Júlí
Í byrjun júlí réðust menn á unga stúlku á útihátíð. Viðbrögð lögreglunnar, þegar móðirin kvartaði yfir aðgerðaleysi hennar, voru þau að segja móðurinni til um barnauppeldi. Það er undarlegur andskoti að lögreglumenn sem meta aldur og þroska stúlkunnar svo að hún hefði átt að vera sofandi heima hjá sér, skuli samt sem áður hvorki hafa séð ástæðu til þess að koma barninu undir læknishendur né í hendur foreldra.
Ennþá grófara dæmi um aðgerðaleysi lögreglu komst í fréttir síðar í mánuðinum þegar lögreglan svaraði neyðarkalli konu sem varð fyrir ítrekuðum líkamsárásum af hálfu fyrrum sambýlismanns síns, með þeim skilaboðum að hún væri bara full.
Það getur varla talist eðlilegt að fólk þurfi að leita til Mannréttindaráðherra vegna aðgerðaleysis lögreglu í ofbeldismálum en af ofangreindum málum og mörgum öðrum verður varla annað ráðið en að lögreglan líti svo á, að hlutverk hennar sé fremur að refsa en vernda. Ekki veit ég hvort ráðherrann afhafðist eitthvað eða hummaði málið fram af sér.
Í júlí bárust ennfremur þær fréttir að fórnarlambinu í þvagleggsmálinu hefðu verið dæmdar bætur vegna valdbeitingar lögreglu og heilbrigðisstarfsfólks. Ofbeldismennirnir, með Þvaglegg sýslumann í fararbroddi, þurfa þó engri ábyrgð að sæta. Það eru skattgreiðendur sem borga brúsann og Þvagleggur og félagar halda sínum stöðum og þar með valdbeitingarheimildum.
Sama dag og úrskurðað var í þvagleggsmálinu, hafnaði Héraðsdómur Suðurlands kröfu lögreglustjórans á Selfossi um gæsluvarðhald yfir manni sem hafði hafið skothríð innanbæjar á Stokkseyri. Hvers eiga Sunnlendingar að gjalda? Þegar Þvagleggur sér ekki sjálfur um að klúðra málunum, þá gerir Héraðsdómur það.
Eins og fram kom í ofangreindri frétt voru lögreglumenn í áfalli eftir skotpartý Hitaveitu- Palla. Áfallið er þó ekki skýringin á því hversvegna lögreglustjóraembættið á Selfossi klúðraði ákæru í líkamsárásarmáli, því hún var lögð fram löngu áður. Málinu var vísað frá, þolandinn situr eftir með sárt ennið og enginn sætir ábyrgð.
Ekki þurfti heldur neinn að standa skil gjörða sinna í þessu máli, þar sem lögreglan braut persónuverndarlög með því að senda geðlækni upplýsingar úr málaskrá. Ætli sé yfirhöfuð eitthvað fjallað um hugtakið „friðhelgi“ í Lögregluskólanum?
Hafi einhver varpað öndinni léttar og endurheimt trú sína á lögregluna þegar lögreglumaður á Suðurnesjunum var ákærður fyrir kynferðisbrot, hafa væntanlega runnið á hann tvær grímur þegar þessi frétt barst. Maðurinn var sýknaður og eftir stendur spurningin um hvort kynferðisbrotamaður hafi sloppið eða kokkálaður kollegi hans hafi borið á hann rangar sakargiftir til að hefna fyrir hóriríið. Hvort heldur er halda báðir sínum störfum.
Og áfram hélt njósarafarsinn. Lögreglan getur ekki skorið úr um það hvort hún vissi af njósnaranum. Og þessir spekingar eiga að rannsaka sakamál þ.m.t. sín eigin afbrot. Þvagleggur hafi það, halda þeir að almenningur sé vangefinn?
Ágúst
Harmleikurinn í Daníelsslipp var endurvakinn á árinu þegar aðstandendur hinna látnu gerðu örvæntingarfulla tilraun til að vekja athygli Innanríkisráðuneytisins á margháttuðum afglöpum við rannsókn málsins, sem og hreinum og klárum lygum lögreglunnar. Þetta er ekki fyrsta, annað eða hundraðasta dæmið um að erfitt sé að fá gögn afhent. Ekki hef ég enn rekist á fréttir þess efnis að Ögmundur hafi tekið á málinu, enda maðurinn önnum kafinn við að rita njósnafrumvörp. Ég hvet lesendur til að kynna sér þetta mál rækilega, það er eiginlega með ólíkindum hvernig að því var staðið og ennþá óskiljanlegra hvað gengur illa að fá það rannsakað.
Þess má svo geta að ríkissaksóknari brilleraði þokkalega, þegar hann birti frumdrög rannsóknar á netinu árið áður og braut þar með gegn persónuverndarlögum.
