Svæfð

-Ég ætla að koma þeim í bólið og svo kem ég strax upp, segir Pegasus. Ég reikna ekki með að það taki hann langan tíma að klappa Harley litla og kyssa Corvettu svo ég býð ekki góða nótt þótt ég sé svo þreytt að ég gæti sofnað á gólfi þessa risastóra dótakassa.

Dregst upp stigann og inn í dyngjuna. Svo uppgefin að ég orka varla að klifra upp í stóra rúmið hans Pegasusar, hvað þá að hreinsa farðann framan úr mér. Verkjar í liðina af þreytu. Samt var þetta ósköp rólegur dagur og klukkan bara rétt rúmlega 10. Ætli ég sé að veikjast?
-Veikjast! hnussar Birta. Þú hjalar við strákinn til 3 á næturnar, þrekæfingar á undan, eftir og milli blaðurtarna, vaknar svo upp úr 6 og furumflummast fram til kl 8. Jú, það er náttúrulega eitthvað að.
-Hrmpff… ókei, kannski er ég bara þreytt en ég er að reyna að vinna upp margra ára tanturvanrækslu og það tekur tíma.
-Þú þarft að vinna upp 50 vanrækta vatnsnema í fyrramálið góða svo farðu bara að sofa í hausinn á þér, í hvelli.
-Ég ætlaði nú að halda mér vakandi þar til hann kæmi upp. Lágmark að bjóða góða nótt þegar hann er ekkert nema elskulegheitin.

Samt er ég þegar hálfliðin inn í svefninn og verð hans ekki vör fyrr en hann stendur hjá mér og breiðir sængina ofan á mig.
-Æ, ertu SVONA þreytt? segir hann og röddin er næstum jafn sæt og þegar hann talar við börnin sín. Líklega er ég krúttleg. Varnarleysi þess sem er örmagna, sofandi eða veikur er alltaf eitthvað svo sætt. Vekur í manni verndarann. Í augnablikinu er ég svo mjúk að innan að ég er alveg til í að vera krúttleg.
-Á ég að svæfa þig, segja þér sögu fyrir svefninn eða eitthvað? bætir hann við í gælutón og strýkur hárið á mér ástúðlega frá andlitinu. Ég þarf ekki að opna augun til að vita hvernig hann er á svipinn.
-Mmmm. Eða syngja bíbí og blaka, muldra ég. Bið hann svo að strjúka á mér bakið. Hefði verið líklegri til að biðja hann að halda um kviðinn á mér en ég ligg á grúfu og er of þreytt til að velta mér.

-Mér finnst gott að láta svæfa mig. Mér líður eins og ég sé lítil stelpa,
segi ég og tími ekki að sofna þótt ég sé of uppgefin til að velta mér á bakið til að kyssa hann.
-Ég elska litlu stelpuna í þér. Eins og öll hin hundrað andlit Evu, allavega þau sem ég þegar hef séð,
segir hann.

Svo breiðir hann yfir mig aftur, hlúir að mér og kyssir mig á kinnina. Hann slekkur ljósið um leið og hann fer fram og áður en ég festi svefninn næ ég að hugsa sem svo að ég sé nú samt fegin að vera ekki lítil stelpa. Ég veit nefnilega að hann kemur til mín á eftir og sefur hjá mér í alla nótt, en ef ég væri lítil stelpa þyrfti ég sjálf að vakna, fara fram úr og brölta á milli rúma til að fá að vera hjá honum. Og ef ég ætla að rífa hann upp kl 6 í fyrramálið og heimta að hann skemmti mér áður en ég fer að vinna, veitir mér ekkert af hvíldinni.

Á endanum fær maður allt sem maður vill.
Lífið er gott.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina