100%

Alexander: „Ég veit hversvegna enginn vill borga þér fyrir að blogga. Það er vegna þess að þú ert of mikið ekta. Fólk þolir ekki 100% spíra, það þarf að þynna hann og bragðbæta með einhverju sætu.“

Ok. Ég er 100%. Líklega gambri eða hrásúkkulaði.

En málið er að litabókin var að verulegu leyti byggð á blogginu mínu og það er lesið. Samt seldist hún ekki. Ég held m.a.s. að fáar konur sem blogga fái fleiri flettingar en ég. Já, það er ekki það að ég sé ekki lensin, bæði DV og Smugan vilja endilega fá mig til að blogga á sínum svæðum en enginn vill hinsvegar borga krónu fyrir það. Karlana reyni ég ekki einu sinni að keppa við, m.a.s. lúðabloggari eins og Eiríkur Jónsson fær besta staðinn á vefsíðu Eyjunnar og það gengur fjöllunum hærra að hann fá borgað fyrir þetta eymdarinnar þvaður sitt. Um daginn birti hann mynd af hakkabuffi og spæleggi. Ég trúi því varla að Eyjan borgi fyrir svona rugl. Hvað er þetta annars eiginlega með typpi; eru þau svona rosalega marktæk, eða eru þau svona fyndin eða kannski hvorttveggja?

Ég er lesin, ekki keypt og hvað bókina varðar þá stendur það líklega í sambandi við styrkleikann. Fólk gefur ekki gambra í afmælisgjöf. Líklega eru lesendur mínir flestir laumufíklar. Og þó og þó, ekki er það spíramagnið sem skýrir það hversvegna enginn vill gefa út þýðinguna mína á bókinni hennar Kate Kerrigan.

Og ef það er samt spírinn sem veldur, kæri ég þá eitthvað um að vera tóník? Deyja textarnir mínir ekki bara ef ég tóna þá niður? Eða er ég bara of þrákelkin? Búin að mynda mér skoðun á því hver ég er og hvað ég er og ófáanleg til að endurskoða hugmyndir mínar?

Eitt er víst að praktískt er það ekki, að vera 100% á ég við. Ég fæ ekki vinnu sem blaðamaður. Jón Kaldal orðaði það hreint út, sagði að ég hefði bara of öfgakenndar skoðanir og að þessvegna hefði fólk of ákveðna skoðun á mér til að ég gæti funkerað sem fréttamaður.

Þóra Tómasar hefur líklega ekki skoðanir sem nokkur myndi telja öfgakenndar eða hvað? Og fólk ekki skoðanir á henni? Huhhh… ætli ástæðan sé ekki frekar sú að það er erfitt að flokka mig. Fell ekki vel að hægri vinstri skalanum. Sem er hvort sem er afdankað pylsupartý.

Í alvöru talað, ég er hámenntuð með víðtæka starfsreynslu, sjálfstæð og framtakssöm og einn af athyglisverðustu pennum sem skrifa á Íslensku þessi árin, og samt lítur út fyrir að ég geti ekki fengið vinnu við neitt nema hótelþrif og skúringar. Er virkilega eitthvað mér eða er eitthvað mikið að fjölmiðlum og bókaútgáfum sem þora ekki að gefa út efni eftir broddflugu?

Best er að deila með því að afrita slóðina