Tilfallandi

Ég hef lúmskan grun um að tæki séu ekki eins heimsk og þau líta út fyrir að vera. Að stundum, við einhverjar aðstæður, geti þau tekið sjálfstæðar ákvarðanir eða gefið okkur skilaboð. Þessvegna getur það gert vinstra heilahvelið í mér snarbrjálað, þegar tæki bila eða hegða sér einkennilega og viðgerðamaðurinn, sem jafnan álítur að tæki séu steindauð og geri nákvæmlega ekkert annað en það sem það á að gera, skýrir óvænt hljóð, hökt eða aðvörunarljós sem ‘eitthvað tilfallandi’.

Hvern fjandann merkir ‘eitthvað tilfallandi? Að tækið hafi tekið upp á einhverjum andskotagangi sem engin rökrétt skýring finnst á, bara til að hrella mig? Það hlýtur þá að merkja að það sé ekki einungis með einhverskonar vitund, heldur líka persóleika, sem hefur skoðun á mér. Eða merkir það að tækið hafi raunverulega orðið fyrir bilun, sem lagist að sjálfu sér? Eins og hundur sem grær sára sinna yfir nótt? Það hlýtur þá að merkja að tækið hafi ónæmiskerfi og sé þar með í einhverjjum skilningi lifandi.

Nema það hafi beitt sjálft sig dna-heilun. Ég er ekki viss um að maður þurfi að vera vitsmunavera til þess.

Best er að deila með því að afrita slóðina