Úlfur

Það góða við að vinna í eldhúsi er að manni verður ekki kalt, yfirleitt eru almennileg áhöld innan seilingar og maður öðlast dýpri skilning á því hvað veitingahús eru rosalega ofmetin.

„Slæmur sósudagur“ tautar kokkurinn og fer yfir matseðilinn með mér. Allt frekar einfalt og klassískt, forunnið eins og á flestum veitingahúsum, rófurnar settar frosnar í örbylgjuofn og maukaðar jafnóðum, frosnu grænmeti dengt í kjötsúpuna, bleikjan steikt úr olíu (hvílík smekkleysa) fiskur dagsins að geðþótta kokksins.

Hann fer út að reykja og tvær þjónastelpur koma inn í eldhús. Barnungar og líta út nákvæmlega eins og ég fyrir 25 árum nema þær eru hærri vexti og með dökka hárrót.

„Megum við fá brauð með spægipylsu?“ segja börnin kurteislega. Það er ég sem er ný hérna en samt spyrja þær mig. Ég velti því fyrir mér hvort það sé aldur minn eða hvort þær séu vanar því að kokkurinn ráði. Allavega lítur út fyrir að það sé ég sem er mamman hérna. Ég gef grænt á spægipylsuna og önnur þeirra spyr mig hvort ég geti útskýrt hvað „iðgjald“ sé. Ég ákveð að hætta mér ekki út í pólitískt uppeldi svona á fyrstu vaktinni og gef eins hlutlæga skýringu á hlutverki stéttarfélaga og lífeyrissjóða og mögulegt er.

„Fæ ég þessa peninga einhverntíma eða er bara verið að stela af mér?“ spyr hún hreint út. Aldrei hvarflaði það að mér á hennar aldri að lífeyrissjóðirnir væru að ræna mig það rennur upp fyrir mér að þetta er efnahagshrunið í hnotskurn. Áður treysti fólk kerfinu en fór svo smátt og smátt að sjá í gegnum það, unga kynslóðin hinsvegar veit.

Telpurnar staldra stutt við í eldhúsinu en ég hef unnið á veitingastað áður. Eins og ég kann annars vel við unglinga þá þarf ég bara ákveðið rými við eldavélina. Ég ýja fínlega að óþoli mínu gagnvart eldhúsum sem gegna hlutverki félagsmiðstöðvar og fæ afdráttarlaust leyfi til að reka þjónana út ef ég sjái ástæðu til þess.
„Ég rek eigendurna út líka“ segir kokkurinn skælbrosandi.

Sný hrefnusteik á pönnunni og allt í einu finn ég augu hvíla á mér. Lít við og horfist í augu við pilt. Varla nema krakkabarn en ég þekki hann. Hann kom nokkrum sinnum til mín í Nornabúðina og eftir að ég fór út hefur hann þrábeðið mig að vinna með sér. Sent mér hverja bókina og greinina á fætur annarri, allt eitthvað um andaverur sem frímúrarar hafa náð valdi á að nota sem tilbera í viðleitni sinni til að ná heimsyfirráðum. Illuminati, táknmyndir á peningaseðlum, gott ef ekki gyðinglegt samsæri eða eitthvað svoleiðis, ég man þetta ekki allt en held að drengurinn sé heill á geðsmunum þrátt fyrir fjörugt ímyndunarafl.

„Ég bara trúi ekki á þetta ljúfastur“ sagði ég og óskaði honum heilla.
„Já en ég VIL vinna með þér“ sagði hann.
„Þú verður þá líklega að galdra mig til þín gæskur“ svaraði ég.

Og nú stend ég hér með pönnu í annarri hendi og steikartöng í hinni. Ekki af því að ég hafi áhuga á því heldur af því að allt tekur þrisvar sinnum lengri tíma en maður heldur og ég treysti því ekki að Alþjóðasetrið sjái mér fyrir nægum tekjum til að koma mér burtu héðan.

Drengnum stekkur ekki bros.
„Þú ert þá komin“ segir hann. Og virðist hreint ekkert hissa.

Best er að deila með því að afrita slóðina