To be or no to be

Í gær var ég spurð að því hversvegna ég hefði aldrei farið út í pólitík. Málið er að ég ER í pólitík. Bara ekki flokkspólitík.

Mér hefur alltaf líkað stórilla að vera undir stjórn annarra, hvortheldur er í vinnu eða annarsstaðar. Ég hef heldur ekki haft neinn áhuga á því að stjórna öðrum. Þ.e.a.s. mér finnst gaman að hafa áhrif (og eins að finna hvernig aðrir hafa áhrif á mig), en ég hef aldrei verið mikið fyrir að gefa skipanir. Í minni útópíu tekur bara hver og einn ábyrgð á sínu lífi og sínu starfi og skiptir sér sem minnst af öðrum nema viðkomandi biðji um það eða þarfnist hjálpar og það gengur auðvitað ekki alveg upp í veruleikanum.

Ég hef sömu afstöðu til stjórnmála. Valdabrölt og flokkadrættir eru mér ekki að skapi. Ég vil gjarnan hafa áhrif en mig langar ekkert í völd. Ég hef heldur enga ástæðu til að trúa því að ef ég kæmist til valda, þá væri ég eitthvað ólíklegri en hver annar til að sökkva í spillingu og ógeð. Þetta tvennt virðist bara yfirhöfuð fara saman.

Mig langar ekki að stjórna heiminum. Ég vil bara að sem flestir geti búið við frelsi og öryggi og það er engin stjórnmálastefna sem getur tryggt það. Ég held að mannskepnan sé of mikið hjarðdýr til að nokkur möguleiki sé á því að mynda samfélag án valdastéttar. Það fyrirkomulag sem hefur þokað okkur í átt til lýðræðis er það að sem flestar raddir heyrist, að almenningur veiti valdhöfum virkt aðhald og að ákvörðunum stjórnvalda og almennum viðhorfum sé ögrað í sífellu. Þeir sem taka það hlutverk af sér, jafnvel þótt þeir sækist ekki eftir völdum, eru að reyna að hafa áhrif á mótun samfélgasins. Og það er að taka þátt í pólitík.

Ég er líka stundum spurð að því hversvegna ég sé ekki rithöfundur. Sannleikurinn er sá að ég ER rithöfundur. Ég skrifa bara ekki bækur.

 

One thought on “To be or no to be

 1. —————————————

  Oh, ég vildi óska að þú stjórnaðir heiminum (ég bara varð að prófa að skrifa TJÁSU).

  Posted by: Kristín | 7.07.2008 | 20:06:25

  —————————————

  Það er í eðli mannsins að misnota aðstöðu sína, það fer svo eftir upplagi einstaklingsins hversu mikið hann misnotar aðstöðuna – komist hann þá í aðstöðu til að misnota til að byrja með.

  How’s this for a theory: hvað ef ég fullyrði að helsti hvati þess að fólk nöldrar yfir að aðrir misnoti aðstöðu sína (hér er ég að tala um „saklausa“ misnotkun eins og auka afslátt af vörum, versla í heilsdsölu og annað í þessum dúr), það er ekki að fólki finnist þetta ljótt (þó það haldi því fram), heldur er það frústrerað yfir því að vera ekki í aðstöðu til að gera þetta sjálft 🙂

  Ég er jafn sannfærð um að þú myndir misnota aðstöðu þína á einhvern hátt ef þú værir í valdastöðu – og ég er sannfærð um að þú myndir ekki gera mikið af því. Sem gerir þig að hæfum stjórnanda.

  Sérstaklega í ljósi þess að þig langar ekki að stjórna heiminum. Ég held að það séu bestu meðmæli sem stjórnandi getur haft.

  Posted by: anna | 7.07.2008 | 20:32:18

  —————————————

  Best ég bæti þessu við..

  Ég held að Internetið sé besta form lýðræðis sem hægt er að finna. Og það virkar.

  Sennilega vegna þess að það getur engin einn hópur eða einstaklingur stjórnað því – ennþá.

  Við getum bara vonað að þeir standi við það:
  http://tinyurl.com/6bug6t

  Posted by: anna | 7.07.2008 | 20:39:24

  —————————————

  Vinur minn einn á sér þann draum að láta tölvu stjórna heiminum. Fyrst reyndar minni einingum. Ísland væri t.d. kjörið prófverkefni. Tölvan yrði bara mötuð á öllum reglum og upplýsingum eins og t.d. um hversu hátt hlutfall við viljum að sé læknað af sjúkdómum, hversu mikið atvinnuleysi megi vera o.s.frv. Tölvan mun aldrei gera mistök og aldrei láta mannúð eða aðrar tilfnningar þvælast fyrir sér.

  Ég held satt að segja að miðað við það fyrirbæri sem við höfum í stól dómsmálaráðherra í dag, þá væri tölvan skárri kostur.

  Setjum x við tölvulistann í næstu alþingiskosningum.

  Posted by: Eva | 7.07.2008 | 20:58:40

Lokað er á athugasemdir.