Björgunaraðgerð

Ég fór út til að grafa holu og áttaði mig þá á því að ég þyrfti að grafa fleira en hræið af kettinum. T.d. áform sem kosta mig meira strit en ánægju. Þegar allt kemur til alls var tilgangurinn sá að gera ekkert sem ég vildi ekki og allt sem ég vildi og undanfarna mánuði hefur það klikkað oftar en ég er sátt við.

Svo nei bara, ég ætla ekki að bjóða upp á nein námskeið á næstunni. Ég ætla ekki að láta aðstæður sem ég réði ekki við sjálf, svipta mig því litla félagslífi sem ég lifi nú þegar. Ég ætla að fara í leikhús og magadans og nota trimformtækið mitt og tjasla í mína hroðalegu enskukunnáttu. Ég ætla að skrifa. Og svo ætla ég að skrifa. Ég ætla að borða með Önnu í hádeginu, fá hláturskast með Steinunni, bjóða Sigrúnu í mat, fara í kaffi til Ásdísar, hitta Hildi, Lóu, Álfrúnu og bara alla þessar nonlúservinkonur sem ég hef vanrækt. Ég ætla að dekurspilla drengjunum í lífi mínu. Ég ætla fá mér hreindýr og ég ætla stundum að fara snemma heim og elda kjötsúpu. Ég ætla að flytja í Vesturbæinn í vor, þótt það kosti það að ég þurfi að selja verðbréfin mín.

Ég hef satt að segja engar áhyggjur af því lengur að 3-4 fríkvöld í viku séu vísasta leiðin til glötunar. Ég hef alltaf bjargað mér og það mun ekkert breytast þótt ég afþakki einn ostbita. Sennilega verð ég bara færari um að framleiða meiri ost og fleiri tegundir ef bjarga gleðinni í mér.

Það er nefnilega svo að þeir sem ekki bera gæfu til að bjarga sér sjálfir, munu hvorki bjarga öðrum né verða bjargað. Allavega ekki til lengdar.
Guði sé lof að ég er trúleysingi.

Best er að deila með því að afrita slóðina