Aktivistaflokk

Ég vildi sjá stjórnmálaflokk aktivista. Sá flokkur léti nægja að opna kosningaskrifstofu og kynna sig á fundum og með öðrum leiðum sem útheimta ekki fjárútlát en setti hinsvegar kosningasjóðinn í góð málefni. T.d. myndi slíkur flokkur ráða herskáan hóp sakamanna sem bíða efir að komast í afplánun til að grípa til róttækra aðgerða gegn stimpilgjöldum. Þá á ég ekki við að nokkrar hræður stilli sér upp fyrir framan alþingishúsið með kröfur á priki og tuldi einhver málamyndamótmæli niður í hálsmálið, heldur skýr skilaboð.

Það yrði mjög skemmtilegt að ef öll fórnarlömb stimpilgjaldaskrímslisins, eða þótt ekki væru nema lántakendur úr einu hverfi, tækju sig saman um að ráðast inn á þing, stimpla 666 á ennið á hverjum einasta alþingismanni og rukka þá fyrir. Það mun ekki gerast. Hinsvegar væri hægt að ráða til þess menn með skuggalega nútíð og það yrði betri auglýsing fyrir flokkinn en nokkurt glanstímarit. Um að gera að virkja mannauðinn í landinu og glæpamenn þurfa ekkert síður á því að halda en aðrir að finna að þeir geri gagn.

Atkvæði aldrei deyr

Atkvæði deyr aldrei. Ekki heldur þótt flokkurinn sem maður kýs komist ekki í ríkisstjórn eða nái jafnvel ekki inn manni. Atkvæði felur í sér skilaboð. Með því að kjósa annan lista an þann sem maður vildi helst, bara af því maður telur að uppáhaldsflokkurinn eigi ekki séns, gefur maður röng skilaboð. Ég er ekki búin að sjá stefnuskrá frá Íslandsflokknum eða spjalla við neinn forystumanna hans en ef mér líst betur á Ómar og félaga en VG, mun ég sannarlega haga atkvæði mínu samkvæmt því.

Mátti ég ekki alveg fá ís?

Eymingja Alcan búinn að eyða hátt í milljarði í undirbúning stækkunarinnar og svo bara virkaði ekki þetta fína trix með Bjögga Halldórs. Æjæj hvað ég finn til með þeim. Spurning hvort ég færi þeim ekki 88 kr úr Fórnarsjóði Mammons í sárabætur.

Af þessu geta stórfyrirtæki með sértæka frekjuröskun lært að það getur borgað sig að biðja um leyfi fyrst.

Aldrei endanlegt

Ég vildi óska þess að Árni hefði rétt fyrir sér en það er hæpið og raunar ólíklegt að niðurstaðan sé endanleg. Í lýðræðisríki er niðurstaða aldrei óbreytanleg. Þessi niðurstaða er endanleg miðað við núgildandi forsendur, sem eru allar breytilegar, flestar síbreytilegar og sú mikilvægasta; bæjarstjórnin sem tók þá ákvörðun að niðurstaðan yrði bindandi, gæti fokið í næstu sveitarstjórnarkosningum.

Vitanlega er ný bæjarstjórn ekki bundin af ákvörðunum forvera sinna. Ef svo væri hefði það lítinn tilgang að skipta um valdhafa. Þannig að ef íhaldsmenn ná meirihluta næst geta þeir gert það sem þeim sýnist, og þannig á það að vera.

Mér þykir það leitt en eina leiðin til að hindra stækkun álversins í Straumsvík, sem og útþenslu annarrar stóriðju, er sú að Sjálfstæðisflokkurinn fái sem allra, allra minnst fylgi.

Orðaskýringar fyrir kjósendur

images-21Heildstæð stefnumótun = stefna
Heildræn stefnumörkun = stefna
Að marka heildstæða stefnumótun = að móta stefnu

Hjúkrunarúrræði = hjúkrun
Vistunarúrræði = elliheimili, leikskólar og aðrar stofnanir þar sem fólk er geymt.
Heildstæð vistunarúrræði = vistun

Heildstæð stefnumótun í öldrunarmálum = sú skoðun að aldraðir eigi að njóta mannréttinda
Heildstæðar lausnir í öldrunarmálum = bygging hjúkrunarheimila

Af hverju talar enginn um heildstæð lausnaúrræði? Það myndi hljóma svo gáfulega.

Ó-lög vors lands

Ef ekki má flytja þjóðsönginn öðruvísi en í upprunalegri mynd, merkir það þá ekki að bannað sé að þýða textann á önnur tungumál, eða allavega að flytja hann með þýddum texta? Merkir það ekki líka að ekki megi flytja hann með öðrum hljóðfærum og raddsetningu en þeirri upphaflegu? Spurning hvort væri ekki frekar við hæfi að handtaka íslenska knattspyrnulandsliðið en þessa stórhættulegu Spaugstofumenn. Þeir fara þó allavega vel með tónlistina og ekki þykir mér lofgjörðin til Alcan ósmekklegri en guðsorðarunkið hans Matthíasar. Boðskapurinn er ömurlegur og þessi sálmur er hræðilegt leirhnoð.

Hvað tefur eiginlega …

… Íslendinga í því að viðurkenna Palestínuríki? Erum við kannski að bíða eftir leyfi frá þeim sem útvega Ísraelsmönnum gereyðingarvopn og styðja þá í því að fremja þjóðarmorð?

Það er auðvitað löngu ljóst að meirihluta þjóðarinnar er slétt sama þótt fólk úti í heimi sé hermumið, rænt, hrakið frá heimilum sínum, kúgað, svívirt og myrt án dóms og laga, svo það ætti kannski ekki að koma mér á óvart þótt fáir styðji þessa fangaþjóð í örvæntingarfullri viðleitni sinni til að fá tilverurétt sinn viðurkenndan.