Uppskeruhátíð

Uppskeruhátíð á Sólheimum. Allt troðfullt af hollustu. Grænkál og rófur og litlar sætar gulrætur og allt. Borðað og dansað og dansað og dansað. Hann dansar líka. Dansar við mig og hina krakkana og við Bertu gömlu og líka einn. Svona stór! Þriggja ára og næstum því fullorðinn.

Svo kemur hann til mín, hálfvolandi. Segist þreyttur, vill fara heim að sofa. Við leiðumst út í haustnóttina. „Var ekki gaman“ segi ég, „jú“ segir hann og meinar það. Hefur ekki áður vakað svo lengi og undrast stjörnurnar; himneskar kartöflur, kannski tunglið sé næpa? Ég spyr hvort hann muni hvers vegna við höldum uppskeruhátíð.

Hann stoppar, snýr sér að mér, syfjuð augun kringlótt himintungl í jarðarlit. Sveiflar báðum handleggjunum í stóran hring og bendir til himins: „Af því allt og allt kemur upp úr jörðinni!“

Kvæði handa náttúrubarni

Skógarhlíð og skurðarbakki
er skólinn þinn.
Yndislegri enginn krakki
er en minn.

Vel hann þekkir fiðurfé
og fagnar keikur
Snotru, þótt hann soldið sé
við seppa smeykur.

sett í skúffu í ágúst 1989

Manstu þá

Að haldast í hendur
og klifra upp í tré
og veltast í grasinu
og hlæjaog mála skrýtnar myndir
af fuglum og fiðrildum
köttum, krossfiskum
sæhestum, síðhærðum blómum
og olíuborpöllum;var ekki gaman
þá?

Minning

Í minningunni
eins og hlý, gömul peysa.
Dálítið trosnuð á ermunum
og löngu úr tísku.
Þó svo hlý, svo mjúk
á köldum vetrarmorgni.

Svo var mér vinátta þín.

Sett í skúffuna í ágúst 1985

Kveðja

Dánir.
Að eilífu.
Runnir í tómið
dagarnir,
þegar allt mitt var þitt
og hugsanir þínar
-titrandi
bak við augnlokin.

Sett í skúffuna í júlí 1985