Feministahreyfingin hefur á nokkrum áratugum öðlast kennivald á ýmsum sviðum. Skýrast kemur þetta fram í umfjöllun fjölmiðla um kynferðisofbeldi, vændi og klám. Hugmyndir feminista um orsakir þess, umfang og afleiðingar eru sjaldan dregnar í efa og aldrei hef ég séð blaðamenn ganga eftir gögnum um staðhæfingar þeirra, sama hversu vitlausar þær eru.
Kennivaldið birtist einnig í skólakerfinu, þar sem feministar vilja fá að stjórna því hvað börnum er kennt um kynjamun og samskipti kynjanna. Það birtist í menningarlífinu í endurtúlkun bókmennta og annarra lista, stýringu á því hvaða menningu skuli teljast viðeigandi að bjóða börnum upp á og hvaða listamenn megi níða og hverjum skuli hampað.
Í þessari vondu færslu sést líka greinilega hvernig feministar byggja málflutning sinn á þeirri hugmynd að feminismi sé grundvöllur siðferðis. Hugmyndin er sú að við þurfum femnisma til að halda aftur af kvenfyrirlitningu og ofbeldi. Þetta er nákvæmlega samskonar málflutningur og hjá trúmönnum sem halda því fram að án kristindóms myndum við öll leggjast í ólifnað og glæpi.