Sprungið

Eitt vont gerir margt gott.
Margt vont ætti þá að gera eitt frábært.

Húsnæðið er sprungið. Það er vont mál sem kemur til af góðu. Þótt þrengslin séu til vandræða hefur það stóra kosti að fá stóra hópa. Það er miklu hagkvæmara fyrir mig en að vera bundinn yfir 6 eða 7 hræðum öll kvöld vikunnar. Reyndar er skemmtilegra að fá litla hópa en þar sem Bragi er hlaupin í mig reikna ég hvort sem er með að skemmta mér betur með honum en í vinnunni á næstunni.

Það er fjandans púsluspil að fá 35 manna hóp en ég sé fram á að eiga fyrir öllum útgjöldum októbermánaðar eftir næsta laugardag og það verður að teljast hentugt. Að vísu þarf einmitt að hittast svo á að Lærlingurinn þarf að sinna rokkstjörnuhlutverki sínu og Sigrún verður væntanlega stödd í Tyrklandi (svo sem skrifað stóð í kaffibolla eigi alls fyrir löngu) þann daginn, svo það kemur í hlut sonar míns Villimannsins að aðstoða mig. Ég vil síður hóa í Spákonuna á laugardagskvöldi.

Best er að deila með því að afrita slóðina