Lítils met ég þann kærleika
sem umber allt,
breiðir yfir allt
og trúir öllu. Halda áfram að lesa
Greinasafn eftir:
Barnagæla handa kjósendum
Syndir hún og syndir hún í sjónum.
Með Sennileika, Von og Trú
Öllu í fína og Ælovjú
og hinum fögru fiskunum
sem feitir hafna á diskunum
hjá ráðherrum og rónum,
flokksdindlum og dónum. Halda áfram að lesa
Laukur
Þú getur flett og skorið,
fjarlægt hvert lagið af öðru
og grátið yfir hverju einasta
en sannarlega segi ég þér
laukur hefur engan kjarna.
Hvísl
Og suma daga er ég bara svo skotin í þér að hugur minn verður hávær.
Heyri sjálfa mig hækka róminn til að yfirgnæfa hann.
Ekki til að blekkja þig,
því það sem varir þínar vita er löngu smogið undir augnlokin,
heldur bara vegna þess að sumum hugsunum hæfa engin orð.
Fabla fyrir Elías
Beið uns veðrinu slotaði.
Og beið.
Á fertugasta degi kom hann fljúgandi yfir hafið.
og benti á glottköttinn
standandi á haus
út við sjóndeildarhringinn.
Þó hafði hann blaðgrænu í augum
og færði mér ólívuviðargrein.
Hamingjan
Ég hef hitt hamingjuna á förnum vegi og séð að hún er græn eins og brumknappur bjarkar og sveigjanlegri en pítonslanga. Og svo hljómar hún dálítið eins og fíngert regn sem fellur í smátjörn í logni og hún ilmar líkt og blóðberg, eplakaka og koddaver unglingspilts.
En hvernig hún bragðast, það veit ég ekki.
Nakið
Týndi víst glórunni
einhversstaðar milli drauma
eða kannski er hún föst bak við eldavélina,
gæti hafa lagt hana til hliðar á meðan ég hrærði í sósunni.
Ég sakna hennar ekkert sérstaklega, það er ekki það
en þú veist hvernig tískan er
svo ef þú sérð hana,
þá kannski kemurðu henni til skila.
Hún er svona glær,
minnir mig,
og með dálítið skarpar brúnir.