Morgundrama

Ástmögur minn kom ekki til dyranna eins og hann var klæddur þegar ég bankaði upp á kl 8:20 í morgun. Enda er hann prúðmenni og óvíst að viðkvæmar sálir á leið til vinnu hefðu tekið því með æðruleysi að þurfa að berja karlmennsku hans augum á stigaganginum svo árla morguns. Hann á ekki slopp og kom því fram þokkalega úfinn með handklæðisbleðil fyrir sínu allra helgasta.

-Þú varst semsagt ekki á vakt í nótt? sagði ég.
Engu að síður fékk ég inngöngu og hann lagaði kaffi á typpinu. Mér fannst það fallegt. Ég hef aldrei séð hann nývaknaðan fyrr og vissi ekki að hann sprangaði nakinn um íbúðina.

-Ég las bloggið þitt, sagði hann þegar kaffið var tilbúið.
-Jæja.
-Þú lýsir mér ekki sem sérlega heillandi karakter.
-Þú skalt ekki vera leiður yfir því, mér finnst enginn karlmaður heillandi nema hann sé bæði drullusokkur og aumingi og auk þess er ég svo galin að það tekur enginn heilvita maður mark á þessu bulli.
-Þetta fékk mig samt til að hugsa helling. Af hverju við erum eiginlega að hittast og allt það.
-Af því að við erum bæði einmana og það er skrárra að vera einmana saman.
-Já en af hverju VIÐ? Það er ekki eins og ég gæti ekki fengið að ríða annarsstaðar og þú værir ekki í vandræðum með það heldur.
-Ég kem hingað af því að ég þekki engan annan sem er til taks um áttaleytið á morgnana og þú veist vel hversvega þú tekur á móti mér.
-Líklega af því að geirvörturnar á þér eru eins og blýantsstorkleður og mér finnst það sætt.
-Það er ekki verri skýring en hver önnur.
-Í alvöru, ég veit ekki einu sinni hvað ég er að pæla.
-Ég er með kenningu.
-Nú?
-Þú ert gullfallegur strákur og enginn rugluhali. Stelpur verða hrifnar af þér. En þar sem þú hefur tilfinningagreind á við öskubakka, ertu með þungan klafa af brostnum hjörtum á samviskunni. Þú veist að það er engin hætta á að þú farir illa með mig. Þú þarft ekki að segja eitthvað sætt við mig eða hringja í mig eða sleppa því að ríða einhverri annarri. Þú þarft ekki einu sinni að hafa fyrir því að hóa í mig því ég kem bara sjálf. Eina krafan sem ég geri er sú að við notum smokk og þér finnst þetta svo bara drulluþægilegt fyrirkomulag að þú reynir ekki einu sinni að bera hönd fyrir  höfuð þér þegar ég er tíkarleg við þig.

Hann horfði á mig þegjandi dálitla stund, fór inn og kom fram í fötum.

-Þetta hljómar satt að segja alls ekki eins og það sért bara þú sem ert tíkarleg við mig.
-Þetta er bara kenning elskan og ég er ekki að kvarta. Ég er alveg sátt við þetta eins og það er.

-Ertu ástfangin þessum Haffa?
-Nei. Mér fannst bara gott að vera með honum. Langar stundum að hitta hann.
-Og þarf ég að hringja í hann sjálfan eða ætlar þú segja mér hvað það er sem hann gerir sem er svona gott?
-Hann talar við mig.
-Nú, ég hélt að þið ættuð ekkert sameiginlegt. Hann virðist ekki alveg vera þessi týpa sem heldur uppi löngum samræðum um menningu og listir.
-Hefurðu einhverntíma heyrt mig halda uppi löngum samræðum um menningu og listir?
-Er það ekki þitt áhugamál?
-Fólk getur nú kannski talað um eitthvað annað en áhugamál sín.
-Hvern andskotann talið þið þá um?
-Bara. Hann segir mér frá börnunum sínum og vinnunni og konunni sem hann elskar.

Hann hleypti brúnum og nuddaði svo augun þreytulega. Hló smávegis og nuddaði augun aftur.
-Babe you are single for a reason. Ertu að reyna að segja mér að þér finnist gott að vera með manni sem drekkur sig fullan og talar um „konuna sem hann elskar“ á meðan hann ríður þér?
-Já. Ég myndi kannski ekki fíla það ef ég væri ástfangin af honum en ég er það heldur ekki. Þetta er bara spurning um að vera í smá kontakt.
-Hann skilur þig líklega betur en ég.
-Nei, hann skilur mig ekki rassgat en það er allt í lagi, það er bara einkenni á tegundinni. Maður þarf ekki alltaf að skilja allt. Hann hlustar á mig og talar við mig. Það er ekkert gáfulegt og ekkert til að byggja á en maður er allavega ekki einmana á meðan.
-En þú ert einmana með mér?
-Já. Þú líka.

-Við höfum aldrei talað svona saman áður, sagði hann eftir nokkuð langa þögn.
-Nei.
-Ætlaðrðu að setja þetta samtal á þessa fjandans netsíðu?
-Það þykir mér líklegt. Þetta er áhugaverðasta samtal sem ég hef átt við þig.
-Ég er ekkert hrifinn af því að þú segir frá mér á blogginu, þótt þú breytir nafninu.
-Þú verður ekki spurður elskan. Það segir mér enginn hvað ég má skrifa og hvort eða hvar ég birti það.
-Les Haffi bloggið þitt?
-Nei en ef hann gerði það myndi hann ekki kippa sér upp við það.
-Og þessi myrkahöfðingi eða leigusál eða hvað þú kallar hann, hvernig finnst honum að vera orðin sögupersóna á netinu?
-Það veit ég ekki. En ég skal spyrja hann og birta svarið á netinu.
-Hvað var það annars? Þessi sálnakaupaleikur?
-Mig langaði bara að tala við einhvern.
-Og þið láguð í myrkrinu og töluðuð um dauðann? Djöfull hefur það verið háfleygt.
-Nei, ekki dauðann, reyndar ekkert sérlega háfleygt ef ég man rétt og við lágum nú ekki. Við sátum bara og töluðum saman.
-Um sundurkramin hjörtu og brostna drauma og stöff?
-Reyndar var það nú ekki svo dramatískt en annars ræður eðlilegt fólk við smávegis drama ef svo ber undir.
-Eðlilegt fólk, eða eðlilegt fólk eins og það sem þú þekkir?

Og þá varð ég bara hreinlega kjaftstopp.

Best er að deila með því að afrita slóðina