Paul Ramses má ekki gleymast

Vakin um miðja nótt. Treð mér í gallann utan yfir náttfötin og hendist út. Andskotans enginn tími til að undirbúa aðgerð og við vitum svosem fyrirfram að vélin verður ekki stöðvuð. En maður getur ekki bara setið með hendur í skauti á meðan íslensk stjórnvöld henda pólitískum flóttamanni úr landi, án þess að Útlendingastofnun hafi einu sinni tekið málið fyrir. Óundirbúin aðgerð er skárri en engin. Tveir handteknir en þeir reyndu þó. Halda áfram að lesa

Dæmd …

… sek, fyrir að hafa óhlýðnast fyrirmælum lögreglu. Ekkert tillit tekið til þess hvernig siðmenntaðar þjóðir fara með sambærileg mál. Fyrir nú utan það að hvað sjálfa mig varðar a.m.k. þá hefur ekkert komið fram sem styður þá tilgátu að ég hafi óhlýðnast einu eða neinu enda var mér ekkert boðið upp á að færa bílinn sjálf eftir að fólkið hafði verið losað undan honum.

Hér má lesa dóminn.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig mál vörubílstjóra, sem sköpuðu raunverulega truflun og raunverulega hættu, verður dæmt.

Við förum auðvitað með þetta fyrir Hæstarétt.

 

Sjáðetta hvíta…

er sérsveitin að skíta… á sig af spenningi yfir því hver fái að prófa byssuna næst?

Mér yrði ekki rótt ef ég vissi af hvítabirni í bakgarðinum hjá mér. En er það samt ekki fulllangt gengið að senda gæsluna af stað í hvert sinn sem einhverju hvítu bregður fyrir úti í rassgati? Og af hverju í fjandanum er Landhelgisgæslan bara notuð til að leita að björnum en ekki til að bjarga þeim? Halda áfram að lesa

Ósigur yfirvofandi

Röddin í símanum var klökk.

-Helvítin hafa vaðið hér um allar sveitir síðustu vikur og herjað á fólk, og mest þá sem þeir vita að eru í fjárhagsvandræðum. Í allavega einu tilviki óðu þeir inn á landareign til að gera einhverjar rannsóknir án leyfis landeiganda, töluðu bara við unglinginn á heimilinu og fannst það víst nóg. Ég hef aldrei heyrt jafn þungt hljóð í mínum félögum fyrr. Björk er víst komin með einhverja bakþanka, ekkert víst að hún komi hingað austur og það stendur til að samningar við landeigendur í Rangárvallasýslunni verði undirritaðir á mánudaginn. Við erum hrædd um að Landsvirkjun komi hingað með vinnuvélar strax í næstu viku.

Halda áfram að lesa

Fífilvín

Ég var 8 ára þegar ég stofnaði mitt fyrsta fyrirtæki.

Kona í þorpinu hafði sagt okkur Hildi að í hennar ungdæmi hefðu fíflar verið notaðir til víngerðar. Ég fann hjartað í mér missa úr nokkur slög. Við Hildur höfðum vikum saman velt því fyrir okkur hvernig við gætum orðið ríkar en tombóluhugmyndin var fullreynd, við vorum of ungar til að fá vinnu í frystihúsi og við þekktum engan sem hafði orðið ríkur á því að ýta barnavagni 3 ferðir upp og niður Njarðvíkurbrautina.

Halda áfram að lesa

Af góðum hugmyndum

Það sem hefur komið mér mest á óvart á þessum tíma sem ég hef staðið í verslunarrekstri, er hvað margir virðast álíta það einhverskonar náðargáfu að fá hugmyndir. Iðulega kemur fólk til mín, jafnvel fólk sem ég þekki ekki neitt og þó einkum og sér í lagi fólk sem aldrei hefur komið nálægt rekstri, og gefur mér hugmyndir um það hvernig best sé að gera Nornabúðina að gullnámu. Halda áfram að lesa