Allt að gerast

Jæja, þá sér nú loksins fyrir endann á þessu ferli. Mér finnst þetta allt hafa tekið ægilegan tíma en miðað við þann tíma sem það tekur yfirleitt að koma bókum í útgáfu þá get ég víst verið meira en sátt.

Yfirleitt taka útgefendur sér 6-8 vikur í að opna bókina og maður þarf að hringja til að reka á eftir því. Við nenntum ekki svoleiðis vitleysu og ákváðum strax að gefa hana frekar út sjálf en að bíða eftir svari í marga mánuði og gefa svo kannski út jólabók. Við fórum með handritið á 3 staði. Fyrst sendi ég JPV það með þeim orðum að við gætum ekki beðið lengi eftir svari. Hann var þá í útlöndum en átt að koma heim þann 29. Hann hefur ekki látið svo lítið að staðfesta að hann ætli að líta á þetta hvað þá meir. Bjartur var svo almennilegur að svara strax 3 dögum seinna. Sagði að handritið hentaði ekki ‘hinni sérviskulegu stefnu’ útgáfufyrirtækisins. Getur einhver sagt mér hvað er sérviskulegt við Bjart? Ingó fór þá með handritið til Skruddu og þeir hringdu í hann kl 10 næsta morgun og sögðu já. Gargandi snilld!

Ingó vann, þetta verður pappírsbók. Skrudda gefur hana út. Við göngum formlega frá samningi í næstu viku og ef ekkert óvænt kemur upp á ætti hún að koma út í mars. Þeir hjá Skruddu telja víst að fyrstu raf-bækurnar fái litla athygli og segjast ekki vilja fórna svona flottri bók í slíka tilraun.Ef okkur gegnur vel að kynna og selja þessa bók, er ég að hugsa um að bjóða þeim rúnabókina mína í til rafbókarútgáfu. Ég hugsa að hún henti vel til þess, það krefst lítillar aukavinnu af minni hálfu og hún flokkast ekki sem fagurbókmenntir og skiptir míg því ekki svo miklu máli.

En semsagt, allt tekur nú samt lengri tíma en maður heldur. Ég hefði haldið að bókin ætti bara að geta komið út í næstu viku en þetta er víst eitthvað flóknara. Skítt með það, það skiptir svosem engu máli hvort hún kemur út 3 vikum fyrr eða seinna en þetta merkir að við höfum 3 vikur til að undirbúa þokkalega kynningarherferð. Ég er að hugsa um að koma til Íslands og halda einn eða tvo fyrirlestra þegar hún kemur út. Jón Hallur Stefánsson er búinn að semja 3 lög við kvæði úr bókinni og svo erum við búin að hanna póstkort með Birtu sem verða þá tilbúin þegar hún loksins kemur í búðir. Hér er eitt sýnishorn.

Best er að deila með því að afrita slóðina