Bréf til nágranna minna

Mávahlíð 39, Reykjavík 17.04.2009

Til húsfélags og íbúðareigenda að Mávahlíð 39

Í gærmorgun þegar ég vaknaði stóð stórt, gamalt grenitré í garðinum mínum. Ekki svo að skilja að það hafi komið mér á óvart, það hefur verið þar lengi og hefur (eða hafði öllu heldur) töluvert tilfinningalegt gildi fyrir mig og ég kallaði það Elías. Ég opnaði gluggann og ræddi heimspeki dagsins við Elías en settist svo við vinnu mína. Um klukkutíma síðar kem ég fram og sé þá mann uppi í trénu, langt kominn með að saga af því greinarnar.

Mig rak í rogastans og datt helst í hug að maðurinn hefði fengið rangar upplýsingar um heimilisfang, rauk út í töluverðri geðshræringu og bað hann að koma niður. Það kom í ljós að hann hafði verið ráðinn til þessa óþverraverks og að ákvörðun um að aflífa tréð mitt hafði verið tekin á fundi sem var haldinn á meðan ég var á ferðalagi. Enginn íbúa hússins hafði, þótt síðan séu liðnir allmargir mánuðir, sýnt mér þá kurteisi að láta mig vita.

Ég get vissulega sjálfri mér um kennt. Ég hafði ekki haft hugsun á því að gera ráðstafanir til að fá fundarboð á meðan ég var í útlöndum og frá sjónarmiði laganna eruð þið í fullum rétti. Þið höfðuð allar lagalegar heimildir til að halda fund án mín og taka þessa ákvörðun án þess að ég hefði neitt um það að segja. Jafnvel þótt ég hefði setið fundinn hefðuð þið líka getað valtað yfir mig í skjóli meirihlutavalds. Ykkur bar heldur engin skylda til að láta mig vita af því að til stæði að drepa lífveru sem var mér kær. Engin lagaleg skylda.

Engu að síður er ég mjög sár vegna trésins og aukinheldur fjúkandi reið yfir þessari framkomu. Fyrri eigendur sögðu mér að einhverntíma hefði komið upp skoðanaágreiningur vegna trésins og því hefði ekki átt að vera erfitt að giska á að ég kynni að hafa skoðun á þessu. Það er hugsanlegt að þetta hafi verið rétt ákvörðun en ef ég hefði verið höfð með í ráðum, hefði ég allavega getað beðið skógfræðing sem ég treysti um álit á því hversu mikla vinnu og kostnað það hefði útheimt að bjarga Elíasi. Mér hefði þótt sanngjarnt að fá það tækifæri þar sem þetta var engan veginn brýnt verkefni og langur tími liðinn frá þessum fundi og þar til tréð var aflífað. Þið máttuð gera þetta, já, en mér gremst. Nánast allur minn frítími fer í baráttu gegn valdníðslu ríkis, fjármálastofnana og stórfyrirtækja og þar sem ég hef aldrei haft annað en gott af nágrönnum mínum að segja, hvarflaði ekki að mér að ég þyrfti að standa í sömu baráttu heima hjá mér.

Ég er sjálf þeirrar skoðunar að best fari á því að samskipti milli fólks einkennist af gagnkvæmri tillitssemi eða a.m.k. af lágmarks kurteisi. Mitt álit er þó langt frá því að vera neitt heilagt og það sjónarmið að fólk megi fara sínu fram og valta yfir náunga sinn, svo fremi sem það fremji ekki lögbrot, á vissulega rétt á sér og virðist reyndar ríkjandi í Vestrænu samfélagi. Það er rökrétt að túlka þennan atburð sem yfirlýsingu um að það sé sú samskiptastefna sem gildi í Mávahlíð 39 og þar sem meirihlutinn hefur þá afstöðu hlýt ég að gangast inn á hana hér og nú.

Ég fer utan til Danmerkur í lok mánaðarins og óska hér með eftir því að fundarboð á húsfundi og aðrar mikilvægar upplýsingar sem ég kann að eiga rétt á, verði framvegis sendar til [….]

