Skjálfti

-Þetta þarna um daginn, þegar þú varðst svona undirfurðuleg; af hverju sagðirðu mér ekki bara hvað þú varst að hugsa? Þú ættir að vita að þú getur komið hreint fram við mig.
-Þú hefðir ekki neitað og það hefði endað í rúminu.
-Nei, það hefði ekki gerst. Ég elska þessa konu og ég ætla vera henni trúr, það er bara ákvörðun, prinsipp. En mér þykir vænt um þig og þú átt alveg að geta talað við mig, beðið um það sem þú þarft. Ég get alveg verið góður við þig án þess að það fari út í einhverja vitleysu. Ég hefði ekkert látið það ganga lengra.

(Ekki þú kannski, en ég hefði látið það gerast, í því ástandi sem ég var,) hugsaði ég en orðaði það ekki þannig.
-Maður á ekki að leika sér að eldi, sagði ég bara og auðvitað mótmælti hann því ekki því hann er ekki hálfviti. En samt efaðist hann. Af því að hann er enginn hálfviti.

-Þú áttir samt að segja mér hvað þú varst að hugsa. Það er ekkert þægilegt að lesa um eitthvað peysupukur á netinu.
-Hver sagði að lífið ætti að vera þægilegt? sagði ég. Hann virtist ekki alveg kaupa þau rök en mótmælti samt ekki beint.
-Ég vil ekki að þú hverfir úr lífi mínu, bara af því að ég get ekki lengur sofið hjá þér, sagði hann.
-Þú ert ekki svona vitlaus. Sýnist þér ég vera að fara eitthvert, nýkomin á kafi í verulega áhugavert verkefni með þér?
-Ég veit aldrei almennilega hvar ég hef þig, sagði hann og ég mótmælti því, spurði hvort hann þekkti nokkra manneskju í alheiminum sem væri jafn heiðarleg og ég, og hann sagði nei en vissi samt ekki alveg hvar hann hafði mig.

Fyrir langalöngu kom hann til mín af því að hann þarfnaðist vinar og ég var til staðar og þarfnaðist einskis nema bólfélaga. Seinna vorum við einfaldlega tvær manneskjur sem af tvennu ömurlegu fannst skömminni skárra að líða illa saman og lifðum því einhverskonar samþætti af sníkjulífi og sambýli, kannski mætti kalla það „gagnkvæmt sníkjulíf“. En í þetta sinn fann ég að hann þarfnaðist mín á annan hátt en áður. Vissi að hann var ekki að bjóða fram vináttu sína af því að ég ætti það inni hjá honum eða eitthvað í þá veruna, heldur af því að hann langaði í alvöru að vera góður við mig.

Og þegar ég stóð í forstofunni hjá honum, brynjuð þykkri, víðri rúllukragapeysu og úlpu, opnaði ég faðminn og hann þrýsti mér að sér, að nokkru leyti til að sanna það fyrir mér að hann gæti snert mig án þess að láta það ganga lengra en samt aðallega af því að ég þarfnaðist þess. Þegar tennurnar í mér byrjuðu að glamra beit ég á jaxlinn en skjálftinn fór í axlirnar og niður í hné og það er erfitt að leyna slíku fyrir þeim sem heldur utan um mann. Og óþarft.

[custom-related-posts title=“Tengt efni“ order_by=“title“ order=“ASC“ none_text=“None found“]

Best er að deila með því að afrita slóðina