Afturbati?

-Hvernig stafsetur maður Krókháls? spurði Haffi og stakk pennanum í annað munnvikið.

Andartak hélt ég að hann væri að reyna að vera fyndinn en ráðaleysið í svipnum var ekta og hann ER skelfilegur í stafsetningu.
-Eins og það er sagt. Með stóru kái… sagði ég án þess að gera mér almennilega grein fyrir því hverju hann væri að fiska eftir.
-Það er ekki með effi?
-Effi???
-Já, á þetta nokkuð að vera svona? sagði hann og rétti mér blaðið, þar sem stóð með snoturri rithönd; Krókhálfs.

Um 30 mínútum síðar gerði líkami minn uppreisn og þótt ég hefði gefið gult ljós á að vera hjá honum um nóttina, fékk ég líkamlega afsökun fyrir að fara heim.

Ég er drifter, það er meðvituð stefna. Kannski ekki sérstaklega smart stefna en hentar mér ágætlega. Eða gerði það allavega þar til mér varð ljóst að það er ekkert líkamlegt að mér, heldur hefur líkami minn, algerlega án samráðs við mig sjálfa, tekið upp á því að hafna hentugasta bólfélaga sem ég hef eignast; manni sem er nógu mikill bjáni til þess að sé útilokað að ég eigi nokkurntíma eftir að hafa gagn af honum en á hinn bóginn of fallegur og vel lyktandi til þess að maður setji það fyrir sig.

Annars held ég að ég sé að verða ónæm fyrir hinu heimskara kyni. Í dag sat ég með vinkonu minni á kaffihúsi og rifjaði upp bólfarir mínar síðasta árið. Fannst lítið til koma og þóttist geta talið á fingrum mér hve oft ég hefði komist í líkamlegt tæri við fábjána á þessum mánuðum sem eru liðnir frá uppákomunni í Ólafsbúð. Áttaði mig á því á leiðinni heim að ég hafði hreinlega gleymt Rikka. Hann kann samt ágætlega á græjurnar greyskinnið og fingur og tær duga ekki til að bókfæra afrek hans svo líklega segir þessi gleymska meira um mig en hann.

Reyndar er fleira sem styður þá kenningu að ég sé að verða ónæm. Þegar ég kom heim tók ég mig til og ryksaug stofuna. Var eitthvað að flýta mér að færa til hluti og missti í ógáti hálsmen sem lá á borðinu niður á gólf og ryksugan gleypti það.

Þetta er ódýrt draslmen en ég hef alltaf haldið upp á það, bæði af því að það er svolítið sérstakt útlits (glerskífa sem hangir inni í málmtígli) en meira af því að ég var svo ástfangin af þeim sem gaf mér það að ástand mitt gekk geðbilun næst. Ég tengist hlutum sjaldan tilfinningalega en í mörg ár þótti mér beinlínis vænt um þetta hálsmen og notaði helst enga aðra skartgripi. Fyrir 5 árum hefði það orðið mér slíkt áfall að missa þennan ómerkilega grip að ég hefði ekki hikað við að kafa niður í holræsi til að endurheimta hann. Það er reyndar rökrétt þar sem segja má að ég hafi vaðið skít í tilraunum mínum til að endurheimta hið tilfinngalega grunnildi sjálft. Svo í dag, þegar ég missti menið í kjaft ryksugunnar, var alveg á mörkunum að ég nennti að opna hana og þyrla upp ryki til að sækja það aftur. Druslaðist til þess samt enda er þetta ósköp fallegur gripur þótt hann sé verðlaus og það er þægilegt að eiga einn slíkan. Allavega á meðan maður hefur ekki líkamlegt ofnæmi fyrir honum.

Best er að deila með því að afrita slóðina