Er 6 vikna nálgunarbann nóg?

https://pixabay.com/p-1816400/?no_redirectHæstiréttur hefur staðfest 6 vikna nálgunarbann yfir móður sem beitti dóttur sína ítrekuðu ofbeldi.

Það er út af fyrir sig ánægjulegt að sjá nálgunarbanni beitt, það virðist mikil tregða til þess í kerfinu. En hvaða gagn á 6 vikna nálgunarbann að gera? Gefa fórnarlambinu smá hlé frá ofsóknum? Tilgangurinn með nálgunarbanni er bæði sá að tryggja öryggi brotaþola og að forða honum frá þeim sálarkvölum sem fylgja því að vera lagður í einelti. Það má reikna með að það taki flesta lengri tíma en 6 vikur að jafna sig af slíkri reynslu.

Nálgunarbann er ekki mjög íþyngjandi. Getur helst haft áhrif þegar hrellir og brotaþoli tilheyra mjög litlu samfélagi eða ef bannið hefur þau áhrif að gerandinn ætti í vandræðum með að stunda vinnu eða sækja almenna þjónustu.

Auðvitað ætti nálgunarbann að gilda að lágmarki í 6 mánuði og reyndar finnst mér að hrellirinn ætti að þurfa að sækja sérstaklega um niðurfellingu nálgunarbanns eða tilslakanir. Ef nálgunarbann er í alvöru íþyngjandi mætti þá beita vægara afbrigði af því, t.d. þannig að hrellirinn mætti ekki setja sig í samband við brotaþola að fyrra bragði og ekki gefa sig að honum þótt hann sé staddur á sama stað. Gerandinn þyrfti þannig ekki að láta sig hverfa þótt brotaþoli mætti á sömu leiksýningu og hann og hann gæti a.m.k. mætt í jarðarfarir í fjölskyldunni með því skilyrði að hann/hún láti brotaþola algerlega í friði.

Ég skrifaði um nálgunarbann hér

Ljósmynd: Pixabay

Sirkus og þingkosningar

Myndin er eftir Bernard Spragg https://c1.staticflickr.com/8/7412/9101944483_f652edf71f_b.jpg

Best er að hafa á þingi þæga trúða sem gera eins og Flokkseigendafélag Íslands vill

Eftir gífurlega vel heppnaða kennslustund kom samnemandi að máli við mig og spurði hvort ég ætlaði að kjósa og hvernig mér þætti að hafa þingkosningar á hverju ári. Sá er Íri og hefur fylgst með íslenskri póltík frá því í hruninu og fær oft annað sjónarhorn en það sem heimspressan býður upp á, í gegnum íslenska vinkonu sína.

Hann sagði mér að þegar hann skammaðist sín mjög mikið fyrir írsk stjórnvöld væri huggun að skoða fréttir frá Íslandi. „Írar þjást af smáríkiskoplex eins og Íslendingar en íslenskir stjórnmálamenn eru ennþá verri en írskir. Íslensk stjórnmál einkennast ekki bara af klíkuskap og spillingu heldur er svo mikið um kjánalegar uppákomur að fyrir þann sem þarf ekki að búa við íslenska pólitík eru fréttir frá Íslandi eins og ágætis gamanþáttaröð“ sagði hann.

Í ljósi þessarar fréttar fannst mér það fyndið.

Ljósmynd: Bernard Spragg

Ég er ekkert að flytja til Íslands

Síðustu tvo daga hafa margir komið að máli við mig. Ekki samt til að hvetja mig til að fara í framboð heldur til að spyrja hvort við Einar séum að flytja til Íslands, svona í ljósi þess að hann ætlar að gefa kost á sér í prófkjöri, hjá Pírötum að sjálfsögu.

Ég er í skóla hér í Glasgow og er ekkert að flytja til Íslands í vetur að minnsta kosti. Ef svo fer að Einar lendi á þingi þá verður hann auðvitað að flytja til Íslands og ég á þá frekar von á því að ég yrði þar næsta vetur. Mig langar ekkert til þess en mig langar heldur ekki að vera langtímum án hans.