Allt með kyrrum kjörum

Við heyrum dásamlegar fréttir af því að allt sé með kyrrum kjörum í Kenía. Kibaki og Odinga saman í stjórn og allir góðir vinir. Ekki veit ég í hvaða raunveruleikaþætti þeir lifa sem trúa því í alvöru að það þurfi ekki meira en 4 mánuði til að koma á eðlilegu ástandi í landi þar sem blóðug átök hafa geysað og fjöldi manna flúið heimili sín og svarnir andstæðingar sitja saman í ríkisstjórn.

Samkvæmt nýlegum fregnum hefur fjármálaráðherra landsins verið ásakaður um mikilsháttar fjármálamisferli. Odinga og hans samherjar krefjast afsagnar hans og þar sem fjármálaráðherra tilheyrir liði Kibakis, skal engan undra þótt átök brjótist út aftur. Í fréttum stöðvar 2 í gærkvöld var sagt frá máli fjármálaráðherrans en því um leið haldið fram að allt sé með kyrrum kjörum í Kenía. Ekki er þess getið hvaða alþjóðlega hjálparstofnun heldur því fram að enginn þurfi að óttast um líf sitt á þeim slóðum en það er kannski einhver önnur hjálparstofnun en sú sem fyrir nokkrum mánuðum tók að sér að skafa lík upp úr götunum. Í fréttinni segir að aðeins einn Keníamaður hafi sótt um stöðu pólitísks flóttamanns. Nú vitum við að það er ekki rétt. Þeir eru a.m.k. tveir og annar þeirra heitir Paul Ramses. Það er hinsvegar ekki ólíklegt að aðeins einn hafi þegar verið viðurkenndur sem pólitískur flóttamaður.

Eitt af því sem gerir stöðu flóttamanna erfiða er að sönnunarbyrðin er algjörlega hjá fórnarlambinu. Það liggur í augum uppi að maður sem ekki hefur fengið á sig opinberan dauðadóm getur átt mjög erfitt með að sanna að hann búi við stöðugar ofsóknir. Þar að auki taka mörg ríki sér marga mánuði og jafnvel ár til að afgreiða umsóknir um pólitískt hæli og fólk hefur oft fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum vegna skorts á sönnunum um að það hafi orðið fyrir pólitískum ofsóknum. Ég gef því lítið fyrir þessa frétt af öruggu lífi stjórnmálafólks í Kenía.

One thought on “Allt með kyrrum kjörum

  1. ———————————————-
    Þegar gyðingar flúðu til Ameríku og báru við ofsóknum þá báðu þarlend yfirvöld um vottorð frá Þýskalandi um að þeir sæktu ofsóknum. Sönnunarfærsla í þessum málum er mjög erfið. Það sem ég er að velta fyrir mér er að ég heyrði í fréttunum að 40 manns væru búin að bíða árum saman eftir niðurstöðu sinna mála og byggju á einhverju gistiheimili án þess að mega gera neitt á meðan. Hvað hefur þessi maður umfram þá ?

    Posted by: Guðjón Viðar | 9.07.2008 | 20:45:19

     ———————————————-

    Ég hef aldrei sagt að Paul Ramses eigi meiri rétt á að vera viðurkenndur sem flóttamaður en einhver annar. Það sem ég er brjáluð yfir er að hann skuli hafa verið sendur til Ítalíu án þess að málið væri tekið fyrir hér.

    Ég er ekkert að gera lítið úr erfiðleikum annarra hælisleitenda, (enda ætti jafn tíður gestur og Guðjón Viðar að þekkja mig af öðru) heldur að lýsa andúð minni á því að þessi maður, eða hver annar sem leitar til okkar, skuli ekki njóta lágmarks verndar og að útlendingaeftirlitið skuli leyfa sér að sundra fjölskyldu.

    Posted by: Eva | 9.07.2008 | 21:21:44

Lokað er á athugasemdir.