Analísa dagsins

-Ég er ekki spákona en ég get sagt þér nákvæmlega hversvegna þú ert ekki hamingjusamlega gift, sagði hún og ef ég væri hundur hefði hún séð eyrun á mér sperrast.
-Málið er að þú ert með einhverja allt aðra afstöðu til ástarinnar en venjulegt fólk. Flest fólk stofnar til ástarsambands af því að það verður ástfangið. Ef það gengur vel þá ákveður það að búa saman og þegar vandamál og ágreiningsefni koma upp þá annað hvort vinnur það úr þeim eða gefst upp. Þú hinsvegar vilt finna gott mannsefni, helst einhvern sem er nógu óspennandi til að sé engin hætta á að einhverjar tilfinningar trufli þig í því að taka hann út, drífa í því að finna hvert einasta smáatriði sem ber á mili ykkar og meta af vísindalegri nákvæmni hversu mikið muni reyna á hvert þeirra, giftast honum svo og sjá svo til hvort þú þorir að verða ástfangin af honum einhverntíma seinna.

Þetta er náttúrulega ekki alveg svona. Ég hef engan áhuga á ástlausu hjónabandi og hef auðvitað aldrei íhugað langtímasamband við mann nema vera bálskotin í honum. Og spennandi hvað? Ég hef aldrei verið spennt fyrir djamminu, ferðalögum, sex & the city, eða fatabúðum. Hversvegna ætti ég þá að hafa sömu hugmyndir og vinkonur mínar um það hverskonar karlmenn séu spennandi? Það er samt sem áður ákveðinn sannleikskjarni í þessum orðum, þ.e. ég trúi því að praktísk atriði vegi þyngra en hormónar þegar maður ákveður að eyða stórum hluta ævinnar í nánu samneyti við aðra mannveru. Ég trúi því líka að tilfinningar eigi uppruna sinn í huga mannsins en séu ekki yfirnáttúrleg ákvörðun sem við höfum ekkert um að segja. Allir þekkja hundruð dæma um sambönd sem byrjuðu í miklum bríma en fóru samt í vaskinn. Hagkvæmnishjónabönd tíðkast víða um heim og hafa reyndar lengst af verið normið á Vesturlöndum og þau ganga hvorki betur né verr en girndarráð.

Ég trúi því að uppskriftin að farsælu hjónabandi sé einföld:
Tvær manneskjur sem átta sig á því að ‘elska’ er sagnorð, þ.e. eitthvað sem við gerum en ekki eitthvað sem hendir okkur, eru tilbúnar til að leggja sig fram um að gera það vel og læra það sem þarf til að gera það ennþá betur ef óvæntar aðstæður koma upp. Hitt er svo annað mál að auðvitað þarf fólk að laðast hvort að öðru til að vera tilbúið til þess.

Ég er ekki til í að fara sömu leið og þessi tvö, en ég verð að viðurkenna að mér finnst þau ekkert bilaðri en fólk sem heldur að það sé nóg að finna sálufélaga. Sálufélag er nefnilega alveg eins og önnur félög, þau deyja ef félagsmenn eru óvirkir.

Svo ástæðan fyrir því að ég er ekki hamingjusamlega gipt er nú bara sú að ég hef ekki ennþá kynnst manni sem hefur þessa sömu afstöðu og ég. Það er hinsvegar þvæla að mín skoðun á þessu sé einstök. Reyndar held ég að tilheyri meirihluta hvað þetta varðar en sá meirihluti er sennilega búsettur annarsstaðar en í miðbæ Reykjavíkur.

Samt finnst mér ég alveg ofboðslega mikill Íslendingur.