Fífilvín

Ég var 8 ára þegar ég stofnaði mitt fyrsta fyrirtæki.

Kona í þorpinu hafði sagt okkur Hildi að í hennar ungdæmi hefðu fíflar verið notaðir til víngerðar. Ég fann hjartað í mér missa úr nokkur slög. Við Hildur höfðum vikum saman velt því fyrir okkur hvernig við gætum orðið ríkar en tombóluhugmyndin var fullreynd, við vorum of ungar til að fá vinnu í frystihúsi og við þekktum engan sem hafði orðið ríkur á því að ýta barnavagni 3 ferðir upp og niður Njarðvíkurbrautina.

Að vísu hafði ég ekki hugmynd um það til hvers ég ætlaði verða rík, ég var jafn nægjusöm sem barn og ég er í dag en það þótti almennt eftirsóknarvert að vera ríkur og ég sá allavega fyrir mér að ég gæti keypt mér súkkulaði hvenær sem mér sýndist. Og þarna var svarið komið, eins og fyrir töfra. Ég vissi að brennivín kostaði mjög mikla peninga og það var enginn skortur á fíflum í nágrenninu.

Ég spurði konuna nánar út í vingerðina. Hún hafði enga uppskrift en sagði að það væri bæði einfalt og ódýrt að brugga fíflavín, uppistaðan væri vatn, sykur og fíflar. Líklega hefur ekki hvarflað að henni að ég væri í alvöru að velta fyrir mér möguleikanum á því að opna brugghús en hugmyndin var þegar búin að skjóta rótum í huga mér. Ég hálfdró Hildi heim til að finna krukkur.

Hildur fór í þetta með mér eins og allt annað sem mér datt í hug en það var grundvallar munur á okkur tveimur. Ég hafði eldlegan áhuga og barnslega trú á viðskiptahugmyndum mínum og varð fyrir hálfgerðu áfalli þegar mér mistókst. Hildur aftur á móti hafði litla trú á þeim, leit meira á þetta sem leik og kippti sér ekki upp við það þótt þær féllu um sjálfar sig, hún hafði aldrei litið á þetta sem neina alvöru hvort sem var. Hún tíndi fífla með mér af því að hún hafði svosem ekkert annað áhugaverðara við að vera og af því að henni fannst ég skemmtileg. Á sama hátt hjálpaði hún mér að síðar að búa til kókoskúlur sem ég sá fyrir mér að ég gæti selt fyrir of fjár (hún hnuplaði m.a.s. hálfu kílói af flórsykri úr eldhússkápnum heima hjá sér af einskærri hollustu við mig), hekla hosur utan um sígarettupakka og safna ánamöðkum til að selja stangveiðimönnum. Ekkert þessara fyrirtækja átti framtíð fyrir sér en hún má eiga það hún Hildur að hún sagði mér aldrei að ég væri vitlaus, þótt henni hafi eflaust fundist það.

Mér tókst ekki að búa til fíflavín. Ég prófaði nokkrar útgáfur, einn bolla af fíflahausum á móti einum bolla af sykri út í kalt vatn, einn bolla af fíflahausum á móti einni matskeið af sykri út í soðið vatn o.s.frv. Ég drakk dálítinn sopa af brugginu daglega (Hildur fékkst ekki til að smakka nema einu sinni) en ég varð ekkert full. Ég vissi þó að það tæki margar vikur að búa til vín, svo lengi vel var ég tiltölulega vongóð. Vikur liðu. Ég færði krukkurnar milli vistarvera til að forða þeim frá haukfránum augum móður minnar en ég var alltaf jafn edrú og lyktin upp úr krukkunum versnaði stöðugt. Hildur sýndi þessu æ minni áhuga og fyrirtækið lagði upp laupana þegar móðir mín tók upp á því að skúra að mér fjarverandi og fann 30 krukkur af rotnum fíflum undir rúminu mínu. Ég grét glataða auðlind mína en Hildur huggaði mig með því að fíflavín héti fíflavín af sömu ástæðu og glópagull héti glópagull. Það væri mjög bragðvont og þessvegna héldi fólk að það væri vín en það væri hinsvegar útilokað að verða fullur af því. Krakkar mega heldur ekkert selja vín, sagði hún og ég, sem var hlýðið barn, tók því sem þó nokkuð góðum rökum fyrir að afskrifa aðra tilraun.

