Líklega sýndi ég þér grimmd með því að hafna samúð þinni. Þú vildir vel, ég veit það. Ætlaðir bara að koma til mín og kyssa sársaukann úr hjartanu mínu af stakri vinsemd. Það bara hefði ekki orðið neitt meira en andartaks fróun. Kannski hefði ég þegið návist þína ef þú hefðir frétt þetta á meðan ég var hvað viðkvæmust en þú hefðir bara kysst ennþá meiri sársauka inn í hjartað í mér.
Líklega var óþarflega harkalegt af mér að ásaka þig en ég get samt ekki sagt að ég sé beinlínis leið yfir því. Kannski má satt kyrrt liggja en ég sagði ekki neitt sem er ekki rétt. Ég finn nefnilega hvað það gleður þig mikið að hafa ástæðu til að trúa því að enginn geti skilið mig og viðurkennt á sama hátt og þú. Þú myndir aldrei játa það en ég þekki þig jafn vel og þú mig og ég sé hvað það hryggir þig mikið að vita mig elskaða. Mér gremst það, því þú hefur aldrei sett mig í fyrsta sætið í lífi þínu og getur því reiknað með að ég meti hvern þann sem gerir það óendanlega mikils og að mig langi til að gefa honum það sem þú getur ekki þegið.
Svo spilar það inn í að þótt dömpsárið sé gróið, situr eftir á sálinni þessi exemkenndi blettur sem er þar alltaf þótt hann angri mig mismikið. Grunurinn um að ég verði aldrei elskuð og að ég sjálf sé orðin ófær um að treysta neinum fyrir sjálfri mér. Grunurinn um að hvað sem allri rökhyggju líður, gildi samt sem áður eitthvert andlegt lögmál um að það sé bara einn sálufélagi á mann í heiminum. Óttinn um að þú hafir rétt fyrir þér.
Og ég þarf því miður ekki nærveru þína til að sá grunur rifjist upp fyrir mér.