Blautur draumur

Mig dreymdi í nótt.

Ég man drauma mjög sjaldan enda er yfirleitt lítið samhengi í draumum mínum. Oftast eru þeir bara einhver óreiðukennd sýra en hvort það á að tákna sálarástand mitt eða kassann með heimilisbókhaldinu veit ég ekki. Það furðulega er að mig dreymdi manninn sem mig langar svo til að giftast en hann kom líka við sögu í síðasta heillega draumi sem ég man eftir. Hvað sem það á nú að tákna.

Í þessum draumi var ég stödd í herberginu hans. Við sátum saman á risastóru rúmi, fallega umbúnu og ég hugsaði með mér að sennilega byggi hann enn í móðurhúsum því einhleypir karlmenn búa ekki svona snyrtilega um rúm. Hann var að sýna mér einhvern texta sem hann hafði skrifað og þessvegna vissi ég að þetta var draumur. Hann er nefnilega fræðimaður og myndi ekki spyrja skúffuskáld álits á því sem hann skrifar.

Ég hugsaði, herregud ég sit á rúminu hans, þetta ætlar þó ekki að verða blautur draumur? og fannst það hálf óþægileg tilhugsun. Hann er nefnilega einhvernveginn svo ósnertanlegur og það er svo skrýtið að þótt mig dreymi þennan mann oftar en aðra, hafa þeir draumar aldrei verið kynferðislegir. Nema einu sinni fyrir 10-11 árum en þá var ég ekki með í fjörinu, gekk bara óvænt inn á hann með einhverju glæsikvendi sem sat klofvega ofan á honum alklæddum, sjálf í rauðum kjól en gekk greinilega eitt til og ég varð mjög hissa í draumnum og hrökklaðist út aftur. Dreymdi hann svo ekki aftur fyrr en 8 árum síðar.

En jæja, þetta var útúrdúr. Við semsagt sátum á rúminu og ég velti því fyrir mér hvort þetta yrði blautur draumur og fannst svosem allt í lagi að láta á það reyna þótt það væri skrýtin tilhugsun. Ég vissi að hann tæki ekki frumkvæðið en vildi heldur ekki vera svo frek að snerta hann að fyrra bragði. Ég ákvað að leggjast á magann og halda áfram að lesa textann þannig. Af því að það er erfitt að vera hræddur við einhvern sem liggur á grúfu, skilurðu. Hann lagðist samt ekki hjá mér og snerti mig ekki eða neitt.

-Við, heima hjá okkur sofum ekki hjá ókunnugum konum, sagði hann drungalega og það var staðreyndayfirlýsing, rétt eins og þegar ég segi að það séu ekki örlög mín að lenda í vanskilum.
-Nú, er einhver að reyna að táldraga þig? sagði ég í undrunartón og leit upp úr handritinu, (ég man ekkert um hvað textinn snerist)
-Er ekki langtímamarkmið þitt að giftast mér? sagði hann, alls ekki kuldalega,
bara eins og hann væri ekki alveg viss.
-Jú, sagði ég, en ég telst varla ókunnug og veit heldur ekki til þess að ég hafi beitt þig kynferðislegri áreitni. Maður þarf ekki endilega að sofa hjá öllum sem maður giftist.
-Af hverju viltu endilega giftast mér?
-Af því að ég veit að þú verður góður við konuna þína.

-Langar þig þá ekkert að sofa hjá mér?
-Ég hef sofið hjá leiðinlegri mönnum en þér, sagði ég og fannst þetta mjög snjallt og tvírætt svar.
-Ég hef líka kynnst leiðinlegri konum en þér en málið er bara að ég elska þig ekki rassgat, sagði hann.
-Það er allt í lagi, þú þarf ekki að elska mig, bara vera góður við mig, svaraði ég kæruleysislega og svo söng ég bæði hátt og illa, nokkrar línur úr þýðingu Jónasar Árnasonar á kvæði úr Gísl, ef ég man rétt, lagið er Oh,Dannyboy

það elskar mann sko ekki nokkur kjaftur
nem´ef að maður sjálfur skyldi gera það

Og ég hugsaði með mér að þessi söngur ætti sannarlega illa heima í draumi sem hefði allar forsendur til að verða blautlegur.

Þá var maðurinn sem elskaði mig einu sinni fyrir löngu allt í einu kominn. Hann sat hinummegin við mig og ég vissi að hann hefði verið þar allan tímann og fannst það óviðeigandi af honum en var samt ekki hissa.

-Fyrirgefðu, en ég elska þig, svo hvar kem ég inn í myndina? sagði maðurinn sem elskaði mig fyrir löngu.
-Þú kemur ekki inn í myndina, svaraði ég, þú giftist annarri og ert ekki inni í myndinni lengur.

Hann strauk hárið frá enninu á mér með vísifingri og þá sá ég að þetta var alls ekki þessi maður, heldur bróðir mannsins sem mig langar svo til að giftast (ég þekki þann bróður ekki neitt og það hefur aldrei hvarflað að mér að giftast honum, hvað þá sofa hjá honum) og að hann var mjög horaður. Mér fannst einhvernveginn rökrétt að hann væri þarna en vék mér samt undan snertingunni.

-Við gætum gert þetta að samvinnuverkefni, sagði bróðirinn við viðfang giftingaróra minna og mér leið eins og ég væri ekki einu sinni á staðnum.
-Annar okkar gæti búið með henni en hinn sofið hjá henni, hélt bróðirinn áfram og ég sem verð ekki oft kjaftstopp, hugsaði með mér að það yrði sennilega skrýtið, settist upp í rúminu en kom ekki orðum að því sem ég ætlaði að segja.

Viðfang giftingaróra minna kallaði bróður sinn snilling og sagði að þetta væri sennilega afar skynsamleg niðurstaða.
-Við, heima hjá okkur stöndum nefnilega saman í hverjum vanda, bætti hann við og leitaði að tíkalli í vasa sínum til að kasta upp á hvor fengi hvort hlutverkið. Hann fann tíkall og þá vissi ég að þetta var peningurinn sem ég sendi Manninnum sem átti ekki tíkall á sínum tíma, með þeim orðum að næst þegar hann sliti sambandi ætti tíkallaskortur ekki að hindra hann í því að hringja og tilkynna breytt fyrirkomulag. Ég varð angistarfull af því að ég vissi að þetta var höfnunartíkall, svo ég réðst hágrátandi á doktorinn og ætlaði að rífa tíkallinn af honum. Hann misskildi þetta hinsvegar og hélt að ég ætlaði að tæta fötin utan af honum í taumlausri vergirni. Hann reyndi að tala um fyrir mér með fræðimannslegri yfirvegun, útskýrði í löngu máli að þetta væri ekki votur draumur og að ég gæti ekki stjórnað öllu sem gerist í draumum fremur en raunveruleikanum, en hinn grindhoraði bróðir hans tók tíkallinn, sat á rúmstokknum og skellihló eins og þetta væri í raun og sannleika mjög fyndið.

Eitthvað meira gerðist en ég get ekki rifjað það upp, veit bara að ég vaknaði í svitakófi og hugsaði með mér að það væri ekki þetta sem átt væri við með blautum draumi.

Best er að deila með því að afrita slóðina