Spádómur

Í gær fann ég gamla dagbók frá sokkabandsárunum. Hér á eftir fer kafli sem ég skrifaði í mars 1994.

Ég á ægilega bágt í egóinu mínu þessa dagana. Er um það bil að útskrifast og mátulega búin að missa áhugann á fræðimennsku. Á leiðinni til Bretaveldis í meira nám sem ég á áreiðanlega aldrei eftir að nýta í praxis. Það er að renna upp fyrir mér að þótt mér finnist ofstopa gaman að vera í skóla, er ekki þar með sagt að ég geti hugsað mér að vinna við bókmenntarannsóknir.

 

Ég get semsagt ekki byggt egóið mitt á þeirri hugmynd að ég sé kona með framtíð. Takmarkað áfengisþol mitt eyðileggur svo aftur möguleika mína á því að verða kona með fortíð og herregud ekki er nútíðin svo spennandi að ég nenni henni mikið lengur.

Spái því þó að eftir 10 ár verði ég enn í sömu sporum; enn ekki orðin kona með framtíð, hvað þá fortíð, búandi í pínulítið stærri íbúð í þessu sama ömurlega Breiðholti, búin að lenda í einni misheppnaðri sambúð með einum misheppnuðum aumingja og í einhverri rosalega venjulegri vinnu, kennslu eða einhverju svoleiðis og ennþá að skrifa í skúffuna. Mér hrís hugur við þessu öllusaman.

Nú sé ég loksins hvar hæfileikar mínir liggja. Loksins sé ég sjálfa mig sem konu með framtíð. Ég ætla að verða spákona þegar ég er orðin stór. Til öryggis ætla ég samt líka að tryggja að ég verði kona með fortíð. Það ætti að vera einfalt, skrifa bara einhverjar lygasögur um sjálfa mig á bloggið. Ég ætla að verða mýta þegar ég er orðin stór.

Best er að deila með því að afrita slóðina