Um jarðarfarir

Þegar ég var að vinna á elliheimilinu í Bovrup fannst mér eitthvað ólekkert við að tala um að frú Petersen væri „dauð“. „Í íslensku eru til fleiri orð um dauðann og það þykir ósmekklegt að nota sama orðið um dauða manneskju og dautt dýr, er virkilega ekki til neitt annað orð í dönsku en død?“ spurði ég. Samstarfkona mín horfði þreytulega á mig „er man døj så er man døj“ sagði hún á klingjandi suðurjósku, og skellti tíköllum á augnlokin á frú Petersen. Eða á auglokin á líkinu af frú Petersen öllu heldur.

Og jarðarför… Jeminn hvað ég er dysfunctional þegar jarðarfarir eru annars vegar. Ég skil að fólk vilji koma saman til að minnast þess látna en sjálf finn ég enga huggun í því að því að sjá kistu á sviði og heyra minningarorð þar sem eingöngu hinum smekklegu þáttum lífshlaupsins er haldið til haga. Nei, vitiði hvað; það er ekki ég sem er dysfunctional heldur eru jarðarfarir dysfunctional fyrirbæri. Eða öllu heldur þessi hefð fyrir aðeins einu formi útfara. Formlegum samkomum á opinberum stöðum. Líkinu þvælt út um allan bæ í rándýrum umbúðum. Hvaða big arsehole ákvað annars að það það væri „kaldranalegt“ að fíla ekki einmitt þetta form? Er það ekki frekar kaldlynt samfélag sem viðurkennir ekki nema eina aðferð til að syrgja?

Ég hef mætt í margar jarðarfarir af því að það er viðurkennd leið til að votta aðstandendum samúð og sýna hryggð sína yfir því að einhver hafi dáið en þegar sá látni er náinn mér, þá ber fáránleikinn mig ofurliði.

Mig langaði að hlaupa út þegar afi Jói var jarðsettur. Ég var ekki heltekin af sorg heldur var það sviðsetningin sem fór með mig. Kista á sviði. Líkið af afa mínum í einhverju helgislepjusamhengi. Mér fannst það ekki hátíðlegt heldur aumkunarverð, nánast hlægileg tilraun til að heiðra minningu trúlauss manns. Mig langaði ekkert að mæta. Ég fór af því að það skipti ömmu máli.

Þegar amma dó, níu mánuðum síðar mætti ég ekki í jarðarförina hennar. Mig langaði það ekki og fannst enginn eiga kröfu á nærveru minni. Amma hefði viljað að ég kæmi en hún var ekki til lengur og það meikar engan sens að reyna að geðjast einhverjum sem er ekki til.

Þetta heitir víst að hafa kaldranalega afstöðu til dauðans. Það er „kaldranalegt“ að feisa þá andstyggilegu staðreynd að sá látni hvorki heyrir né sér og hefur sannarlega engar skoðanir lengur.

Sævar Ciesielski var jarðsunginn í gær. Ég syrgi hann ekki persónulega en mætti til að sýna samstöðu með kröfu hans um réttlæti. Mér fannst svo sorglegt að horfa upp á gamla útigangsmanninn sem var teymdur út úr kirkjunni vegna þess að hann truflaði athöfnina með hávaða. Það var auðvitað óásættanlegt og kannski ekkert annað hægt að gera en að fjarlægja manninn en þetta atvik sýnir svo greinilega að þetta fyrirkomulag, til þess að kveðja hina látnu, hentar ekki öllum. Munurinn á mér og honum er bara sá að ég hef verið lánsamari og því fær um að hafa stjórn á mér.

Best er að deila með því að afrita slóðina