Inn fyrir skelina

Maðurinn sem er með sprungu í skelinni kom í morgunkaffi.

-Má ég kalla þig pabba? sagði Andlit byltingarinnar þegar hann kom fram á nærbuxunum og slengdi hrömmunum utan um hann. Það er von. Við höfum reyndar ekki einu sinni prófað að kyssast en strákarnir eru ekkert vanir því að ég kynni þá fyrir þeim sem ég er skotin í fyrr en korter í sambúð.

Það er ekki af því að þeir séu neitt viðkvæmir fyrir því að ég eigi samneyti við karlmenn. Það er helst að Drengurinn sem fyllir æðar mínar af endorfíni hrökkvi í verndaragírinn ef mér finnst einhver heillandi en mínir strákar eru báðir svellkaldir. Sonur minn Byltingin hefur lengi alið með sér þann draum að eignast stjúpföður sem er yngri en hann sjálfur (það ku víst auðveldara að hafa pólitísk áhrif á ungt fólk) og sonur minn Sveitamaðurinn vill helst að ég giftist öllum sem hann hefur grunaða um að eiga laglegt verkfærasafn.

Að vísu lítur Maðurinn sem er með sprungu í skelinni ekki út fyrir að hafa nokkurtíma haldið á borvél, það er ekki hrossalykt af honum og hann er ekki með rassinn-upp-úr-buxunum-heilkennið. Ég átti því ekkert frekar von á því að hann félli í kramið hjá Sveitamanninum en hann á tvö gæludýr og það virðist duga til að halda honum inni. (Þeir hafa reyndar báðir töluverðar áhyggjur af því að hann kunni vera kapítalisti enda er maðurinn hvorki í götóttum sokkum né með sítt hár.) Nei, það er ekki þeim til verndar sem ég hef haldið farfuglum mínum utan við heimilið. Kannski frekar vegna þess að drengirnir í lífi mínu, postulísbrúðurnar og speglarnir, koma upp um þann hluta tilveru minnar sem nálgast það að vera eitthvað minna en skáldskapur.

Ég jólaði heimilið í morgun. Alveg hæfilega. Það tók svona 20 mínútur.
Mig langar að kyssa.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Inn fyrir skelina

  1. ————————–

    Kysstu stúlka – kysstu!

    Posted by: lindablinda | 10.12.2006 | 21:19:56

    ————————–

    Býtta á koss og knúsi?

    Posted by: Gillimann | 10.12.2006 | 23:32:34

Lokað er á athugasemdir.