Útgáfuteiti

Ég er í skýjunum.

Útgáfuteitið fór fram úr mínum björtustu vonum. Ég hafði ekki reiknað með nema í hæsta lagi 30 manns en um 130 manns mættu, m.a.s. fullt af fólki sem ég hafði ekki séð í mörg ár og átti alls ekki von á að kæmi. Ég vissi að Jón Hallur hefði samið flott lög við kvæðin mín en ég vissi ekki að hann kæmi með heila hljómsveit. Ég hafði ekki heyrt Sólveigu Öldu syngja fyrr og hún er með virkilega flotta rödd sem passar svo vel við þessi lög. Ég fékk gæsahúð þegar ég heyrði hana syngja hefndarseiðinn. Mér finnst ekkert annað koma til greina en að gefa þessi lög út og vona bara að Teinar komist í það sem fyrst.

Ég fékk m.a.s. gjafir en því átti eg alls ekki von á. Bækur og líka það sem mér fellur svo vel; gjafir sem eyðast, íslenskt jurtakrem, baðsápu, rauðvín. Það sem mér þykir vænst um er lítil kanína sem prófarkarlesarinn kom með handa ‘Jóu litlu’. Hún sagði að sér hefði strax farið að þykja vænt um þessa litlu telpu og vildi þessvegna koma með gjöf handa barni. Ég var virkilega hrærð. Norn nokkur kom með köku handa mér, skreytta með Bjarkarrúninni og það hefur sérstaka merkingu fyrir mig.

Skrudda bauð okkur svo út að borða um kvöldið á stað sem ég á áreiðanlega eftir að fara á aftur, Pisa við Lækjargötu. Ég efast um að ég hefði getað orðið heppnari með útgefanda. Þeir sáu bókina fyrst seinni part fimmtudags, hringdu í Ingó um 10 leytið morguninn eftir og sögðu JÁ. Ég hafði efasemdir um að Reykjavík Ar Gallery væri heppilega staðsett fyrir svona kynningu en aðsóknin var náttúrulega frábær og þetta er virkilega glæsilegt húsnæði og hentar vel fyrir svona viðburði.

Hér fyrir neðan er framsöguerindið sem ég hélt. Ég stytti það aðeins í flutningi en hér er það semsagt í heild sinni.

******

Verið velkomin öll og ég þakka ykkur fyrir að sýna bókinni okkar Ingólfs þann áhuga að mæta hingað í dag.

Ég hef oft verið spurð að því undanfarið hverskonar bók þetta sé. Ég skrifa, það sem ég kalla sýndarraunsæi, bókin er að hluta til endurminningar og persónulegar hugrenningar og að hluta skáldskapur. Markmiðið er að má út skilin milli skáldskapar og veruleika og viðfangsefnið er einsemd mannsins í heimi sem stöðugt reynir að troða honum í einhverskonar kassa. Heiti bókarinnar er ’Ekki lita út fyrir’ og undirtitillinn ’sjálfshjálparbók handa sjálfri mér og öðrum ýlandi dræsum.’ Fólk sem er mér kært hefur horft á mig með áhyggjublöndnum samúðarsvip þegar það heyrir þennan titil og ég ætla að nota tækifærið hér til að skýra hvað ég er að fara með þessu.

Á undanförnum árum og áratugum hafa feministar barist gegn þöggun kvenna í samfélagi okkar og er það vel. Ein er þó sú tegund kvenna sem ennþá á sér ekki rödd í umræðu um sín eigin örlög, sú sem í daglegu tali er kölluð dræsa. Dræsan er manneskja, oftast kona, sem með hegðun sinni, orðræðu eða klæðaburði, stundum þessu öllu, ögrar eða jafnvel ofbýður viðteknum siðferðisgildum, einkum á sviði kynferðismála. Hún getur jafnvel átt það til að nýta sér kynþokka sinn, sér til framdráttar, sem er auðvitað allt annað en að nýta sér völd, auð, ætterni eða pólitísk tengsl til hins sama.