Við Hildur vorum alltaf saman og allir sem þekktu okkur á þeim árum hefðu staðfest að Hildur væri raunsærri hlutinn af þessu tvíeyki. Að einu leyti fannst mér Hildur samt vera kjáni. Hana dreymdi fullkomið líf. Hún ætlaði að giftast dásamlegum manni, gáfuðum, myndarlegum og ríkum manni sem gæfi henni allt sem hún vildi og hefði þann tilgang í lífinu að elska hana. Hún ætlaði að eignast fjögur fullkomin börn, búa í stóru húsi með stórum garði, eiga fína samkvæmiskjóla og halda veislur. Ég átti drauma sem voru um margt líkir en munurinn var sá að ég trúði ekki almennilega á þá, leit frekar á þá sem dægradvöl, kannski efni í metsölubækur, en ég hafði miklu meiri trú á að ég myndi skrifa bækur en búa í höll. Í dag geri ég þó hvorugt. Hildur giftist manni drauma sinna 18 ára að aldri. Þau höfðu þá verið saman í 3 ár. Þau eru rík og hamingjusöm. Hún á með honum fjögur fullkomin börn, býr í höll og heldur veislur. Mannhelvítið yrkir meira að segja til hennar og gerir það snoturlega. Ég hugsa að henni finnist líf mitt ekki eftirsóknarvert en ég vildi í fyllstu hreinskilni ekki skipta við hana.

Og hér sit ég, löngu búin að læra að hugmynd út af fyrir sig er einskis virði, það þarf meira til. Það eru engar krukkur undir rúminu mínu en á borðinu fyrir framan mig er stór flaska af fíflivíni sem vinir mínir færðu mér í gær. Það bragðast miklu betur en bruggtilraunir mínar sumarið 1975 og það er í alvöru hægt að verða fullur af því.

Hildur hafði rétt fyrir sér, hún fann mann sem hentaði henni fullkomlega. Hann hefði alls ekki hentað mér, ekki einu sinni út á skáldgáfuna en hún fékk nákvæmlega það sem hún vildi. En hún hafði ekki rétt fyrir sér þegar hún sagði að það væri ekki hægt að brugga vín úr fíflum. Það er nefnilega vel hægt. Það eina sem þarf er að vita hvernig maður á að fara að því, eiga eingöngu samstarf við félaga sem hefur úthald, trú og áhuga á fyrirtækinu og gefast ekki upp þótt fyrstu tilraunir fari út um þúfur.

One thought on “Fífilvín

  1. TJÁSUR

    maður getur reynt að fá drauma að láni en það hefur lítið gildi.

    Posted by: baun | 17.06.2008 | 17:13:16

    Ég smakkaði svona fíflavín um daginn. Ekki ólíkt sherry á bragðið. Nokkuð gott.

    Posted by: Egill | 18.06.2008 | 1:16:45

    Sæl J Eva.
    Þú ert aldeilis frábær sögumaður og vald þitt á íslensku máli er aðdáunarvert.
    Hvenær kemur bókin út?

    Posted by: KJH | 20.06.2008 | 15:26:51

    Takk KJH.

    Ég reikna með að heildarsafn verka minna komi út í hátíðaútgáfu á degi íslenskrar tungu um 100 árum eftir dauða minn.

    Ef þú veist um einhvern sem langar að gefa út ljóð og smásögur eftir óþekktan (og óþekkan) lifandi höfund sem hefur ekki geðslag til að koma sér upp ‘tengslaneti’ þá láttu mig vita.

    Posted by: Eva | 20.06.2008 | 18:31:20

Lokað er á athugasemdir.