryggiskerfið sem þú ert með stendur ekki undir kostnaði. Til þín kemur maður sem kynnir sig sem fyrrverandi búðarþjóf og vill fá vinnu við að uppræta búðarþjófnað. Hann segir þér að hann hafi margra ára reynslu sem búðarþjófur og hafi aldrei náðst. Hann geti sagt þér nákvæmlega hvernig þjófar hugsi, hvað fyrirtækið sé að gera vitlaust og hvernig hægt sé að laga það með lágmarks kostnaði. Hann framvísar hreinu sakavottorði og ekkert í fari hans bendir til annars en að hann sé reglusamur og áreiðanlegur. Núverandi vinnuveitandi, eigandi trésmíðaverkstæðis, (sem veit ekkert um feril hans) gefur honum frábær meðmæli, segir hann lipran í samskiptum, stundvísan og vandvirkan.

Ræður þú manninn í vinnu?

Tjásur:

Halda áfram að lesa

Ef skólaskylda yrði afnumin?

Hvað ef skólaskylda yrði afnumin?

Ég á ekki við að krökkum í 8. bekk yrði einn góðan veðurdag tilkynnt að þau réðu því sjálf hvort þau mættu í skólann. Mér þætti meira vit í að afnema skólaskyldu á 10 árum. Hún yrði þá fyrst afnumin í 1. bekk og svo næsta ár héldist skólaskylduleysið hjá þeim börnum (sem þá væru í 2. bekk) og yngsti hópurinn bættist við. Hinu opinbera bæri eftir sem áður skylda til að tryggja öllum skólavist, munurinn yrði sá að það væri sett í hendur foreldra hvort þeir vildu sinna menntun barna sinna sjálfir eða láta skólakerfið um hana.

Teljið þið að þetta myndi breyta einhverju? Hverjar yrðu þær breytingar? Hver yrðu helstu vandamál og hverjir yrðu kostirnir?

 

Fólksfækkun verður ekkert vandamál

Þótt offjölgun sé meira til umræðu hafa félagsfræðingar líka velt upp þeirri hugmynd að lægri fæðingatíðni muni leiða til þess að hlutfall vinnandi fólks miðað við börn og eldri borgara verði of lágt til að standa undir samfélaginu.

Ég held að fólksfækkun sé hið besta mál og leiði til meiri velferðar og betra siðferðis. Fólk mun sjá betur fyrir fáum börnum en mörgum og beita mannúðlegri uppeldisaðferðum. Þótt fæðingum fækki mun starfsævin lengjast og fólk verður vinnufært þrátt fyrir sjúkdóma og fötlun. Aldraðir og sjúkir verða ekki lengur frávik og fá meiri áhrif í samfélaginu.

Slökkvið á gemsanum

Mér finnst dapurlegt þegar fólk er svo háð gemsanum sínum að það getur alls ekki slökkt á honum. Og ekki bara dapurlegt, það er líka tillitsleysi. Mörg fyrirtæki sjá ástæðu til að biðja viðskiptavini að stilla sig um að tala í símann við afgreiðsluborðið.  Oft notar fólk símann þótt það sé í bíó, bæði til að tala og spila leiki.  Ég hef m.a.s. oftar en einu sinni orðið vitni að því að sími hringi við jarðarför.

Mannanafnalög eru ónothæf

Markmið mannanafnalaga er að stuðla að því að Íslendingar beri nöfn sem falla að beygingar- og hljóðkerfinu, lúti almennum stafsetningarreglum og séu fólki sæmandi.

Þegar listinn yfir leyfð mannanöfn er skoðaður kemur þó í ljós að undantekningarnar frá reglunum eru svo margar að reglurnar eru nánast ónothæfar. Það sem er leyfilegt í einu tilviki er bannað í öðru og þegar upp er staðið eru einu rökin þau að við séum orðin vön því að heyra annað nafnið en ekki hitt.