Um miðjan ágúst var heill her lögreglumanna sendur upp í Kjós til að reka burt sumarbústaðaeiganda úr sínum eigin sumarbústað, ásamt gestum hans. Tilkynnt hafði verið um íkveikju og slökkviliðið sent á staðinn. Útkallið reyndist gabb, og slökkviliðið sneri frá. Samt sem áður var fólkinu vísað burt í lögreglufylgd. Um er að ræða sama mann og fyrr á árinu var handtekinn eftir að kviknaði í heima hjá honum. Viðkomandi maður hefur ótal sinnum verið handtekinn en aldrei þó verið ákærður. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort hreinlega sé verið að leggja mann í einelti þegar hann er handtekinn hvað eftir annað, án þess að séð verði að háttsemi hans hafi gefið tilefni til þess. Frásögn mannsins sjálfs og félaga hans af samskiptum þeirra við lögregluna er athyglisverð og vekur spurningar um það hvort fólk sem lifir á jaðri samfélagsins, hefur veikt tengslanet og litla burði til að sækja rétt sinn, geti almennt átt von á því að lögreglan valti yfir það á svipaðan hátt og lýst er í þessari umfjöllun Svipunnar. Sami maður hafði þetta að segja eftir brunann á Skúlagötu:
„Það tók mig mánuð að fá fötin min tilbaka þvi þeir sögðu að það værii “rannsoknarhagsmunir“ að halda þeim. Fékk jú fötin i gær. Og viti menn…þau voru skráð sem óskilamunir….“
Þótt ekki standi á löggunni að grípa til aðgerða ef anarkistar fara í sveitaferð upp í Kjós, eru viðbrögðin jafnan slælegri ef almennir borgarar verða fyrir líkamsárásum. Í þessu tilviki telja þolendurnir að þeir hafi verið látnir gjalda fyrir tengsl sín við mann sem hafði verið ásakaður (ekki kærður) um barnaníð. Hvað svo sem lögreglunni finnst um barnaníðinga, stendur það ekki upp á hana að dæma fólk eða skipta sér af málum sem ekki hafa verið kærð, hvað þá að refsa ættingjunum.
Hér og hér má sjá deilur Haraldar Jóhannessonar, ríkislögreglustjóra og fyrrum ríkissakssóknara, Valtýs Sigurðssonar, vegna gamals minnisblaðs. Valtýr segir að efnahagsbrotadeild hafi skort metnað og yfirsýn og Haraldur segir að Valtýr hafi rofið trúnað með því að dreifa upplýsingum. Ég hef ekki fundið neinar upplýsingar um það hvernig þessu þrefi lauk.
Afglapaskrár beggja eru verulega áhugaverðar. Valtýr ber m.a. ábyrgð á því að hafa synjað Sævari Ciesielski um endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála. Hann stjórnaði reyndar upphafsrannsókn Geirfinnsmálsins og hlýtur því að teljast vanhæfur til að úrskurða um það en þetta er Ísland. Haraldur bætti nokkrum rósum á afrekalistann á árinu, t.d. má undrum sæta að Mark Kennedymálið eitt og sér skyldi ekki nægja til þess að Haraldur yrði látinn taka pokann sinn. Væntanlega ber Haraldur einnig formlega ábyrgð á því ef satt reynist að skýrslur lögreglunnar séu fegraðar. Ég held að enginn botn hafi fengist í þetta mál, frekar en svo mörg önnur, allavega hefur þá lítið farið fyrir því í fréttum. E.t.v. hefur afglapaháttur Haraldar í starfi náð hámarki með vopnakaupamálinu sem réttlætt var með búsáhaldabyltingunni. Það komst ekki upp fyrr en 2011 og að sjálfsögðu komst Innanríkisráðherra að þeirri niðurstöðu að best væri að sleppa honum við að axla neina ábyrgð á því.
September
Í ágúst kom upp mál sem vakti sterkar grunsemdir um þrælahald á Íslandi. Ung stúlka kvaðst hafa verið tæld til Íslands á fölskum forsendum, var boðið starf au pair stúlku á heimili en látin vinna kauplaust á gistiheimili. Þann 1. september var stúlkan farin úr landi án þess að lögreglan rannsakaði mál hennar. Að vísu hafði yfirmaður lögreglunnar sagt fjölmiðlum að málið væri til rannsóknar en skömmu síðar sagði sami maður að rannsóknin hefði ekki snúist um mál stúlkunnar heldur leyfisbréf gistiheimilisins. Að sjálfsögðu þarf enginn að útskýra hvernig rannsókn á þrælahaldi breyttist í rannsókn á veitingaleyfi.
Virðing lögreglunnar fyrir mannhelgi og mannslífum virðist ekki upp á marga fiska. Að vísu er þó sjaldgæft að menn deyi í höndum lögreglu. Ég hef allavega ekki séð fréttir af því síðan 2009. Engar skýringar hafa hafa verið gefnar á dauða þessara manna.
Er til ráðherra í landinu sem er titlaður mannréttindaráðherra ?
Ekki lengur en Innanríkisráðherra fer með mannréttindamál. Eða á allavega að gera það.
Ögmundur tók við embætti Dóms- og mannréttindaráðherra en heitinu var breytt eftir að hann tók við völdum. Það er dálítið táknrænt. Á sínum tíma leitaði þessi kona http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/lamdi-og-rauf-nalgunarbann-i-eyjum-algjort-adgerdaleysi-logreglunnar–vid-fengum-bara-enga-hjalp til Dóms- og mannréttindaráðherra, þá var það Ranga Árnadóttir sem gegndi embættinu.
Er hægt að senda á þig privat mail kv
Já eva@pistillinn.is
mér finnst það mikil snilld hjá þér að taka þetta svona saman. þú ert mikil hetja, ekki spurning.