Klám og sori

Staffið í vinnunni hefur víst lesið bloggið mitt og krefst nú staðfestinga á því hver hann sé, þessi sem ég kalla Bruggarann. Engin önnur persóna vekur minnstu forvitni enda virðast menn hafa tekið eina línu úr einum texta og dregið af henni þá ályktun að ég sé almennt haldin brennandi girndarlosta í garð Bruggarans. Hið rétta er náttúrulega að á einu örskotsaugnabliki hvarflaði að mér sú hvatvíslega hugmynd að maðurinn hlyti að vera gáfaður fyrst hann réði krossgátur. Líklega mætti flokka þetta sem gáfnablæti. (Enda ætla ég að giftast doktornum um leið og hann lætur af þeirri þráhyggju sinni að vilja mig ekki).

Hér með upplýsist sumsé; það er nákvæmlega ekkert persónulegt við losta minn í garð Bruggarans, það var bara krossgátuáhugi hans sem eitt ponkulítið andartak kveikti í mér. Þessa dagana er ég reyndar svo aðframkomin af karlmannsleysi að jafnvel Quasimodo gæti komið mér til og Bruggarinn er þó a.m.k. sætur.

Hótelstjórinn heldur því fram að bloggið mitt sé fullt af klámi og sora. Well you ain´t seen notthing yet. Bíddu bara þar til blogger býður upp á þann valkost að læsa tilteknum síðum fyrir börnum, unglingum og móður minni, þá verður sko klæmst svo um munar.

Best er að deila með því að afrita slóðina