Ennfremur vil ég, til að fyrirbyggja misskilning að þið vitið að ég læt anarkistahreyfingunni eftir fullan afnotarétt af íbúðinni minni á meðan ég er í burtu svo óþarft er að undrast sérkennilegar mannaferðir um húsið.

Fyrstu hóparnir sem verða með aðstöðu hér er anarkistakórinn sem hefur það að markmiði að flytja pólitísk söngverk, bæði hátt og illa auk þess sem fríbúð, bókaútgáfa og ýmis önnur menningarstarfsemi tekur til starfa í húsinu strax á næstu dögum.

Nýgræðingapönkhljómsveitin ‘Rassgat og alnæmi’ missir svo æfingahúsnæði sitt um mánaðamótin maí-júní og má búast við töluverðum straumi fólks þegar sú hljómsveit tekur til starfa í húsinu. ‘Rassgat og alnæmi’ er afar vond hljómsveit og veitir ekki af stífum æfingum. Hún er í nánu samstarfi við dauðarokkhljómsveitina ‘Kviðmágar Kölska’ og má reikna með tímabilum þar sem sameiginlegar æfingar verða áberandi, einkum með haustinu.

Ennfremur mun tilraunaeldhús anarkista halda hér mörg og fjölmenn matarboð, þar sem áhersla verður lögð á undarlega þefjandi rétti frá framandi menningarsamfélögum sem og grillveislur utanhúss.

Þá mun ég bjóða áhugahópi um einkarekinn anarkistaleikskóla, sem leggur áherslu á óhefta tjáningu og frjálslega uppeldisstefnu, að nýta íbúðina og garðinn en það verður aldrei fyrr en júní þar sem það fólk er allt kornungt og ennþá í skóla.

Nú býst ég við að þetta hljómi eins og töluvert ónæði gæti fylgt þessu unga og kraftmikla fólki, en hafa ber í huga að alls ekki stendur til að brjóta nein lög gagnvart húsfélaginu og íbúum hússins. Þannig verður hvorki hávaði né annað ónæði viðhaft nema á löglegum tíma, þ.e. frá 7 á morgnana og fram til miðnættis. Gæludýrahald stendur heldur ekki til en lög um fjölbýlishús banna ekki að gæludýr komi í heimsókn og maaaaaargir anarkistar hafa dálæti á dýrum, einkum hundum, svo ég reikna með að eitthvað verði um að hundar komi hingað sem gestir. Ég reikna ekki með að fólk taki gælutrén sín með sér hingað enda ekki daglegt brauð að tré séu felld að eigendum sínum forspurðum.

Ef svo ólíklega skyldi fara að íbúðareigendur í Mávahlíð 39 komist einhverntíma í framtíðinni að þeirri niðurstöðu að hugsanlega sé þægilegra að byggja samskipti í fjölbýlishúsi á gagnkvæmri kurteisi en yfirgangi í skjóli lagabókstafsins, mun ég að sjálfsögðu vera til viðræðu um að reyna þá leið, enda hefur hún jafnan gefist mér vel. Ég fer utan um mánaðamótin en kem líklega heim í desember, og hygg ég að þessir 7 mánuðir verði ágætis reynslutími.
Með kveðju (en afskaplega takmarkaðri virðingu)

Eva Hauksdóttir

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Bréf til nágranna minna

  1. —————————————-

    Fokk hvað ég vildi fá þig á þing. Manneskja sem tekur svona á tillitsleysi nágranna myndi örugglega bylta mörgum málaflokkum á þingi og fyrst af öllu þinginu sjálfu.

    Grannarnir hljóta að skilja hversvegna þú ert svona reið og bjóða einhverja sátt. Þetta er nú kannski að einhverju leyti aulagangur, við erum svo vön því að mál séu afgreidd án samráðs ef það er hægt. Ég vona allavega vegna annarra í hverfinu að þurfi ekki að halda marga pönktónleika svo punkturinn komist til skila.