Það er menningarlegt atriði hversu langt kona þarf að ganga til að teljast dræsa. Í sumum löndum getur kona t.d. búist við refsingu fyrir að horfast í augu við karlmann. Í vestrænum ríkjum þurfa konur að ganga miklu lengra til að teljast dræsur en engu að síður er það almennt viðhorf að dræsur eigi ekki tilkall sömu mannhelgi og annað fólk. Það eru t.d. ekki nema um 70 ár síðan hegningarlög buðu upp á heimild til refsiafsláttar í kynferðisglæpamálum ef þolandinn var álitin dræsa.

Í dag gerir lagabókstafurinn ekki greinarmun á dræsum og dándikonum en því fer þó fjarri að þetta viðhorf sé dautt. Í könnun sem sagt var frá á vísisvefnum þann 16. febrúar sl. kemur t.d. fram að rúmlega helmingur breskra kvenna álíti að kona geti sjálfri sér um kennt ef henni er nauðgað. Mér þætti gaman að vita hvort þessar sömu konur vilji gefa þjófi sem rænir mig refsiafslátt ef ég geng um með demantshring á hverjum fingri og splæsi kvöldverði á aðra en fjölskyldumeðlimi.

Dræsan er manneskja sem nýtur ekki virðingar og þótt lagabókstafurinn skerði ekki tjáningarfrelsi hennar er það ríkjandi viðhorf að það sé engin sérstök ástæða til að hlusta á hana. Þetta endurspeglast í hversdagslegum samskiptum venjulegs fólks. Ég hef ég sjálf orðið fyrir því þau dásamlegu rök gegn tjáningarfrelsi mínu að ég sé dræsa, lentu inni á borði sýslumannsins á Selfossi.

Þetta mun hafa verið árið 2004 en ég hafði þá um nokkurt skeið haldið úti vefbók undir heitinu Reykvísk sápuópera þar sem samskipti kynjanna og hugrenningar um tilfinningalíf einhleypra kvenna áttu nokkuð stóran sess. Ég lék mér þá sem nú að mörkum skáldskapar og veruleika og á forsíðu bloggsins stóð: ’Það er einlæg trú höfundar að góð saga sé ekki verri þótt hún sé login.’

Ég var í sambúð á þessum tíma og einhverju sinni skrifaði ég bréf til sýslumanns vegna umgengnisdeilu sambýlismanns míns við barnsmóður sína. Í bréfinu lýsti ég því m.a. hvernig börnin brygðust við þegar móðir þeirra hringdi oft á dag til að láta þau vita hvaða stórkostlegu atburðum þau væru að missa af með því að dvelja hjá pabba sínum yfir helgi. Stuttu síðar barst mér bréf með viðbrögðum konunnar. Hún rengdi mig ekki en benti sýslumannsembættinu á að ég hefði á vefbókarsíðu minni lýst, eins og hún orðar það; ’nánum kynnum við ýmsa menn.’ Semsagt; þar sem skrif mín bentu til þess að ég væri hin mesta dræsa, hlaut ég þar með að vera óhæf til að tjá mig um alls óskylda hluti.

Nú er ekki við öðru að búast en að flest fólk verði einhverntíma fyrir því að aðrir reyni að þagga niður í því með veikum rökum en í tilfelli dræsunnar eiga fjölmiðlar drjúgan þátt í þögguninni. Fyrir nokkrum árum gekk virkilega fram af mér þegar sá ég íslenskan sjónvarpsþátt, þar sem umræðuefnið var barnungar dræsur. Að sögn þáttarstjórnandans var nokkuð um að telpur á grunnskólaaldri notuðu bloggsíður til að birta ljósmyndir af sér fáklæddum og jafnvel í kynferðislegum athöfnum með öðrum stúlkum. Í fyrstu hvarflaði að mér að kannski væru þetta 4 eða 5 telpur en ekki víðtækt samfélagsmein en ekki kom fram hversu margar stúlkur væri um að ræða svo það er erfitt að meta umfang þessa ’vandamáls.’

