Naglar

-Hvað vildi hún núna? sagði ég. Hann dró mig til sín og faðmaði mig að sér.
-Hvaða tónn var þetta? Þú ert þó ekki afbrýðisöm?
-Nei, ætti ég að vera það?
-Nei auðvitað ekki en þú virðist nú vera eitthvað ósátt.
-Ég spurði bara hvað hún vildi, hún hringdi í gær líka. Það hlýtur að vera eitthvað mikilvægt ef hún hringir dag eftir dag, varla var hún bara spjalla.
-Hana vantar parketnagla, sagði hann.
-Nú jæja og fást þeir ekki í Húsasmiðjunni?

-Hvaða hundur er eiginlega í þér?
-Það er enginn hundur í mér, mér finnst bara skrýtið að hún skuli hringja í þig til að leita að nöglum sem fást í hverri einustu byggingavörubúð.
-Hún hringir í mig þegar hana vantar einhverja smáaðstoð, það er ekkert merkilegra en það, öll fjölskyldan heldur sambandi við hana. Þú þarft ekkert að vera afbrýðisöm.
-Ég er það ekkert, spurði bara hvað hún vildi. Ég er ekkert að biðja þig að hætta að tala við hana, held bara að hana vanti annarskonar nagla.

Hann hló.
-Heldurðu virkilega að ég hafi áhuga á henni?
-Nei en hún hefur áhuga á þér. Annars er mér skítsama, ef þig langar að negla smávegis í hana þá máttu það mín vegna, þú mátt bara ekki fara frá mér. Hann strauk á mér hárið og brosti.
-Takk fyrir boðið en mig langar reyndar ekkert að „negla í hana“. Og svo ertu víst afbrýðisöm.

Þegar hún hringdi aftur 2 klst. síðar var hann ekki heima. Ég velti fyrir mér hvort ég ætti að hreyta í hana ónotum en ákvað að láta það ógert. Kona sem getur ekki náð sér í parketnagla af eigin rammleik hefur áreiðanlega engan skapstyrk til að svara fyrir sig og ég ræðst ekki á minni máttar. Auk þess er ég hvort sem er ekkert afbrýðisöm.

Best er að deila með því að afrita slóðina