Ég er oft spurð að því hversvegna ég setji alla feminista undir einn hatt, þegar svo margar stefnur falla undir feminisma. Ég er spurð hversvegna ég vilji eingöngu nota hugtakið feminismi um þá dólgastefnu sem ég hef lýst í þessari pistlaröð.
Þegar betur er að gáð set ég alls ekki allt kvennabaráttufólk undir einn hatt. Það eru dólgafemninistar sem gera það, með ónothæfri skilgreiningu sinni á feminisma. Það sem ég er að reyna að gera er þvert á móti að benda á að fjölmargir hafa áhuga á kynjapólitík án þess að eiga neina samleið með þeim dólgafemnistum sem hafa eignað sér hugtakið feminismi, með þeim afleiðingum að allur þorri fólks tengir orðið feminismi við fórnarlambshyggju, klámfóbíu og endalausan áróður um að konur séu hvergi óhultar fyrir nauðgurum og öðrum vondum körlum.
Feministar hafa í sumum löndum náð að yfirtaka og stjórna allri umræðu um kynjapólitík með sömu dólgslegu aðferðunum og þeir ásaka aðra um að beita konur. Feminstar hafa fáránlega mikil áhrif á fjölmiðla en kvarta jafnframt um að konur hafi ekki aðgang að fjölmiðlum enda þótt skýringin á kynjahallanum í fjölmiðlum sé augljóslega allt önnur.
Hin loðna skilgreining feministafélagsins hljómar kannski eins og þeir sem skrifuðu hana séu saklausir heimskingjar. En látið ekki blekkjast. Það þjónar tilgangi að hafa skilgreininguna svo víða. Markmið dólgafeminista er að öðlast algert kennivald, gera hugmyndir sínar að sannleika. Feministar nota skilgreiningu sem er nógu almenn til þess að allir sem hafa áhuga málefnum kynjanna geta samþykkt hana og um leið og einhver gengst við ákveðinni hugmyndastefnu, hneigist sá sami til þess að líta það jákvæðum augum sem kynnt er undir hennar merkjum.
Við þurfum að endurheimta kynjaumræðuna sem dólgafeministar hafa einokað. Brjóta á bak aftur þá hugmynd að hver sá sem mótmælir feministum sé kvenhatari eða fáviti nema hvort tveggja sé. Umræðan hefur opnast dálítið á síðustu árum en því miður er það ennþá svo að áhugafólk um kynjamál kallar sig feminista án þess að eiga neitt sameiginlegt með þeim forræðissinnuðu siðapostulum sem hafa gert hugtakið „feminismi“ ónothæft.