Maðurinn sem vildi að dóttir sín yrði Íslandsmeistari

Einu sinni fyrir mörgum árum var ég næstum búin að eignast kunningja sem hét Indriði (hann hét reyndar ekki Indriði en það nafn lýsir honum miklu betur en hans eigið nafn svo ég nota það bara). Indriði var frekar klikkaður eins og flestir sem ég kynntist á þessum tíma bara ponkulítið of galinn til að ég vildi gera hann að almennilegum kunningja. Fyrstu kynni okkar voru þau að hann bankaði upp á heima hjá mér (í lítilli leiguíbúð á svæði 108) rétt eftir kvöldfréttir, kynnti sig sem bróður húseigandans og spurði hvort hann mætti skreppa sem snöggvast upp á háaloft og sækja skíðaskóna sína. Það var ekki annað en sjálfsagt.

Þegar Indriði kom niður af háaloftinu klóraði hann sér í skeggrótinni og sagði eitthvað fyndið sem ég man ekki lengur. Ég svaraði með einhverju fyndnu og við fórum svona að spjalla saman.

Ég bauð honum kaffi fyrst við vorum farin að spjalla saman og af því að ég var að drekka kaffi sjálf og fannst það einhvernveginn eðlilegt. Indriði klóraði sér og fór að segja mér frá dvöl sinni í Finnlandi og það var nokkuð áhugaverð frásögn svo við töluðum saman heillengi. Eftir 10-12 mínútur fannst mér samtalið orðið hæfilega langt en ekkert fararsnið sást á Indriða. Hann bara sat áfram og klóraði sér og talaði og talaði þótt klukkan væri orðin 11 og ég væri búin að nefna að ég þyrfi að mæta í skólann kl. 8 næsta morgun. Hann sagði mér m.a. frá dóttur sinni á 6. ári. Hún var að læra ballett og hann sagði mér að hún ætti eftir að verða Íslandsmeistari. Ég spurði hvernig hann gæti verið svona viss um það og hann svaraði því til að þar sem HANN væri ákveðinn í því, þá hlyti það að gerast, maður fengi nefnilega allt sem maður vildi. Maður yrði bara að vera nógu ákveðinn.

Kl. 11:50 var ég hætt að taka virkan þátt í „sam“ræðunni, brosti bara fremur stirðlega og kinkaði kolli. (Heimskulegt, vissulega en þetta var á þeim árum sem ennþá eimdi eftir af kurteisinni sem móðir mín kenndi mér í bernsku) Um miðnætti var ég farin að geispa og segja jæja með semingi en það var ekki fyrr en kl. 12:45 sem ég stóð upp og þakkaði fyrir komuna, jafnvel þótt hann hefði ekki sýnt þess nein merki að hann ætlaði að hreyfa sig úr sófanum. Hann fór en spurði í dyrunum hvort við ættum ekki að hittast á morgun. Ég varð hálf hvumsa og sagðist ekki gera ráð fyrir að verða heima.

Næsta dag þegar ég kom úr skólanum stóð hann fyrir utan. Mér varð ekki um sel en róaðist ögn þegar hann sagði mér að hann byggi tímabundið í stúdeóíbúð systur sinnar í bílskúrnum. Mér fannst samt eitthvað óþægilegt við það þegar hann kom yfir nokkrum mínútum síðar, klórandi sér, og færði mér kassa af einhverju ægilega fínu súkkulaði með appelsínulíkjör. Á þeim tíma var ég hálfgerður bjáni og fannst ég ekki eiga annan kost í stöðunni en að bjóða honum inn. Laug því samt að honum að ég væri að fara til vinkonu minnar að vinna ritgerð með henni. Við urðum samferða út 10 míútum síðar og ég fór til Álfrúnar þótt ég ætti ekkert erindi þangað, fór svo og vann á Háskólabókasafninu þar til húsið lokaði þótt hefði hentað mér betur að vinna heima.

Þetta var náttúrulega út í hött. Maðurinn bjó í bílskúrnum á húsinu mínu og ég gat ekki sætt mig við að velja á milli þess að hafa hann inni á gafli fram á nótt, klórandi sér í skegginu og malandi út í eitt, eða flýja mitt eigið heimili. Auk þess var ég með tvö smábörn og ekki gat ég tekið þau með mér á bókasafnið þegar þau voru ekki hjá pabba sínum.

Þegar Indriði bankaði upp á hjá mér þriðja daginn í röð og bauð mér í bíó, notaði ég strákana ekki sem afsökun heldur sagði honum hreint út að ég kærði mig ekki um að stofna til nánari kynna. Hann horfði á mig agndofa eins og ég hefði svikið hann í tryggðum. Klóraði sér í skegginu og stikaði svo stórum skrefum yfir í bílskúrinn.

Hann gerði ekki frekari tilraunir til að ná tali af mér en ég er samt næstum viss um að hann var (er kannski ennþá) rúmlega bilaður á geðinu. Ekki af því að hann hékk svona lengi yfir konu sem hann þekkti ekki neitt, heldur af því að hann var búinn að setja smábarni það markmið að vinna afrek. Mér finnst það bara eitthvað svo óhugnanlegt þegar fólk reynir að taka slíkar ákvarðanir um framtíð barnanna sinna. Ég held líka að þótt sumum kunni að henta að setja sér óraunhæf markmið, þá sé einfaldlega út í hött að setja markmið sem aðrir eiga að uppfylla.

Indriði var svosem ekkert óskemmtilegur maður en hann var veruleikafirrtur. Ég sá það ekki fyrr en eftir á að ég hefði átt að hleypa honum inn oftar og nýta þetta einstæða tækifæri til að læra meira um hugarheim þeirra veruleikafirrtu. Ekki svo að skilja að nokkur skortur hafi verið á vitfirringum í lífi mínu síðan, en þessi var svona dálítið spes týpa. Ponkulítið meira uppi á háalofti en flestir aðrir.

Best er að deila með því að afrita slóðina