Ælupest dagsins

Var það ekki í fyrra haust sem þættirnir um íslenska glaumgosann voru í sjónvarpinu? Einhver lúði frá Akureyri var sendur í klippingu og ljós og nokkrar dindilhosur slógust um hann í margar vikur, spyrjið mig ekki af hverju.

Allavega, ég man að þegar dömurnar voru beðnar að lýsa sjálfum sér, sögðu nokkrar þeirra „ég er skemmtileg“ eða jafnvel „ég er fyndin“. Aldrei fyrr né síðar hef ég kynnst fyndinni manneskju, sem þarf að segja frá því hvað hún sé fyndin til þess að fólk fatti það. Ég efast líka stórlega um að nokkur verulega falleg kona myndi senda einhverjum mynd af sér ásamt skilaboðunum, „ég er mjög falleg“. Það sést nefnilega alveg.

Fólk sem hefur umræður um viðkvæm málefni þannig „ég er ekki með fordóma en…“ er venjulega jafn fordómafullt og dindilhosurnar úr þessu hallærislega sjónvarpsþætti eru lítið fyndnar. Og sá sem segir „ég er sko ekki snobbaður“, en gefur um leið í skin að hann hafi reyndar mjög góðar ástæður til að vera snobbaður og heldur að það að snobba niður á við beri vott um snobbleysi, það er sko snobbhani af verstu sort.

Afsakið mig meðan ég æli.

Hreint ekki sýkn

Screenshot-from-2014-08-15-124625

Sýknudómur merkir að dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að fullyrða svo óyggjandi sé, að ákærði hafi framið þau brot sem honum eru gefin að sök.

Nú hefur héraðsdómur Reykjavíkur komist að þeirri niðurstöðu að Hannes Hólmsteinn hafi vissulega gert nákvæmlega það sem Auður Laxness gefur honum að sök, þ.e. að brjóta gegn lögum um höfundarrétt. Að vísu kemst dómurinn einnig að þeirri niðurstöðu að þar sem Hólmsteinn hafi ekki skaðað neinn (nema þá heiður sinn) með tiltækinu og vegna þess að Auður frestaði því of lengi að höfða mál, sé ekkert hægt að gera við brotinu nema segja sveiattan við skúrkinn. Það merkir samt ekki að Hannes hafi verið sýknaður samkvæmt réttri merkingu orðsins.

Vítasukk

Ég er að hugsa um að setja á markað vítamínbætt súkkulaði. Auglýsingin gæti hljóðað svo:

Hollur morgunverður er nauðsynlegur í leik og starfi. Gefið börnunum bragðgóðan morgunverð. Vítasukk, næringarríkasta morgunsúkkulaði á markaðnum.

Svo má bæta um betur með karamellukvöldverði. Endanlegt markmið er að tryggja að aldrei fari neitt sem ekki inniheldur hvítan sykur og harða fitu í gegnum metlingarveg barna.

 

Hólmsteinn mun hugga oss

Screenshot-from-2014-08-15-121448

Við þurfum nú ekki að hafa verulegar áhyggjur af þessu.

Eins og fjölvitinn Hannes Hólmsteinn upplýsti þjóðina um, með skrifum sínum um óskunda umhverfisverndarfólks í Mogganum fyrir nokkrum vikum, þá hafa helstu loftlagssérfræðingar veraldar rangt fyrir sér um loftlagsbreytingar af mannavöldum. Við förum nú fjandinn hafi það ekki að taka meira mark á hysteríunni í sérfræðingum en djúpri visku Hólmsteins.

Glæpahundar

police-brutality

Í Bretlandi flokkast það sem meiriháttar skipulögð glæpastarfsemi að mótmæla ákvörðunum stjórnvalda (sama hversu siðlausar þær eru) þar sem hætta er á að þingmenn verði þess varir.

Síðast þegar á þetta reyndi varð jarðfræðingurinn, vinkona Hauks, fyrir því að lögreglumaður kýldi hana í andlitið. Hún var ekki að fremja skemmdarverk. Hún beitti hvorki ofbeldi né sýndi þess nokkur merki að vera til þess líkleg. Hún stóð fyrir framan þinghúsið og sagði nei.

Svona stór

hvalurSkv. fréttum NFS í dag er hvalurinn sem var landað í morgun, allt of stór til að hægt sé að selja hann á heimamarkaði. Er þetta haft beint eftir skipstjóranum.

Í meðförum RÚV hljómar þetta alls ekki neikvætt. Íslendingar munu ekki fá að „njóta“ kjötsins af hvalnum sem „þykir stór“. Ekki er tekið fram að stórir hvalir þyki vondir á bragðið.

Húsráð

skráargatSérstakur hópur manna ku vera að vinna að því hvernig hægt verði að opna þessi hlerunarmál úr kaldastríðinu, segir Geir.

Hvað um gamla góða húsráðið að hætta þessum hallærislegu undanbrögðum og finna „sérstökum hópi manna“ einhver þarfari verkefni? Af hverju þarf hóp manna til að finna einhverja sérstaka aðferð til að rétta fræðimönnum pappíra sem almenningur á fullan rétt á að fá að sjá?

Hafa menn annars nokkuð að fela?