-Ooooooo Sigrún! Ég þarf svo á því að halda að komast í almennilegt frí og ég sé ekki fram á að það takist nokkurntíma. Mammon kemur bara með endalausar skítareddingar, aldrei neitt sem breytir stöðunni varanlega og það er sko ekki það að ég hefi ekki gert mína samninga við Djöfulinn, því það hef ég reynt, trúðu mér. En svo ég vitni í Laxness; ‘Pokurinn sveik mig’. Aftur. Og það er ekki bara það að ég sé skíthrædd um að þurfa að selja bréfin mín, heldur er ég bara líka að drepast úr höfnunarkennd. Ekki einu sinni Andskotinn vill mig, hversu ömurlegt er það?
-Blessuð góða taktu það ekki nærri þér, sagði Sigrún. Ég vil þig alveg og ég er nú öllu skemmtilegri en Andskotinn. Auk þess er þvílíkt offramboð á syndugum sálum þessa dagana að Pokurinn hefur ekki undan að fara í gegnum umsóknabunkann og Helvíti tekur ekki endalaust við. Ég held að þér væri nær að reyna að semja við einhvern engil. Það ku víst vera hörgull á þjóðskáldum í Himnaríki enda var nóg á 19. öldinni að menn væru drykkfelldir og hórlífir til að fá inni í Víti. Prófaðu engil og ekkert vera að biðja hann um eitthvert smáræði, hugsaðu stórt.
-Engil! Hnmphrr! Ekki þarf ég verndarengil eða hvíldarengil og ástarenglar færa manni varla neitt nema einhver eilífðarblóm með svo viðkvæmt stolt að það þarf helst að vefja það inn í bómull. Og ekki gerir ástin mann ríkan. Svo held ég að fégræðgi þyki ekki fín þarna uppi eða hefur þú kannski heyrt um einhvern peningaengil sem ég hef ekki frétt af enn?
–Ég býst svosem ekki við að ljósengill ætti upp á pallborðið hjá þér en það er nú fleira en svart og hvítt í veröldinni. Við getum kannski sært fram einhvern svona gráan engil.
-Arrrg! Grátt er litur iðrunar og ég held að ég þurfi ekki á meiri sektarkennd að halda.
-Nei ég meina ekki svoleiðis gráan, ekki öskugráan eins og iðrunarengil, heldur næstum hvítan en með eilitlum púkaeffekt. Svona dálítið grályndan engil. Einhvern sem gæti losað þig við þá meinloku að sölumennska sé ósiðleg.
-Engil með púkaeffekt. Sigrún, ég held að þú sért búin að finna upp veru sem er ekki einu sinni til í goðsagnaheiminum. Meira ruglið í þér kona. Næst stingurðu sennilega upp á því að ég ræði við Gvuð.
-Neeei, það þýðir nú ekkert. Hann er örugglega upptekinn í krabbameinum og stríðum. Ég held í alvöru að þú ættir að prófa engil. Einhvern svolítið gráan. Og næst þegar heimskar unglingsstelpur koma inn í búðina til þín, þá leyfirðu honum að stjórna, brosa sykursætt og selja þeim eitthvað ægilega sniðugt.
-Taka af þeim alla peningana þeirra, allan tvöþúsundkallinn og klinkið líka, þýddi ég.
-Sem þær færu hvort sem er bara með í einhvern tískurisann, sagði Sigrún.
Og þá rann það upp fyrir mér hversvegna Pokurinn vill mig ekki. Svava í Sautján hefur örugglega ekki samið við eitthvern ljósgáran engilsgarm.