Testesterón

Fyrsti dagur á nýjum vinnustað. Ég ætla ekki að verða ellidauð í heimaþjónustu en starfið útheimtir lágmarks samskipti við yfirmenn og samstarfsfólk og ég byrja ekki í sjálfstæðum rekstri í ókunnugu umhverfi þegar aleigan er 600 kr danskar og skuldahali í íslenskum.

Jakob talar drafandi Suðurjósku en ég skil hann samt, tungumálið verður ekki til teljandi vandræða. Hann stikar stórum skrefum á undan mér út í bílinn og testesterónið lekur af honum. ‘Vert’ekki með svona flottan rass’ hugsa ég, því enda þótt maðurinn eigi ekkert skylt við úfna lopapeysu á ryðguðu reiðhjóli er orðið þó nokkuð langt síðan ég hef komist í tjáningarfæri við annað karlkyns en nánustu ættingja, kanínukarlinn Hlunk og svo Guðjón litla, hrútinn hér í Hullusveit.

-Ég ætti kannski að aka, segi ég eftir fyrsta klukkutímann og finn um leið hvernig östrógenið gegnsýrir bæði rödd og orðfar. Ekki ‘ég skal aka’, ‘ég ek’ eða ‘má ég aka?’, heldur þessi kvenlegi tillögustíll sem gefur til kynna að þetta sé nú bara svona hugmynd, algerlega háð hans samþykki. Af hverju gera konur þetta? Af hverju geri ég þetta?

-Þú hefur nógan tíma til að kynnast bílnum, það eru mikilvægari hlutir sem þú þarft að læra í dag, segir Jakob vingjarnlega og stígur enn einu sinni upp í bílstjórasætið.

-Ég hef ekki áhyggjur af því að geti ekki ekið, það er umhverfið sem ég vil kynnast, ég á erfitt með að rata, segi ég.

-Það er nú ekkert mál, þetta er ekki stórt svæði, sjáðu nú erum við komin hingað aftur svo þú ert nú þegar búin að kynnast þessari götu svarar Jakob, jafn vingjarnlega. Ég kannast að vísu ekkert við að hafa séð þessa götu fyrr en ég ákveð að láta samtal okkar ekki snúast um sértæka rýmisgreindarskerðingu mína, svona fyrsta daginn, heldur brosi ég gáfulega og geri mér upp betri dönskukunnáttu en ég raunverulega hef (það er gert með því að þagna ekki á meðan maður leitar að orðum, heldur bulla frekar eitthvað um hvað gatan sé falleg eða nota ensk orð með dönskum áherslum, það er bjánaleg þögn sem gerir mann mállausan, ekki vankunnáttan.)

Jakob er með litla tölvu þar sem hann skráir staðina sem við förum á og tímann sem við eyðum á hverjum stað. Ég bið hann að kenna mér á tækið en það eru aftur aðrir hlutir og mikilvægari sem ég þarf að læra. Ég segi honum að ég hafi unnið við aðhlynningu aldraðra áður og kunni bæði á lyfjabox og bleyjur en ég hafi aldrei séð svona tæki áður. Og Jakob brosir með öllu andlitinu, þenur brjóst og sperrir stél og sýnir mér hvernig það er notað.

-Kannski ætti ég að prófa? Mér gengur alltaf best að læra með því að prófa sjálf, segir östrógenið í mér og ég kyngi klakhljóðinu þegar handleggir okkar rekast óvart saman. Hvað er eiginlega að mér? Ég myndi ekki einu sinni sjá þetta vöðvaflykki ef ég væri ekki langsvelt af samneyti við tegundina og hann er ekki einu sinni laglegur.
-Þetta er mitt tæki. Þú færð þitt eigið þegar þú ferð ein, segir Jakob ákveðinn. Ókei, ég má semsagt ekki hafa tækið. Kannski er það mjög persónulegt, svona eins og tannbursti eða nærbuxur.

Jakob er duglegur. Eiginlega of duglegur. Ég má hjálpa nokkrum úr sokkunum og bursta tennur en helst ekkert annað. Hann er samt mjög viljugur að kenna mér, bæði segja og sýna og hann er yndislega góður við gamla fólkið. Ein frúin býður honum upp í rúm til sín en hann slær því upp í grín og það er ekkert fum á honum þótt ein neyðarbjallan finnist ekki og fötluð kona hrasi, heldur grípur hann hana af kunnáttu og öryggi.