Þegar efnið var kynnt vöknuðu hjá mér ýmsar spurningar um það hvað telpunum gengi til. Var þetta algerlega vanhugsaður fíflagangur eða gat hugsast að eitthvað meira lægi að baki? Var einhver þeirra að nota þessa leið til að lýsa frati á þá skoðun að eitthvað sé rangt við kynferðisleg sambönd milli kvenna? Var hugsanlegt að einhver þeirra væri þreytt á móðgandi athugasemdum og brygðist við með því að segja við alheiminn, gott og vel, ég er virkilega svona mikil dræsa, viltu ræða það nánar eða má ég tala núna?

Ég fékk aldrei svar enda engin umræddra stúlkna spurð hvað henni hefði gengið til. Hinsvegar var sægur fólks sem aldrei hefur sést brókarlaust á internetinu spurður álits, þ.á.m. félagsráðgjafi og mæður. Nú dettur kannski einhverjum í hug að aldur telpnanna hafi ráðið meiru en dræsueðli þeirra, þegar ákveðið var að ganga fram hjá þeim, en sá misskilningur leiðréttist þegar 15-16 ára rétthugsandi dándihnátur, voru beðnar að tjá sig. Vart þarf að taka fram að dándihnáturnar tuggðu sama svar og þær eldri, þessar stúlkur hlytu bara að hafa ’skerta sjálfsmynd.’ Ekki var þetta fyrirbæri ’skert sjálfsmynd’ skilgreint nánar en af samhenginu var helst að skilja að óskert sjálfsmynd merki einfaldlega að geðjast almenningsálitinu.

Nú er ég alls ekki að mæla með því að börn setji klámmyndir af sér á internetið og það er eðlilegt að samfélag sem álítur druslulega hegðun fela í sér samþykki fyrir ofbeldisglæpum, hafi áhyggjur af öryggi þessara telpna. Það sem hneykslar mig er hinsvegar að dræsan sjálf, sú sem málið snýst um, skuli ekki eiga sér neina rödd þegar sjálfskipuðum siðapostulum er boðið að sjúkdómsgreina hana í ríkisfjölmiðli.

Og það er ekki bara manna á milli og í blaðurþáttum fjölmiðla sem dræsan býr við þöggun, heldur tekur sjálft Alþingi þátt í þessu virðingarleysi. Nú eru nýlega samþykkt lög sem banna nektardans og hafa að sögn hafa þann tilgang að sporna gegn mansali, sem reyndar var ólöglegt fyrir. Ég þarf ekki að taka fram að við gerð þessara laga á Íslandi var enginn sem starfar í þessum geira á eigin forsendum spurður álits. Einnig eru nýlega gengin í gildi lög sem gera kaup á kynlífsþjónustu refsiverð og hafa þegar verið reynd í Svíþjóð. Þar staðhæfa vændiskonur að lögin geri líf þeirra á allan hátt erfiðara, en yfirvöld telja sig ekkert þurfa að hlusta á þær.

Ég efast ekki um að heilindi kvenna eins og Kolbrúnar Halldórsdóttur og Sóleyjar Tómasdóttur sem ég er sannfærð um að trúa í alvöru á verndargildi þessara laga. En eitthvað er nú samt gruggugt við lög sem sett eru í óþökk þeirra sem þeim er ætlað að vernda. Ég kem aðeins inn á það í bókinni hvernig lögin þjóna stundum öðrum tilgangi en þeim sem sem yfirvöld halda fram og ég velti því fyrir mér hvort fleira en einskær mannúðarsjónarmið hangi á spýtunni. Er hugsanlegt að það að ýta kynlífsiðnaðinum undir yfirborðið sé þægileg leið fyrir vinstri menn til að losa sig við innflytjendur án þess að fá á sig rasistastimpil? Flestar konur sem stunda nektardans á Íslandi, kom frá Austur Evrópu og með því að gera þeim illmögulegt að framfleyta sér hér, losna félagsáhyggjuöflin við heilmikið vesen sem fylgir auknum innflytjendastraumi. Ég velti þessu fyrir mér en sannfærð er ég um hið augljósara markmið laganna, sem er að vernda ákveðin siðferðisviðhorf, nefnilega þá skoðun að rétt og eðlileg kynhegðun sé sú sem samræmist hugmyndum meirihlutans og að þeir sem ekki fylgja þeim viðhorfum séu ýmist glæpamenn eða sjúklingar.

