Fíbblamjólk

Heimurinn er að drukkna í kjaftæði og það er sko ekkert leyndarmál.

Ef þér dettur í alvöru í hug að það sé nóg að hugsa sér hlutina eins og þú vilt hafa þá til þess að allt verði fullkomið af sjálfu sér, skoðaðu þá kynóra þína síðustu 10 árin eða svo. Er kynlíf þitt í dag í einhverju samræmi við fantasíurnar sem þú hefur velt þér upp úr í hverri einustu viku frá því að þú varst táningur? Líklega ekki. Ef þú hefur ekki fengið draumadrátt tilveru þinnar ennþá, af hverju trúirðu því þá að þú getir orðið ríkur með því einu að hugsa um peninga?

Galdur er ekki fólginn í því að loka augunum og láta sig dreyma, heldur í því að virkja viljakraftinn. Og sá sem hefur ekki viljastyrk til þess að hætta einfaldlega að reykja, klippa kreditkortið og lifa á hrísgrjónum í mánuð, leggja vinnu í að læra eitthvað nýtt eða horfast í augu við eigin mistök, hann hefur heldur ekki þann viljastyrk sem eins og fyrir töfra kemur heppilegum tilviljunum af stað.

Skyndilausnir eru fyrir letihauga og heimskingja. Og þær virka ekki. Eina árangursríka leiðin til að virkja í sér viljakraftinn er að rífa sig upp af rassgatinu og gera eitthvað. Og það er ekkert leyndarmál.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Fíbblamjólk

Lokað er á athugasemdir.