    Posted by: GK | 17.04.2009 | 11:03:21

    —————————————-

    Þú ert snilldar penni!

    Posted by: Julia | 17.04.2009 | 11:35:10

    Þú ert snillingur 😉

    Posted by: Inda | 17.04.2009 | 11:41:51

    —————————————-

    Heyr heyr!

    Posted by: Hrafnhildur | 17.04.2009 | 11:55:40

    —————————————-

    Frábær lesning, bjargaði deginum algjörlega!

    Posted by: Magga | 17.04.2009 | 12:17:43

    —————————————-

    Við skiljum reiði hennar og þykir þetta allt saman leiðinlegt. Við erum líka að lesa allt sem fram fer hérna. Ég get sagt ykkur það að það voru engar frekari ástæður að baki þessu nema gleymska. Það má hver vita að við getum verið gleymin fjölskylda. En eins og pabbi segir í bréfi sínu til Evu, þá vorum við ein um allt viðhald garðsins og þá meina ég allt, meira að segja garðslátt, og kannski gefur það okkur aukinn rétt? Kannski? Nei? Ég veit það ekki. Alla vegana, þá vona ég að þú bannir anarkistunum (ef það er einu sinni hægt) að koma með dýr, ef ekki meira, því við erum öll með ofnæmi og ég er viss um að þú vilt ekki óbeint valda neinum heilsutjóni. Hvað varðar pönk, erum við öll pönkarar nema bróðir minn svo það er ekki svo slæmt. Spurning með hina nágrannana.

    Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir öllum þínum störfum Eva og kunnað vel við þig, það litla sem ég þekki af þér. Leitt að heyra að það sé ekki gagnkvæmt. Ég vona bara að þú finnir í brjósti þér getu til að fyrirgefa fjölskyldunni minni fyrir þessa valdníðslu af gáleysi sem við gerðumst víst sek um.

    Posted by: Kári Emil Helgason | 17.04.2009 | 12:24:40

    —————————————-

    „Ég er sjálf þeirrar skoðunar að best fari á því að samskipti milli fólks einkennist af gagnkvæmri tillitssemi eða a.m.k. af lágmarks kurteisi.“

    Eva, það er ekki nóg að hafa þessa skoðun, þú mættir alveg fara meira eftir henni sjálf.

    Skv. pistlinum þínum þá var eflaust klúður að bjóða þér ekki á fundinn, en ef 3/4 hluta íbúa vildu fella tréð, þá er því miður ekkert við því að segja.

    Keyptu þér einbýlishús ef þú ert ósátt við íbúalýðræði, en ekki hefna þín á fólkinu í kringum þig.

    Posted by: Matti | 17.04.2009 | 16:14:04

    —————————————-

    Tillitsleysið af hálfu sambýlinga þinna var að gleyma að láta þig vita af niðurstöðum fundarins. Ertu sem sagt að lýsa yfir hefndaraðgerðum í 7 mánuði fyrir það?

    Það er í besta falli barnalegt, óskaplega lítil tillitssemi og kurteisi sem felst í þessu.

    Posted by: Alma | 17.04.2009 | 16:26:50

    —————————————-

    Jæja Kári. Þetta virkar alveg hjá þér. Viðurkenna tilfinninguna, halda ró sinni jaríjí, ekki svara reiði með reiði þótt það hljóti að vera eðlilegt. Mjög skynsamlegt. (Hér mynd einhver sennilega setja broskall til merkis um að þetta eigi ekki að vera kaldhæðni en ég er sparsöm á broskalla.) Já, ég er að koma niður af reiðinni. Loksins. Undarlegt að sálfræðilögmál skuli verki á mann þótt maður viti af þeim. Þú ert ágætur. Ég hef ekki fengið neitt bréf frá pabba þínum enn. Það er eflaust á leiðinni.