Bæði í Bandaríkjunum og Evrópu eru starfandi samtök fólks í kynlífsþjónustu, fólks sem þvertekur fyrir að það sé þrælar. Til undantekninga heyrir að slíkum dræsum sé boðin þátttaka í fundum og ráðstefnum um málefni sem snerta þennan iðnað. Í október 2008 ákváðu dönsk samtök fólks í kynlífsþjónustu að una ekki þessu virðingarleysi og tilkynntu þátttöku sína í ráðstefnu sem þeim hafði ekki verið boðið til. Þeim var ekki meinuð þátttaka en í kynningardagskrá ráðstefnunnar var framsögukonan kynnt sem ’málsvari hamingjusömu hórunnar’. Konan er semsagt kynnt til leiks með hugtaki sem feministar nota til háðungar þeirri skoðun að hugsanlegt sé að einhver vinni slík störf á eigin forsendum. Bara það að nokkur skuli hafa geð á því að tjá sig þegar skilaboðin eru augljóslega ’ok, leyfum þessum bjánum að tala’ bendir til þess að þeim sé orðið töluvert mikið niðri fyrir.

Það er leitt til þess að hugsa að þær konur sem mest tala um þöggun kvenna, skuli jafnframt vera öðrum ötulli við að þagga niður í þeim kynsystrum sínum sem eru mótfallnar því að klína sjúkdómsgreiningu eða glæpastimpli á kynhegðun sem víkur frá norminu. Það skýtur svo skökku við að þær hinar sömu konur virðast ekki líta á það sem vandamál þótt yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem starfa við að þrífa skítinn undan okkur hinum, hvort heldur er í verslunum, líkamsræktarstöðvum eða í Háskólanum, séu útlendingar sem hafa flúið fátæktina í heimalöndum sínum. Getur verið að við séum að koma okkur upp löglegri þrælastétt? Getur verið að okkur finnist ágætt að manna láglaunastörf með innflytjendum sem hafa engar forsendur til að standa í kjarabaráttu? Nei, auðvitað ekki, hugsar smáborgarinn, það er ekki hægt að hægt að halda því fram að við stundum þrælahald svo fremi sem stéttaskiptingin stenst lög. Það er aftur á móti stórhættulegt ef fólk sem er nógu ákveðið í að ná sér upp úr fátækt sinni, til að þola samfélagslega fordæmingu, nær að festa hér rætur. Við getum umborið litað fólk, en ekki þá sem lita út fyrir.

Þessi bók er öðrum þræði tilraun til að ljá dræsunni rödd og útlit, skýra hugarheim utangarðskonu sem lýtur ekki stöðluðum hugmyndum um samlíf kynjanna. Hún fjallar um blygðunarkenndina, hrokann, hégómann og hræsnina. Um þessi varnarbrögð sem við vissulega þurfum á að halda til að lifa af, en sem taka af okkur völdin yfir eigin örlögum um leið og við hættum að horfast í augu við þau.

Ég ætla að ljúka þessum lestri með því að gefa dræsunni orðið með aðstoð hljómsveitarinnar Teina en þau ætla að flytja lag við ljóð úr bókinni. Sögudræsan sem talar í ljóðinu, hefur komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að hlutskipti utangarðsmannsins sé einmanalegt, sé það þó eftirsóknarverðara en að lifa eftir reglum samfélags sem hún fyrirlítur. Ljóðið heitir Eyland.

Best er að deila með því að afrita slóðina