Gerði það sjálfur

Matarboð hjá Mr. Tallyman og frú. Þau eiga krúttlegt heimili í Hafnarfirði.
-Æðislegt rúm, má ég leggja mig hérna? andvarpaði ég
-Hann smíðaði það sjálfur.
-Kommon, ert´ekki að grínast.
-Nei, ég var einu sinni járnsmiður.

-Sniðugir fataskápar.
-Hannaði þá sjálfur, og smíðaði.
-Vá flott barnarúm!
-Breytti gömlu ikearúmi.
-En brúðuhúsið?
-Smíðaði það líka, gerðist kannski full stórtækur…
-Klikkaður pallur.
-Smíðaði hann í vetur.</em>

Tallyman vinnur svo hratt að það er ekki hægt að láta hann mála, segir frúin. Gerir það ekki nógu vel svo frúin vinnur á morgnana, kvöldin og næturnar og málar á daginn. Ekki skrýtið að rúmið þeirra sé vel um búið, það er sennilega aldrei sofið í því. Líklega leggja þau sig í 10 mínútur í einhverju horninu, hann með hjólsögina í fanginu, hún með málningarrúllu.

Dauðlangar að breyta íbúðinni minni. Eftir að heimasætan flutti inn sef ég í stofunni og mig langar í lítið afmarkað rými svo ég geti farið í rúmið þegar mér hentar án þess að krakkarnir þurfi að klofa yfir mig. Ég hef ekkert látið það angra mig af því að íbúðin er þannig hönnuð að maður sér ekki í fljótu bragði neina leið til að búa til aukaherbergi. Þess utan leyfir bankareikningurinn ekki launagreiðslur handa stórum flokki iðnaðarmanna. Ég hef þessvegna ekkert verið að ergja mig á því hversu langt sé það til allt er orðið fullkomið, bara hugsað um það sem virðist raunhæft svo í gær langaði mig bara að mála og fá gluggatjöld fyrir stofuna. En þegar maður sér svona framkvæmdagleði fer maður að trúa því að ekkert sé útilokað. Ætli Tallyman eigi ekki bróður á lausu?

Svo aftur hin hliðin; það er hægt að fá allt sem maður vill, með því að gera aldrei neitt nema vinna.

And it seems such a waste of time
if that´s what it´s all about

sagði Billy Joel. Meðan ég bjó með húsasmiðnum fannst mér það stundum líka. En munurinn er sá að hann er nestler og dömpaði mér áður en við náðum að ljúka nokkru. Ég held að það sé kannski öðruvísi þegar fólk nær því að sjá árangur erfiðisins.

Best er að deila með því að afrita slóðina