    Jú, það að einhver taki að sér, upp á sitt eindæmi að slá lóðina gefur honum vissulega aukinn rétt til hennar siðferðilega séð. Ekkert nema sjálfsagt að sá hinn sami gangi fyrir um afnot af henni. Ég væri fullkomlega sátt við það og að greiða fyrir almennilegheitin eða semja um önnur verk í staðinn. En óafturkræfar breytingar er svo annað mál. Ég vona innilega að það sé rétt hjá þér að það hafi staðið til að láta mig vita.

    Matti og Alma ef þið hafið ekki náð því um hvað málið snýst út frá því sem ég hef þegar skrifað þá vantar eitthvað upp á lesskilning ykkar.

    Posted by: Eva | 17.04.2009 | 17:42:53

    —————————————-

    Úff. Það er margt í mörgu. Skil ykkur öll. Komst í mikið uppnám þegar til stóð að fella tré hjá mér. Skil líka gleymsku nágrannanna. Gleymi ótrúlegustu hlutum um leið og ég er búin að einsetja mér að muna þá. Legg til sættir. Okkur verður öllum á.

    Posted by: ES | 17.04.2009 | 17:50:56

    —————————————-

    Hér er bréfið sem ég sendi á nornabudin@nornabudin.is á fimmtudag kl. 3.

    Sæl Eva.

    Fyrst vil ég byrja á því að biðja þig afsökunar á því
    að þú varst ekki höfð með í ráðum þegar ákveðið var
    að taka tréð. Það voru stór mistök en var ekki viljandi.

    Aðalástæðan var sú að það hreinlega gleymdist. Þetta
    var ákveðið fyrir svo langalöngu að það mundi enginn
    eftir því að þú bjóst ekki í húsinu þegar þetta mál
    fór af stað.

    Að auki hvarflaði aldrei að okkur að þú hefðir snefil
    af áhuga á nokkru því sem viðkom húsinu, garðinum eða
    umhverfinu. Aldrei sá ég nokkurt ykkar af heimilinu
    vinna í garðinum eða gera neitt í honum utan þessi
    tvö skipti sem Haukur hengdi rusl í tréð. Rusl sem
    hékk þar enn tveimur árum seinna vegna þess að enginn
    fann aðferð til að ná því niður nema að kaupa stiga
    eða leigja krana.

    Hvers vegna vildum við svo taka tréð? Það var orðið
    feyskið og gat fallið í næsta óveðri. Ein stór grein
    hafði þegar brotnað í stormi. Það var svo fúið
    að það sáldraði greinum og sprekum um allt. Tvisvar
    á ári þurftum við að borga hreinsunarfyrirtæki fyrir
    að moka greninálunum úr þakrennunum. Það skyggði á
    allan garðinn og báðar svalirnar.

    Við hjónin höfum lagt tugi eða hundruð klukkustunda
    í garðinn á hverju sumri þótt við höfum engan áhuga
    á garðrækt. Enginn annar í húsinu hefur lagt svo mikið
    sem eina einustu mínútu í hann síðan við fluttum inn.
    Það hefur enginn annar slegið grasið, enginn annar
    tínt ruslið, enginn annar hreinsað arfa, plantað jurt, kantskorið, sópað stéttirnar, klippt runnana eða
    unnið nokkurt annað garðverk.

    Er von að við teldum ykkur hin fremur áhugalaus um hann?

    Ég vona að þetta verði ekki til að valda deilum því
    við höfum við ekkert við þig að sakast og ætluðum
    okkur ekki að gera neitt á þinn hlut.

    Posted by: Helgi Briem | 17.04.2009 | 18:09:30

    —————————————-

    Ruslið sem Haukur hengdi í tréð? Er það kaðalrólan sem var mikið notuð m.a. af þínum börnum?

    Ég veit ekki hvort þú hefur tekið eftir því en ég bjó alls ekki í húsinu síðasta sumar og reyndar heldur ekki árið áður en ég flutti inn í september. Hafði ekki hugmynd um að öll vinna við garðinn hefði lent á ykkur.

    Afsökunarbeiðni tekin til greina. Ég er ennþá ekki fær um að ræða þetta án þess að æsa mig en býð hér með þér og þinni fjölskyldu í kaffi og köku á sunnudaginn. Verð væntanlega búin að jafna mig þá.

