Feminstar álíta að kynlíf sem ekki er stundað eftir þeirra forskrift eigi ekki rétt á sér.
Þetta viðhorf er sjaldan orðað hreint út. Feministar geta þó ekki skýlt á bak við það að þeir hafi ekki gefið út bein fyrirmæli um það hvernig fólk skuli haga kynlífi sínu. Hugmyndir þeirra um eðlilegt og óeðlilegt kynlíf skín í gegnum umræðuna og birtist t.d. í skilgreiningum þeirra á klámi. Þannig er það álitið kvenfjandsamlegt og nauðganahvetjandi ef kona er „hlutgerð“ og/eða „undirskipuð“ í erótísku efni.
Orðið „hlutgerving“ hefur nokkuð víða merkingu í þessu sambandi. Ef kona er óvirk í kynlífi er það „hlutgerving“. Ef hún snýr baki í karlmann sem er að hafa mök við hana eða veitir karli munngælur er hún „undirskipuð“. Ef efni sem sýnir konur á þennan hátt er niðurlægjandi fyrir konur, þá hlýtur slíkt kynlíf líka að vera niðurlægjandi.
Í þessu sambandi er áhugavert að skoða ummæli sjálffræðingsins Gail Dines um skáldsöguna „Fifty Shades of Grey“ en hún kemst að þeirri niðurstöðu að konur séu svo vitlausar að þær skilji ekki hvað bókin sé niðurlægjandi fyrir konur.
Og jájá, ég er viss um að talskonur feminista kannast ekkert við þessa umræðu eða meina alls ekki að tiltekin kynlífsathöfn sé í eðli sínu niðurlægjandi þótt sé rosalega niðurlægjandi að hún sjáist á mynd eða meina eitthvað allt annað en þær segja. Það kæmi mér allavega mjög á óvart ef einhver þeirra viðurkenndi hið augljósa; að þær vilja stjórna því hvað er álitið afbrigðilegt og hvað ekki.