Af dræsum og dándikonum

Ég spái því að óttinn við að almenningi verði ljóst að grínarar standi sig ekkert verr en þeir sem vilja láta taka sig alvarlega, verði svo sterkur að útkoman úr borgarstjórnarkosningunum verði samstarf sjálfstæðismanna, krata og vinstri grænna.

Sóley Tómasdóttir gaf það út fyrir löngu að hún útilokaði ekki samstarf við sjallana. Það kom illa við mig því þótt ég sé ekki sammála Sóleyju um það hvernig best sé að vinna að hagsmunum og frelsi kvenna, hef ég hrifist af heilindum hennar. Þar fer nefnilega kona sem hefur staðið af sér langvinnustu internetofsóknir gagnvart einstaklingi sem þekkjast á Íslandi vegna þess að hún hefur haft meiri áhuga á hugsjónum sínum en persónulegum vinsældum. Ég met það mikilis og finnst ömurlegt að svo mikil prinsipp manneskja skuli vera tilbúin til að skoða samstarf við flokk sem mun vinna á móti öllu sem hún stendur fyrir.

Eftir á að hyggja var það full bláeygt af mér að vænta þess að vg myndu ekki gefa Sjálfstæðisflokknum tækifæri til að riðlast á sér enda er hórirí á pólitískum vettvangi almennt viðurkennt. Þ.e.a.s. á sömu forsendum og kynferðislegt hórirí. Fólk sem á fátt sameiginlegt getur stofnað til hjúskapar af því að það er hagkvæmt og það þykir bara sjálfsagt og eðlilegt að þau (og sérstaklega konan) þurfi þá að éta ýmis markmið og skoðanir ofan í sig og brosa út á við þótt heimilislífið sé í rúst. Kona sem lofar karli kynlífi út á svo og svo marga fimmþúsundkalla en gefur honum ekkert upp um framtíðarplön sín eða lofar honum neinu öðru, þykir hinsvegar hreint ekki fín.

Og þetta er einmitt munurinn á dindilhosum Besta flokksins og vinstri grænna. Dræsan lofar kjósandanum skyndirunki út á atkvæði en gefur engin marktæk loforð um framtíðina. Dándikonan lofar hinsvegar að halda heimili með bara einhverjum. Gott heimili jájájá, þótt sé reyndar útilokað að segja til um hvað makanum detti í hug eða að hve miklu leyti þurfi að lúffa fyrir honum. Það er allavega einhver svona umgjörð sem við þekkjum og einhvernveginn minna dræsulegt að gefa vel orðuð loforð og svíkja þau svo en að segja hreint út; ‘bara rosaflipp og svo líka svona allskonar fyrir aumingja ef við getum þá staðið við það’.

—–

Tjásur:

Segjum að Sóley hefði sagt að hún útilokaði samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Hvað hefði þá gerst ef VG og Samfylking hefðu samanlagt náð meirihluta? Þá hefði Samfylkingin verið stikkfrí til að gera það sem henni sýndist en VG gæti ekki annað en gefið eftir í öllum málum í mögulegum meirihlutaviðræðum við Samfylkinguna því flokkurinn hefði engan annan valkost nema að svíkja kosningaloforð. Úr því samningaferli kæmi síðan borgarstjórnarstefna sem væri litlu skárri en ef VG væri raunverulega í meirihluta með Sjálfstæðisflokk.

Ef VG hefði í slíku ferli fræðilegan möguleika á að semja við Sjálfstæðisflokkinn þá væri einmitt möguleiki á að ná fram fleiri stefnumálum flokksins í meirihluta með Samfylkingunni.

Posted by: Óli Gneisti | 18.05.2010 | 9:29:13

 

Já, þetta er áreiðanlega alveg rétt hjá þér. Hvernig sem á það er litið er fulltrúalýðræðið í skársta falli umgjörð utan um hrossakaup. Eiginlega algjör brandari.

Mér finnst útfærsla Spaugstofumanna á ýmsum pólitíkusum líkari þeim en þeir sjálfir og hef stundum sagt að Karl Ágúst og félagar myndu sennilega ekkert standa sig verr en ‘alvöru’ Alþingismenn.

Þegar Jón Gnarr var pottormur sagði skólastjórinn honum að hann gæti nú ekki lifað af því að vera sniðugur. Annað kom reyndar á daginn. Ef kjósendur komast að þeirri niðurstöðu að það sé hægt að stjórna borginni með því að vera sniðugur, hlýtur spaugstofuframboð til næstu Alþingiskosninga að vera rökrétt framhald. Mér finnst það óstjórnlega fyndið.

Posted by: Eva | 18.05.2010 | 10:03:08

 

Ég sé bara voðalega lítinn mun á að kjósa Jón Gnarr í borgarstjórn og að kjósa Sigmund Erni í prófkjöri Samfylkingarinnar og koma honum þannig inn á Alþingi. Fræga fólks fíkn.

Posted by: Óli Gneisti | 18.05.2010 | 10:14:41