    Posted by: Eva | 17.04.2009 | 19:19:02

    —————————————-

    Kæra Eva.

    Ég bið hér með um leyfi þitt fyrir því að Saving Iceland verði með tjaldbúðir sínar í garðinum hjá þér í seinni hluta júní mánaðar, og júlí og ágúst mánuði alla.

    Með von um jákvæð viðbrögð, fyrir hönd SI, ÓPS

    Posted by: Olafur Páll Sigurðsson | 17.04.2009 | 19:49:30

    —————————————-

    PS: Ég gleymdi að taka fram að við þurfum helst eins mörg bílastæði og mögulegt er. AUk þess þarf ég vart að geta þess að það verður eflaust mikill umgangur að hálfu lögreglu, bæði innan garðs og utan.

    Posted by: Ólafur Páll Sigurðsson | 17.04.2009 | 19:59:16

    —————————————-

    Þar sem einlæg viðurkenning á mistökum virkar frekar vel á mig bið ég þá sem koma í heimsókn í kvöld að viðhafa prúðmennsku 🙂

    Óli, tölum saman á morgun.

    Posted by: Eva | 17.04.2009 | 20:08:59

    —————————————-

    Takk fyrir, Eva. Það gleður mig að við getum sæst eins og siðmenntað fólk. Góða skemmtun í kvöld.

    Posted by: Helgi Briem | 17.04.2009 | 20:25:54

    —————————————-

    Hvernig er það, ætlaðir þú ekki að flytja til útlanda? Endilega drífðu í því – getur tekið Elías með þér.

    Posted by: Hannes | 18.04.2009 | 1:55:53

    —————————————-

    Þú ert alltaf í boltanum.
    Hverjum er ekki sama um eitt vessælt tré?

    Hefuru hugleitt af hverju Elías var aflífaður?

    Af hverju eru kettir eða hundar aflífaðir t.d?

    Helduru að þeir sem búi í sama húsi og þú hafi ekki viljað bjarga Elíasi ef það hefur verið hægt?

    Hvað má búast við af þér næst?

    Að þú mætir í nornabúningi með mótmælaspjald fyrir framan Austurvöll sem stendur á: Björgum Elíasi, björgum Elíasi!

    Sorry en mér finnst þú smá furðuleg.

    Posted by: tjásukall | 18.04.2009 | 16:24:33

    —————————————-

    Fyrst þú líkir þessu við hund (þín líking en ekki mín) þá geturðu kannski gert þér í hugarlund hvernig það kæmi við þig ef hundinum þínum yrði lógað án samráðs við þig.

    Fólk er að jafnaði dálítið furðulegt.

    Posted by: Eva | 18.04.2009 | 18:12:38

    —————————————-

    Og nei, ég mun ekki mæta neinsstaðar með slíkt spjald. Í fyrsta lagi er of seint að bjarga Elíasi en auk þess er hugmyndin bæði ófrumleg og ólíkleg til að hafa áhrif.

    Posted by: Eva | 18.04.2009 | 18:16:23

    —————————————-

    Sæl Eva

    Og þakka þér fyrir svarið. Ertu ekki búin að fá að vita hvers vegna Elíasi var lógað? Það er einhver ástæða. Að sjálfsögðu á alltaf að gera svona hluti í fullu samræmi við alla í húsinu. Og mér þykir leiðinlegt að þú hafir ekki fengið að vera með í ráðum þar.

    En skaðinn er skeður og maður þarf því miður að taka því :(.

    Ég biðst afsökunar á þessu háði þarna um Austurvöll og spjöldin. Ekki illa meint en miðað við það sem maður hefur séð af þér þá gæti maður alveg eins átt von á þér fyrir fram alþingi að syrgja Elías.

    Eigðu góðan dag elskan mín!
    🙂

    Posted by: Tjásukall | 18.04.2009 | 21:40:48

Lokað er á athugasemdir.