Bara eitt vandamál óleyst

 Jæja, allt tekur þrisvar sinnum lengri tíma en maður reiknar með í upphafi en loksins sé ég fram á að bókin okkar verði útgáfuhæf, ekki seinna en um næstu mánaðamót.

Stóra vandamálið í augnablikinu er að snillingurinn og dugnaðarforkurinn hann Ingólfur er ósammála mér um úgáfuformið. Mér hefur þótt einstaklega gaman að vinna með Ingó. Hann skilur mig nógu vel til að velja svipbrigði og sjónarhorn sem ríma algerlega við andblæinn í textanum og það hefur engan skugga borið á okkar samstarf. Vandamálið er hinsvegar að honum finnst það ’öfgakennd’ hugmynd að  pappírsnotkun sé í eðli sínu ofbeldi gegn trjám, og heldur fast við þá hugmynd að gefa hana út á pappír, þótt rafbók sé augljóslega hagkvæmari og umhverfisvænni kostur.

Nú er ég ekkert að halda fram neinum umhverfisfasisma. Maður kemst ekkert undan því að vera hræsnari og sjálf er ég langt frá því að vera barnanna best hvað varðar ónauðsynlega pappírsnotkun. Ég ætla ekkert að afneita mínum eigin níðingshætti gegn náttúrunni en einhversstaðar verður maður að draga mörkin og mér finnst eiginlega bara nóg komið. Við notuðum tölvur við gerð þessarar bókar og það er út af fyrir sig mjög subbulegt. Ég kom til Íslands með flugi bara út af þessu verkefni. Ég notaði túss í teikningarnar og við erum þegar búin að prenta út mörg blöð sem við hentum svo bara.

Ég er ekkert að fordæma alla pappírsnotkun en þar fyrir finnst mér óþarfi að myrða tré og sulla ómældu magni af bleki út í náttúruna, ef hægt er að komast hjá því án þess að neita sér um neitt. Það er líka bara tímaskekkja að sanka að sér tugum kílóa af pappír, sem rykfellur uppi í hillu og hálfdrepa sig á að bera bókakassa í hvert sinn sem flutt er á milli staða, þegar er alveg eins hægt að geyma allar upplýsingar af mörg hundruð pappírsörkum í einu litlu skjali í fartölvunni eða á usb lykli. Ég er löngu hætt að kaupa pappírsbækur ef er hægt að fá þær á rafrænu formi og held að það líði ekki nema í mesta lagi 5 ár þar til pappírsbókin verður úrelt fyrirbæri.

Ingólfur minn elskulegur heldur að myndirnar hans njóti sín ekki á tölvuskjá en mér finnst þvert á móti stór kostur fyrir lesandann að geta stækkað og smækkað mynd og texta. Rafbók er miklu ódýrari bæði í útgáfu og fyrir kaupandann, auk þess sem yrði það ekki stórkostlegt áfall fyrir okkur ef innsláttarvilla eða uppsetningargalli kæmi í ljós eftir útgáfudag. Enn einn kostur við rafbók er sá að við þyrftum ekki að standa í því að koma vitinu fyrir útgefanda sem dytti í hug að auglýsa bókina með ógeðsklisjum á borð við ’dregur ekkert undan’ eða ’djörf myndvinnsla’. Ég bind því vonir við að hann Ingó minn nái sömu hæðum í skynsemi og í því að draga fram hjá mér svipbrigði sem ég vissi ekki að ég byggi yfir.

Ég vil gjarnan fá að vita hvað þeim sem skoða þessa síðu finnst um þá hugmynd að gefa út netbók.

Best er að deila með því að afrita slóðina