Púsl

Kvikmyndakvöld hjá Kela. Ég fell jafn illa í þann hóp og alla aðra.

Er hætt þessu Háskólabrölti. Ég ætlaði hvort sem er aldrei að taka prófin, Fór þangað fyrst og fremst til að leita mér að félagsskap við hæfi en annaðhvort er Árnagarður á annarri bylgjulengd núna en fyrir 10 árum eða ég sjálf, sem er nú kannski líklegra.

Ég ásaka engan, ekki sjálfa mig heldur, en ég er orðið hundleið á því að vera alltaf eins og púsla sem hefur lent í röngum kassa og hringlar þar laus, löngu eftir að allir hinir bútarnir eru komnir á réttan stað, eða vita amk nokkurnveginn hvaða hluta myndarinnar þeir tilheyra. Það er svo tilgangslaust að reyna að troða bútnum í far þegar maður veit að hann er úr allt öðru púsluspili og ennþá tilgangslausara að reyna að breyta honum svo hann falli í farið. Litirnir á honum falla hvort sem er ekki að heildarmyndinni, jafnvel þótt væri hægt að slípa formið til.

Ég sakna Kela. Ég hitti hann oft. Oftar en nokkurn annan, að systur minni Anorexíu undanskilinni. En ég get ekki lengur talað um allt við hann og hann er lentur í einhverri allt annarri púslu. Eða er það ég? Það skiptir ekki öllu máli. Vinir koma og fara en maður situr víst upp með sjálfan sig.

Best er að deila með því að afrita slóðina