Í matarpásunni spyrja konunar hvernig mér lítist á. Vel svosem, að öðru leyti en því að ég hef áhyggjur af því að mér gangi illa að rata. Þær skilja áhyggjur mínar vel, lentu sumar í því sjálfar fyrstu dagana að villast, gagga svo hver upp í aðra að ég eigi endilega að taka við stýrinu því það sé fljótlegra að læra á umhverfið þannig. Ég sé brúnina á Jakob þyngjast verulega en hann plokkar í matinn sinn og segir ekkert. Eftir mat gríp ég lykilinn, strunsa út á undan Jakob og sest undir stýrið.

-Svo þú vilt keyra? segir hann þurrlega.

-Þetta eru ekki færri en 20 heimili, ég á aldrei eftir að læra að rata þetta bara með því að horfa út um bílgluggann segi ég og hann leiðbeinir mér af vinsemd og leggur sig virkilega fram um að leyna fýlunni.

-Þú þyrftir að aka hraðar, segir hann eftir smástund og gætir nokkurs óróa í röddinni.

-Virkilega, hver er hámarkshraðinn hér? segi ég þótt ég viti vel að hann sé 30 og gatan full af hindrunum svo það er ekki hægt að aka hratt, hvað þá skynsamlegt. Jakob hefur á orði að þótt sé mikilvægt að virða lög séum við samt á eftir áætlun.

‘Og hvað gerist ef við verðum 10 mínútum of sein? Kemur þá Þorgeirsboli og étur gamla fólkið?’ hugsa ég, en hætti ekki á að styggja fallosarkomplexinn frekar. Þegar ég stoppa rífur hann lykilinn af mér, ósköp vingjarnlega samt og ég átta mig allt í einu á því að það eru ekki vöðvarnir sem hafa þessi undarlegu áhrif á hormónana í mér, heldur þessi hlýja, yfirvegaða, karlheimskulega frekja. ‘Djöfull sem konur geta verið vitlausar’, hugsa ég og reyni að einbeita mér að því að leggja leiðina á minnið en sé ekki betur en að við séum alltaf að aka fram hjá sömu húsunum.

Ein konan þarf mikla hjálp og er frekar þung. Ég vil fá að taka hana upp úr hjólastólnum og Jakob sýnir mér handtökin þolinmóður, í þriðja sinn þann daginn.

-Ég vil prófa sjálf. Ég er hrædd um að missa hana og finnst öruggara að læra þetta með stóran, sterkan karlmann við hliðina á mér en að gera þetta í fyrsta sinn þegar ég stend hér ein, segi ég. Þetta virkar. Jakob hreinlega belgist út af karlmennsku og allt í einu er ekkert því til fyrirstöðu að ég fái að reyna sjálf, enda þótt hann hafi verið í þvílíku tímahraki 10 mínútum áður að hann treysti mér ekki til að aka bíl í vistgötu. Ég fæ m.a.s. að prófa fjarstýringuna á sjúkrarúminu.

Eins satt og það er að karlmaður sem kann á græjurnar, þekkir fólkið og getur borið fíl, er ákveðinn öryggisventill, þá finnst mér hálf hallærislegt að þurfa að gera út á bjargarleysi mitt til að komast inn í starfið en gott og vel ef það er það sem virkar þá er það líka það sem við notum. Á heimleiðinni blaka ég augnhárunum og set dálítinn kvíða í röddina þegar ég muldra eitthvað um að ég sé hrædd um að rata ekki nema ég hafi einhvern rólegan og ákveðinn til að leiðbeina mér. Þegar við komum niður í miðstöð aftur er Jakob í besta skapi og hefur á orði að það sé best að ég reyni að aka á morgun, hann þurfi nú líklega að kenna mér leiðina.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Testesterón

  1. ————————————

    Snilldarpistill. Gangi þér vel með jótana.

    Posted by: Varríus | 5.06.2009 | 10:41:35

    ————————————

    *fliss* 😀

    Posted by: Unnur María Bergsveinsdóttir | 26.06.2009 | 22:32:07

Lokað er á athugasemdir.