Appelsínuhúð

Einhverju sinni kom upp umræða um appelsínuhúð í mínum vinahóp. Aðal spjátrungurinn, maður sem skipti áreiðanlega oftar um bólfélaga en nærbuxur, yppti öxlum og sagðist aldrei hafa verið með konu með appelsínuhúð. Ég gat engan veginn lagt trúnað á að jafn víðriðinn maður hefði aldrei þreifað á ófögnuði af þessu tagi en þegar ég gekk á hann kom í ljós að þegar hann talaði um appelsínuhúð, þá átti hann við mörköggla á stærð við vínber.

Nokkrum bjórum síðar fletti ein stúlknanna upp um sig pilsinu og hélt sýnikennslu í ástandsmati appelsínuhúðar. Okkar maður setti upp sauðssvip og sagði;
-Nú er þetta appelsínuhúð? Ég hélt að konur væru bara svona.
-Já, og finnst þér það ekkert ógeðslegt? sagði ég.
-Neeei, ég bara tek eiginlega ekkert eftir þessu, sagði hann kæruleysislega.

Svo teygði hann sig í eina rauðhærða.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

1 thought on “Appelsínuhúð

 1. ——————————-

  ég þakkaði alltaf mínu sæla í mörg ár að vera blessunarlega ekki með appelsínuhúð – þangað til að ég komst að því hvað appelsínuhúð er.
  Ég veit ekki hvað er að mér að liða ekki illa yfir þessu eða að finnast þetta ekki ljótt, ég þarf kannski að fara á námskeið hjá Vogue :/

  Posted by: Erna | 17.03.2009 | 16:27:59

  ——————————-

  kornungar stúlkur eru með appelsíunuhúð margar hverjar, og þá er ég ekki að tala um feitar stúlkur. held að fáar konur séu alveg lausar við appelsínuhúð. og hvað með það? þetta er nú skárra en að vera með viðbjóðslegt innræti.

  Posted by: baun | 17.03.2009 | 18:52:17

  ——————————-

  Ég fatta ekki alveg hvað er að gerast í þessari Sápu. Hvers vegna er verði að bera saman „appelsínuhúð“og „viðbjóðslegt innræti.“ Kanski er baunin með hvort tveggja. Ég hef séð svoleiðis baun.
  Og hvað er að gerast með persónu Evu í þessum framhaldsþætti? Er hún að sýna á sér nýjar hliðar eða bara að kalla á aðdáun áhorfenda, sem flestir eru miðaldra konur með húðvandamál. Veit það ekki en það er einhver gúrkulykt af þessu. Eva er þó með fallega húð á bakinu eftir Torgsstrýkinguna. Get ekki séð annað. Svo er hún líka með innræti. En það var komið fyrr.

  Posted by: kjh | 17.03.2009 | 21:35:23

  ——————————-

  Baunin er nú sennilega bara að draga fram tilbrigði við málsháttinn ‘oft er flagð undir fögru skinni’.

  Eva hefur ekki sýnt á sér neina nýja hlið í sápunni um nokkurt skeið, heldur verið frekar lítið virk, aðdáendum sínum til nokkurrar gremju. Stafar óvirknin helst af því að einkalíf Evu er óvenju veruleikakennt þessa dagana og býður ekki upp á sérlega skáldlegar útfærslur.

  Ég sé nú ekki alveg hvernig þessi færsla ætti að kalla á sérstaka aðdáun enda er það misskilningur hjá kjh að aðdáendur mínir séu flestir miðaldra konur með húðvandamál. Aðdáendur mínir eru flestir miðaldra karlar með risvandamál og myndirnar af mér á lokaða svæðinu mínu á facebook eru mun betur til þess fallnar að næra narkissu mína en gömul saga af stóðlífum vinnufélaga.

  Hýðingar bæta ekki áferð húðar en jafnvel þótt ég hafi þurft að sofa á magnum eina nótt er húð mín blessunarlega ennþá mun betri en innræti mitt, þrátt fyrir gnægð appelsínuhúðar.

  Posted by: Eva | 17.03.2009 | 23:18:28

  ——————————-

  Kæru konur …

  Spjátrungurinn víðriðni, vinur Evu, hefur rétt fyrir sér. Konur eru bara svona. Gervi-tísku-tímarita-mafían er búin að koma því inn í kollinn á okkur að við eigum að vera einhvernvegin öðruvísi en við erum. Helst eins og ungir, vöðvastæltir strákar með gloss og gerviaugnahár. Er það ekki dálítið öfugsnúið að við sjálfar gerum lítið úr okkur og hvorri annarri en lauslátir karlar sjái ljósið?

  Posted by: Sliban | 18.03.2009 | 11:00:48

  ——————————-

  „Spjátrungurinn víðriðni“ Þetta er alveg snilldarsetning :)og sem slík fallbeygjist á enn skemmtilegri hátt.
  Hér er „Víðriðin spjátrungur“
  Um „Viðriðin spjátrung“
  Frá „Viðriðnum spjátrungi“
  Til „Víðriðins spjátrungs“

  Posted by: Guðjón Viðar | 18.03.2009 | 21:14:28

  ——————————-

  Ég verð að taka undir orð spjátrungsins.

  Annars hefur mér aldrei verið sýnt hvað þessi margumrædda appelsínuhúð er og myndi ekki þekkja hana.

  Posted by: Elías Halldór | 23.03.2009 | 12:04:50

  ——————————-

  Ég held líka að ég hafi verið búinn að sofa eitthvað á annan tug kvenna þegar ég sá fyrst rakaða handarkrika og spurði viðkomandi stúlku í sakleysi mínu hvers vegna hún hefði gert þetta.

  Þetta var á þeim tíma þegar flestar stúlkur gengu í álafossúlpum og þáttaka í fegurðarsamkeppnum þótti ótvírætt merki um greindarskerðingu.

  Ég sakna þessa tíma.

  Posted by: Elías Halldór | 23.03.2009 | 16:54:49

Lokað er á athugasemdir.