Rún dagsins er Kaun

Kaun er rún erfiðleika og sársauka. Í galdri er hún notuð til hefndar en eins og títt er um forneskju er hætt við að það bitni verst á norninni sjálfri og því mælt með að leita frekar annarra ráða til að jafna metin, sé þess þörf.

Í rúnalestri tákar Kaun að spyrjandinn geti búist við erfiðleikaskeiði þar sem reynir á þolgæði hans og vilja til að takast á við sjálfan sig. Kaun er tákn fæðingarhríða svo mundu að þótt sársaukinn geti virst óbærilegur verður engin fæðing án hríða. Heilmikill sköpunarkraftur er falinn í rúninni fyrir þann sem lærir af reynslunni.

Rún dagsins er Reið

Reið er rún ferðalaga og ævintýra. Í galdri er hún notuð til að finna ný og spennandi tækifæri og efla hugarflug og sköpunargleði. Eins er hún notuð til verndar í óvæntum og ískyggilegum aðstæðum. Reið er engin stöðugleikarún og varfærni er þörf við notkun hennar.

Í rúnalestri táknar Reið að spennandi tímar séu framundan. Allt getur gerst, svo það hvernig til tekst og hvaða þætti þarf að varast er komið undir því hvaða rúnir koma upp með henni. Reið gefur engin fyrirheit um að ferðalagið verði auðvelt en víst er að spyrjandanum mun ekki leiðast á þeirri ferð.

Rún dagsins er Ás

Æsir eru tákn menningar, hernaðar og visku og Ás er viskurúnin. Hún táknar bæði bókvit og þá visku sem menn öðlast af reynslunni. Í galdri er hún notuð til þess að finna rétt og skynsamleg svör við ráðgátum og góð ráð í hverjum vanda.

Í rúnalestri táknar Ás að fyrirhyggju sé þörf og að spyrjandinn skuli lesa sér til eða leita ráða hjá sér viturra fólki áður en hann tekur ákvörðun. Hugsa málin til enda og skipuleggja verkið áður en hann hefst handa. Einnig getur hún táknað að nú sé rétti tíminn til að hefja nám eða leggja út á nýja braut í menningu og listum.

Rún dagsins er Þurs


Þurs er bölrún, sú öflugasta í rúnarófinu. Þurs er rún óhamdrar náttúru sem ekkert verður við ráðið. Í galdri er hún notuð til að kalla bölvun yfir óvin en þar sem Þurs er vandmeðfarinn getur slíkur fordæðuskapur auðveldlega snúist í höndum manns og því best að láta hann eiga sig.

Í rúnalestri táknar Þurs áfall sem spyrjandinn getur ekki komið í veg fyrir, svosem náttúruhamfarir, efnahagshrun, sjúkdóma og dauða. Það sem hann getur gert er hinsvegar að bregðast við áfallinu, gera ráðstafanir til að draga úr afleiðingunum ef hann sér það fyrir og  muna að það er engin skömm að leita hjálpar. Það gerðu víkingar einmitt þegar þeir ákölluðu guði sína.

Nýtt feitabollublogg og fleira

Ég hef lítið notað Facebook-síðuna sem ég setti upp fyrir norn.is á sínum tíma og síðustu tvö árin hefur hún að mestu leyti verið lokuð. Enda lítill tilgangur með því að vera með virka síðu sem aldrei er uppfærð.

En nú er ég búin að opna hana aftur og ætla að prófa að vera sæmilega virk þar a.m.k. út ágúst. Halda áfram að lesa

Rún dagsins er Úr

Úr eða Úruxi er tákn nautsins sem plægir jörðina. Uxinn fer ekki mjög hratt en hann lætur engar fyrirstöður stöðva sig, Þetta er því rún styrks og þrautseigju. Í galdri er hún notuð til að efla viljastyrk og einbeitingu að einu markmiði.

Í rúnalestri felur Úr í sér ábendingu um að spyrjandinn eigi að halda ótrauður áfram á þeirri braut sem hann er þegar á eða þeirri sem blasir við, láta ekkert trufla sig og stilla sig um að sinna mörgu í einu. Einnig að hann eigi að hafa meiri trú á sjálfum sér því hann býr yfir miklu meiri styrk en hann gerir sér grein fyrir.