Ætli ég þurfi að yfirstíga tepruskapinn? 2. hl.

-Það má hann bróðir þinn þó eiga að það hefur aldrei verið neitt kvennaflangs á honum. Sagði móðir mín Dramgerður. Hann hefur svosem átt kærustur en hann er allavega ekki sofandi hjá þessari í dag og hinni á morgun.
Ég fann sjálfa mig hnykla brúnir.
-Heldurðu að hann segði þér frá því ef hann stæði í einhverju stóðlífi?
-Maður hefði heyrt af því ef svo væri, svaraði hún og virtist enginn efi í hennar hjarta.

Auðvitað hefði hún heyrt af því. Í heimi þar sem menn segja vinnufélögum sínum að þeir gangi með túrtappa í rassgatinu er ekkert eðlilegra en að djammfélagar Mafíunnar hafi reglulega samband við móður okkar og lesi fyrir hana úr afrekaskrá helgarinnar. Samt maldaði ég í móinn.

-Mamma, hver heldurðu að segði þér frá því ef hann Beggi væri riðlandi úti um allt?
-Hún systir þín myndi nú láta mig vita, sagði móðir mín Dramgerður og ég reyndi ekki að ræða þetta frekar heldur sökkti mér aftur í Trainspotting og sagði já og nei á réttum stöðum.

Ég sé að mig skortir alveg hæfileika móður minnar til að vekja trúnað fólks. Aldrei hefur nokkur maður sagt mér að hann gangi með bleiu og daginn sem annar strákanna minna segir mér sögur af bólförum bróður síns er viðbúið að ég reyni að snúa talinu að einhverju öðru.

Best er að deila með því að afrita slóðina