Mammon í bollanum

Sigrún tyllti spágleraugunum á nefbroddinn og mundaði bollann.
-Hringur, sagði hún ákveðin.

Ég þráttaði. Þóttist sjá fullt tungl en ekki hring og taldi víst að þetta boðaði blæðingarugl, eina ferðina enn enda hef ég vanrækt að drekka Maríustakk.

Sigrún hélt fast við sinn keip og sá brúðkaup í þokkabót. Sem væri kannski ekki beinlínis fjarstæðukennt ef hann Elías þvældist ekki svona fyrir mér. Hver ástargaldurinn á fætur öðrum hefur farið út um þúfur því mannhelvítið virðist hafa sérstakt lag á að skjóta upp kollinum, einmitt þegar ég er í þann veginn að trúa því að til sé einn maður á jarðríki sem bæði henti mér og vilji eitthvað með mig hafa. (Ekki hefur viðfang giftingaróra minna ennþá svarað hinni stórfenglegu bónorðssonnettu sem ég orti honum um árið en það er samdóma álit vinkvenna minna að til séu menn sem taki honum fram að andlegu atgervi og hentugheitum og ég hneigist til að taka mark á fjöldanum).

-Jæja ég vona að sjarmörinn skili sér hraðar en allir peningarnir sem þú hefur séð í bollunum mínum á síðustu árum, sagði ég og spákonan greip andann á lofti.
-Heldurðu að sé ekki stór peningur hér, sagði hún og sýndi mér blett sem ég gat ekki betur séð en að væri hringur, eða í besta falli kexkaka.
-Og sjáðu svo hér, þetta er altari og manneskja á hnjánum. Þetta er þú góða mín. Þetta ert þú að biðja til Mammons.

Það er reyndar langt frá því að vera eins fjarstæðukennt og daginn eftir hringi ég í Uppfinningamanninn. Léttir að fá að vita að bókhaldið sé bara alls ekkert á leiðinni heim til sín eftir allt saman. Ekki nóg með það heldur stefnir júlí í það að verða álíka góður við oss galdramangara og desember.

Mikið kann ég vel við hann Mammon minn.

Best er að deila með því að afrita slóðina